12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Eysteinn Jónsson:

Ég hygg, að þeir, sem hafa heyrt síðari ræðu hv. þm. N.-Ísf. og ekkert hafa heyrt annað, sem farið hefur hér fram í dag, mættu halda, að ég hafi risið hér upp með árás á þm. að tilefnislausu og honum hafi því verið nauðugur einn kostur að bægja slíkri árás frá með þeim hætti, sem hann gerði hér tilraun til. Þessi maður hefur upp úr þurru og að tilefnislausu leyft sér að viðhafa þau orð í þingræðu, að hv. þm. Str. og ég værum þannig, að ekkert mark væri takandi á því, sem við hefðum sagt í tilteknu máli um fyrrverandi samstarfsmenn okkar í ríkisstj. Þegar ég fór svo að leiðrétta það, þá talaði þm. þannig eins og ég hefði hafið þessar umræður að fyrra bragði og að ástæðulausu. Ég ætla ekki að fara út í langa ræðu, en ætla að taka það fram aftur, að það, sem hv. þm. Str. og ég höfum upplýst um þetta, eru staðreyndir, sem aldrei verða hraktar og öll þjóð veit, nema ef til vill hv. þm. N.-Ísf. Og þótt hann sé sjálfráður um sitt álit, þá mundi honum hollast að hreyfa þessu ekki hér á þingi. Hann sagði, að ég hefði talað hér með kennimannlegri ró. Ég held, að hann hefði gott af að tileinka sér eitthvað af þessari ró í stað þess að verða stöðugt ósvífnari, eftir því sem hann situr lengur á þingi.

Ég þarf annars ekki að fara fremur út í einstök málsatriði, þar eð dómsmrh. og 2. þm. Reykv. hafa skýrt, hversu till. háttv. þm. er ótilhlýðileg og fráleit. Hann gerði mikið úr því, að ég hefði rangt fyrir mér, er ég hélt fram, að frv. hans hefði beðið hrakfarir. En má ég spyrja: Hvað varð af frv.? Það náði ekki fram að ganga. Ætli ekki geti verið, að nægilegt þingfylgi hafi skort? Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri.