12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég verð að biðja forseta að afsaka það, þó að ég kunni að syndga upp á náðina, og vænti, að hann kunni að virða mér það til vorkunnar, þótt mál mitt lengist nokkuð.

Mig furðar á þeim ummælum, sem hæstv. dómsmrh. lét hér falla, og sérstaklega þegar ég lít á þá meginskoðun, sem jafnan hefur komið fram hjá honum, fyrst sem hæstaréttardómara og síðar sem dómsmrh. Hann taldi, að þessa till., sem ég flytti hér, gæti verið nokkuð erfitt að framkvæma. Meginatriðið, sem hann taldi því til fyrirstöðu, var það, að ekki væri hægt að fá neinn mann með raunhæfa þekkingu til þess að taka að sér þetta starf innan svo skamms tíma sem till. gerir ráð fyrir. Mig furðar því mjög á að heyra slík ummæli frá hæstv. dómsmrh., þegar vitað er, að sá maður, sem bætir upp þekkingarskort núverandi lögreglustjóra og hefur verið fulltrúi hans, hlýtur að vera maður með raunhæfa þekkingu á þessum málum. Mér finnst slík ummæli hæstv. dómsmrh. vera lítt rökstudd, og er því vafasamt, að ég taki önnur ummæli hans um þessa till. eins alvarlega, úr því að þetta er aðalröksemd hans gegn þessari till.

Ég ætla því næst að drepa nokkrum orðum á það atriði, sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. út af því, að þessi till. væri lítt framkvæmanleg vegna hinna stuttu tímatakmarka, sem hún gerir ráð fyrir. Þetta fæ ég ekki fallizt á og mun skýra mál mitt með því, sem í till. segir:

„Þegar lög þessi öðlast gildi, skal auglýsa lögreglustjóraembættið í Reykjavík laust til umsóknar með hæfilegum fyrirvara, enda hafi þá núverandi lögreglustjóra verið veittur kostur á öðru starfi samkv. 3. mgr. 16. gr. stjórnarskrárinnar.“

Maður hlýtur því að skilja þessa till. þannig, að ef ekki verður búið að útvega lögreglustjóra, áður en l. öðlast gildi eða fyrir 1. jan. 1944, þá skuli embættið auglýst engu að síður. Ég ætla ekki að fara út í neinar deilur við hæstv. dómsmrh., sem er okkar fróðasti maður í ísl. lögum, en mér finnst ekki þurfa miklar skýringar á þessari till. til þess að leggja þennan skilning í hana. Hér er sem sagt um ákveðin tímatakmörk að ræða í till., og langlíklegast er, að hægt sé að ganga frá þessu fyrir áramót. Hæstv. dómsmrh. sagðist ekki koma auga á neitt embætti, sem samboðið væri núverandi lögreglustjóra. Ég ætla ekki að fara út í langa ræðu um það. Við, sem upphaflega stóðum að því að flytja þetta frv., svipuðumst um eftir starfa handa honum, og við höfum í huga ákveðið embætti, sem nauðsynlegt er, að maður með sérþekkingu sé í. Ég fer svo ekki nánar út í það.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um ræðu hv. 1. þm. Árn., því að í henni kom ekkert nýtt fram. Hann sagði, að ég vildi hefja hér eldhúsdagsumræður. Það má vel vera, að framsóknarmenn hugsi svo í hvert sinn, ef minnzt er á gömul afglöp þeirra. Ég tel það skyldu mína hér á þessum stað, Alþ., að benda ekki aðeins á það, sem aflaga fer í dag, heldur einnig það, sem framkvæmt hefur verið í fortíðinni, ef ég tel það þjóðinni til skaða. Þótt mér þyki vænt um framsóknarmenn, þá þykir mér ekki nógu vænt um þá til þess að láta þá hrekja mig af þeirri skoðun minni, að þetta sé þingleg skylda mín.

Þá kem ég að ummælum hv. 2. þm. S.-M. Hann kom hér fram undir yfirskini guðhræðslunnar, en afneitaði hennar krafti. Annars voru meginatriði ræðu hans endurtekningar á því, sem blað Framsfl. hefur verið að tönnlast á síðastl. ár, að tveir forustumenn Sjálfstfl. séu eiðrofar, sem gangi með þrjá fingur sviðna. Þegar þessi maður þykist koma fram af hógværð um leið og hann flytur þennan boðskap Tímans, þá má hver lá mér það, sem vill, þó að ég finni ekki til sektar minnar gagnvart slíkum málflutningi. Hann hóf ræðu sína á því, að sig furðaði á því, að einn maður gæti ekki sætt sig við samkomulag allshn. Við hvaða einn þm. á þessi þm.? Ég veit ekki betur en að minnsta kosti þrír þm. hafi lýst yfir því, að þeir fylgdu minni till. Svo fór ekki betur fyrir hv. þm. S.-M., þegar hann kemur að því, að frv. það, er hv. 2. þm. Eyf. (GÞ), hv. þm. Snæf. (GTh) og ég fluttum hér á síðasta þingi, hafi fengið litlar undirtektir. Ég verð að skýra hv. dm. frá því, hvaða undirtektir það fékk. Leitað var álits lagadeildar háskólans, og mælti hún eindregið með því, að frv. yrði samþ. En hvað gerðist svo hér á Alþ.? Snerist n. gegn því? Allshn. skilaði málinu þannig frá sér, að 4 af 5 nm. allshn. lögðu til, að frv. yrði samþ. Nú er svo komið, að allshn. hefur tekið upp meginprincip frv. okkar, og meira að segja flytur nú ríkisstj. frv. um sama efni. Ég þykist nú hafa fært rök fyrir því, að ástæðulaust er að tala um litlar undirtektir undir frv. okkar, og þarf svo ekki að fara frekari orðum um þetta munnfleipur hv. 2. þm. S.-M.

Ég tók það fram í ræðu minni hér á undan, að því færi fjarri, að ég vilji koma þeim manni, sem nú er lögreglustjóri, á kaldan klaka. Við höfum einmitt haft í huga annað embætti fyrir hann, sem er við hans hæfi. Síðan kemur sú efnishlið málsins, þegar þm. segir, að við höfum engin rök flutt fyrir nauðsyn þess, að lögreglustjóri hafi lögfræðimenntun. Ég get vitnað þar til minnar fyrri ræðu og ræðu hv. þm. Snæf., er hann flutti í gær við 2. umr., þar sem við töldum fram þau atriði, sem við töldum vera nægilegar röksemdir í þessum efnum, og ætti ekki að vera þörf á að endurtaka nú. Það hefur margoft verið á það bent, að embætti lögreglustjóra krefst lögfræðiþekkingar vegna ýmsra mála, er undir hann heyra, t. d. handtökur, strandmál, heilbrigðismál, útlendingaeftirlit o. fl., sem útheimtir lögfræðimenntun, og ef einhver segir, að ekki hafi verið fundið að embættisfærslu þessa manns, sem undanfarið hefur farið með þetta embætti, þá er það alkunna, að embættisframkvæmdir þessa manns hafa alls ekki kostað ríkissjóð svo lítið fé, einmitt vegna vanþekkingar hans á starfi sínu. Einnig er það alkunna, að þessi maður hefur komizt í kast við undirmenn sína og yfirsjónir hans hafa komið fyrir dómstólana.

Ég þykist nú hafa gert grein fyrir flutningi þessarar till., sem hér liggur fyrir, og fært nægileg rök fyrir því, að leiðrétting þessara mála sé nauðsynleg. Mig furðar ekkert á, þó að framsóknarmenn rísi upp með þjósti og brigzli mönnum um ofstopa, þegar að því er komið að leiðrétta þeirra gömlu glöp, og þess vegna skil ég það, að hv. 2. þm. S.-M. tekur þetta sárt. Ég veit líka, að Framsfl. er vanur því að fá að fara sínu fram og að hann er vanur að fá að skipa óhæfa menn í embætti, en hins vegar tel ég það alls ekki skyldu mína eða köllun að semja mig að háttum framsóknarmanna, eins og þeir hafa hagað sér undanfarin ár, háttum, sem þeir hafa verið að reyna að innleiða hér og ekki hvað sízt, þegar um embættisveitingar er að ræða. Ég veit, að hv. 2. þm. S.-M. mun standa hér upp eins og lamb og bera mér á brýn ofstopa og að forustumenn Sjálfstfl. séu með sviðna 3 fingur, en að hann sjálfur sé að bæta velsæmið hér á Alþ. Mér þykir leitt að þurfa að fara út fyrir efni málsins, en þegar tilefni er gefið til þess á jafnögrandi og dólgslegan hátt og kom hér fram hjá hv. 2. þm. S.-M., þá mun ég hvorki nú né síðar ganga fram hjá því að taka framsóknarmenn til bæna.