20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Ólafur Thors:

Út af ummælum, er fallið hafa hér í deildinni í sambandi við umr. um mál það, sem hér er á dagskrá og varðar einkaviðræður, er fram fóru á síðastliðnu ári milli Eysteins Jónssonar, Hermanns Jónassonar, Jakobs Möller og mín, meðal annars um kjördæmamálið, vil ég taka þetta fram:

Okkur Jakob Möller hefur verið kunnugt um það, að blað Framsfl., Tíminn, hefur um alllangt skeið lagt sig mjög fram um að ausa okkur auri fyrir þá sök, að við höfum svikið „drengskaparheit“, sem við eigum að hafa gefið þeim Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni um það að koma í veg fyrir, að nokkrar breyt. á kjördæmaskipuninni næðu fram að ganga á Alþ. áður en kosningar þær, sem fyrirhugaðar hefðu verið á árinu 1942, færu fram. En jafnvel þótt allar líkur bentu til þess, að þessi söguburður blaðsins hlyti að vera runninn undan rifjum þessara tveggja nefndu manna, töldum við ekki ástæðu til annars en láta hann sem vind um eyrun þjóta, að minnsta kosti þar til þeir legðu nöfn sín við hann opinberlega, annar hvor eða báðir.

Nú hafa þau tíðindi gerzt, að því er við höfum fregnað, að Eysteinn Jónsson hefur hér í d. gert þennan söguburð blaðsins að sínum að meira eða minna leyti, og teljum við því rétt að lýsa yfir því, að söguburður þessi er allur mjög fjarri sanni.

Í rauninni gæti ég látið þetta nægja, en skal þó til frekari áréttingar fara nokkrum fleiri orðum um málið.

Því er haldið fram, að í því skyni að fá þá Hermann Jónasson og Eystein Jónsson til að fresta bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík, er fram áttu að fara í janúar 1942, meðan prentaraverkfallið stóð og engin blöð nema Alþýðublaðið fengust prentuð í Reykjavík, höfum við Jakob Möller tekizt á hendur ábyrgð á því og jafnvel unnið eið að því, að enda þótt kosið yrði til Alþ. sumarið 1942, skyldu engar breyt. á kjördæmaskipuninni ná fram að ganga, áður en þær kosningar færu fram, alveg án hliðsjónar af, hvaða breyt. yrðu bornar fram og hverjir það gerðu.

Í þessu sambandi er rétt að minna á, að í útvarpsræðu, er Hermann Jónasson flutti, eftir að ríkisstj. hans hafði gefið út bráðabirgðalög til að fresta þessum umræddu bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík, staðhæfði hann, að sú lagasetning væri reist á augljósu og óyggjandi réttlæti. Jafnmikil fjarstæða væri að láta kjósa, meðan stöðvuð væri útgáfa blaða allra flokka nema eins, sem það, að dómari kvæði upp dóm í máli, ef aðeins öðrum aðilanum hefði verið gefinn kostur á að setja fram sitt sjónarmið.

Ég vil nú spyrja: Þykir mönnum líklegt, að maður, sem í 7 ár hefur verið dómsmrh. Íslands, hafi verið með öllu ófáanlegur til að verða við eindregnum tilmælum tveggja ráðh., sem í 3 ár höfðu setið í stj. með honum, um jafnaugljóst réttlæti sem hér var um að ræða, án þess að fá sérstaka borgun fyrir.

Og hvað er það svo, sem Hermann Jónasson á að hafa selt réttlætið fyrir? Ekkert minna en það, að við Jakob Möller tækjum á okkur ábyrgð á því, að sjálfstæðismenn á Alþ. felldu eitt elzta og stærsta áhugamál flokksins, hversu réttlát lausn á því sem í boði hefði verið, en gengju síðan til kosninga til þess þannig að leggja málið og flokkinn í eina gröf.

Er þetta líklegt? Er það sennilegt, að það hafi verið þetta, sem Hermann Jónasson heimtaði sem endurgjald fyrir að fullnægja réttlætinu? Og tekur nokkur maður það trúanlegt, að við Jakob Möller hefðum gert slíkan samning?

Þetta er of mikil fjarstæða, til þess að því verði trúað. Við það bætist svo, að Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, sem sjálfir eru í flokki, sem sett hefur sér þau lög, að allir þingmenn flokksins séu skyldugir að beygja sig undir samþykkt meiri hluta miðstjórnar flokksins og greiða atkvæði á þ. samkv. þeim vilja án hliðsjónar af persónulegum skoðunum, þessir tveir fyrrverandi ráðherrar, sem ekki einu sinni geta gefið fyrir fram skuldbindingar um sitt eigið atkvæði á þ., hlutu að vita, að Jakob Möller og ég gátum með engu móti skuldbundið Sjálfstfl. í þessu mikilvæga máli, án þess svo mikið sem að tala við einn einasta þm. flokksins.

Það hefði því verið fráleitt af Jakob Möller og mér að gefa slíkt loforð, eins og það hefði verið fávíst af Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni að krefjast þess eða að taka það gilt, þótt gefið hefði verið.

Ég endurtek því, að þessi söguburður er fjarri öllum sanni.

Hið sanna í málinu er, að eftir að Stefán Jóh. Stefánsson gekk úr ríkisstj. í janúar 1942 og við fjórir, sem eftir urðum, vorum að semja um áframhald samstarfsins, sögðum við Jakob Möller að gefnu tilefni þeim Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni, að við teldum víst, að Sjálfstfl. mundi ekki á næsta þ. taka upp þetta gamla deilumál, enda hélt þá Sjálfstfl. enn fast við fyrri ákvörðun um kosningafrestun, en að sjálfsögðu kom ekki til með kjördæmamálið, ef sú stefna varð ofan á á Alþ. Enn fremur fullvissuðum við þá Hermann Jónasson og Eystein Jónsson um, að Sjálfstfl. mundi aldrei slást í förina með Alþfl. og aðhyllast þá stefnu, sem hann frá öndverðu hafði sett fram og aldrei hvikað frá, að gera landið allt að einu kjördæmi.

En eins og hver einasti vitiborinn maður getur sagt sér sjálfur, gat hér ekki verið um neitt að ræða af okkar hendi annað en dóm okkar um horfurnar í þessu máli, og til þess að véfengja eða staðfesta þann dóm stóðu Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson alveg jafnt að vígi og við.

Hvorki þeim né okkur kom svo mikið sem til hugar það, sem síðar skeði, er Alþfl. féll frá fyrri stefnu sinni í málinu og bar það fram einmitt í því formi, sem Sjálfstfl. í mörg ár hafði barizt fyrir, en Alþfl. ekki fengizt til að fallast á.

Eftir það gat auðvitað engum dottið í hug, að við Jakob Möller gætum né vildum svæfa málið, ef kosningar á annað borð áttu fram að fara.