04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

27. mál, fjárlög 1944

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar brtt. á þskj. 314. Meðal þeirra er X. brtt. um aukið framlag til hafnargerðar á Húsavík, eða 250 þús. kr. í stað 100 þús. Það er óþarfi að vekja athygli á nauðsyn þessarar hafnargerðar, sem hefur margsinnis verið bent á áður, en í fyrsta lagi er það, að Húsavík er ein af helztu útgerðarstöðvum norðanlands, og í öðru lagi, að hafnargarðurinn er í hættu eins og er. Á s. l. ári var varið 100 þús. kr. til að bæta hafnargarðinn. Enn er liðurinn 100 þús. kr. Ég vil vekja athygli á því, að með því að veita aðeins 100 þús. kr. til þessarar framkvæmdar er í raun og veru ákveðið, að ekki skuli byrja á verkinu fyrr en næsta ár, því að það er ekki hægt að byrja með svo litlu fé. Það virðist því vaka fyrir fjvn. að fresta í eitt ár enn, að hafnargarðurinn sé byggður. Nú vitum við, að það er mikið áhugamál Húsavíkurbúa, að þetta sé gert. Hvað eftir annað hafa þeir sent áskoranir um það, og sýslumaðurinn í Suður-Þingeyjarsýslu, Júlíus Havsteen, hefur verið hér syðra og ritað fjvn. og skorað á hana að veita ekki minna en þetta, sem ég fer fram á, til verksins. Allt þetta og ekki sízt hversu bagalegt það er fyrir síldarverksmiðjurnar, að verkið dragist, sýnir, hversu nauðsynlegt það er að auka fjárveitinguna til þessa fyrirtækis. Sýslumanni farast þannig orð í grein, sem hann ritar í Morgunblaðið (með leyfi hæstv. forseta) : „Málin horfa þá þannig við: Höfnin bíður eftir verksmiðjunum, verksmiðjurnar eftir hafnargarðinum og sjávarútvegurinn eftir hvoru tveggja.“

Ég skal svo ekki vera með óþarfa málalengingar, en aðeins benda á, að þeir, sem greiða atkv. móti aukinni fjárveitingu í þessu skyni, greiða atkv. með því, að ekkert verði gert á næsta ári, því að með því, sem ætlað er, er ekkert hægt að gera.

Þá flyt ég aðra brtt., nr. IV. á sama þskj., um lítils háttar hækkun til Reykjahverfisvegar. Ég legg til, að framlagið sé hækkað úr 10 þús. í 20 þús. kr. Ég þekki til þessa vegar. Hann komst í þjóðvegatölu á s.l. ári. Reykhverfingar höfðu þá í 14 ár lagt mikið af ókeypis vinnu í hann, en á s. l. sumri var hann óakandi á partí. Þá var lítils háttar unnið við hann, en það er langt frá, að þetta fé hrökkvi til þess, að hægt verði að gera hann nægilega góðan. Þessi vegur er mikilsverður. Hann tengir Hverina og Húsavík, og kemur til að tengjast veginum, sem liggur upp frá Laxárvirkjuninni. Oft er þannig háttað, að hann mundi fær, þó að Aðaldalsvegurinn sé ekki fær, þegar hlaup kemur í Laxá, og þá væri hægt að fara hann milli Húsavíkur og Akureyrar. Það mundi ekki kosta mikið að gera hann akfæran. Tuttugu þús. koma nær því en 10 þús.

Þá er enn ein brtt., nr. XV. um að fjárveiting til bókhlöðunnar á Húsavík verði 10 þús. í stað 3 þús. kr. Þetta er lagt til af sérstökum ástæðum. Það hafa komið fram tilmæli frá forstöðumanni bókhlöðunnar, að þessi upphæð verði veitt. Það þarf ekki að skýra fyrir þm., hversu merkilegt safn það er, sem Benedikt Jónsson frá Auðnum stóð fyrir að koma þarna upp. Það er alþjóð kunnugt. Hann var búinn að gera bókasafnið þannig úr garði, að það er sárt, ef ekki er hægt að halda því við. En viðgerð á bókhlöðunni verður seint lokið, ef ekki á að veita meira fé en þetta til að fullgera bygginguna og skrásetja safnið, jafnvel þótt sams konar tillag komi á móti frá sýslunefnd.

Það, sem lagt hefur verið til þessa bókasafns, hefur verið mjög lítið: 1500 kr. frá Alþ., 1500 frá sýslun. og 500 kr. frá hreppsn. Bókavörðurinn fær 300 kr. í árslaun. Mér fyndist því vel til fallið, að Alþ. sýndi þá rausn að hækka þessa upphæð og sýndi um leið skilning sinn á því menningarstarfi, sem þarna hefur verið unnið.

Þá er enn á sama þskj. brtt. nr. XXI, að Jóni Tryggvasyni í Bárðardal séu veittar 200 kr. í styrk. Hann var póstur í 14 ár, en þurfti þá að hætta því starfi sökum heilsuleysis. Hann hefur tvisvar farið þess á leit við Alþ., að það veitti sér einhverja upphæð, og ég veit, að honum finnst sér óréttur ger með synjun þeirrar bónar. Ég fer aðeins fram á lága upphæð, en skil, að í samanburði við það, sem öðrum er veitt, er ekki til neins að nefna hærri fjárhæð. En ég vil mælast til, að Alþ. samþ. þetta.

Þá er till. nr. XXIV, um að hækka laun til Önnu Pálsdóttur, ekkju Sigurðar Sigurðssonar skálds og systur Árna Pálssonar prófessors. Að vísu er ég ekki að álasa hv. fjvn., þó að hún hafi ekki hækkað launin til þessarar konu, því að þessar 600 kr. eru sama upphæð og flestar aðrar skáldaekkjur hafa í fjárl. En það stendur þannig á með Önnu, að ástæður hennar eru sérstaklega slæmar. Hún sér um tvö dætrabörn sín og hefur kennt fiðluspil. Nú hefur hún misst húsnæðið, en fengið að búa í herbergi með öðrum, en getur ekki stundað starf sitt undir þessum skilyrðum. Tel ég því víst, að Alþ. samþ. þessa till.

Fleiri eru ekki þær till., sem ég er fyrsti flm. að, og munu þeir, sem eru fyrstu flm. að öðrum till., sem ég einnig stend að, mæla fyrir þeim. Tel ég því óþarft, að ég geri það. Ég tel ekki heldur ástæðu að víkja að till. annarra þm., nema ef vera skyldi sú frá minni hl. fjvn. um styrk til skálda og listamanna, en reyndar eru komnar fram till. frá öðrum þm., og munu þeir mæla með þeim — um að fjárveitingin hækki um 1/3 frá núgildandi fjárl., en það voru till. menntamálaráðs, samþ. með öllum greiddum atkv., að styrkurinn hækkaði um 1/3. Þessu máli hefur svo oft verið lýst hér á Alþ., að ég skil ekki í öðru en að það fái góðan byr. En ég get lýst því yfir, að mér finnst fjárveitingin of lág, og ég öfunda ekki menntamálaráð eða aðra, sem eiga að skipta fénu. T. d. get ég bent á, að s. l. ár korn ekki nema svo lítið í hlut leikara, að þeir treystu sér ekki til að skipta fénu. Ég tel, að 225 þús. kr. þyrfti, svo að hver deild, utan rithöfundad., fengi 50 þús. kr., en rithöf. 75 þús. Þó munu menn geta sætt sig við það í svipinn, ef framlagið er hækkað um 1/3, en erfitt verður samt að skipta því fé. Ég vil benda á, að þjóðleikhúsið tekur bráðum til starfa. Leikarar geta ekki haldið áfram að búa sig undir starfið í hjáverkum sínum. Þeir telja, að þeir muni þurfa 15 starfandi menn við þjóðleikhúsið. Þetta getur Alþ. búið sig undir að athuga, ef ekki á þessu þingi, þá á næsta þingi, þegar þjóðleikhúsið er tekið til starfa.