20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú talað tvisvar örstutt í þessu máli, sem er nú talið vera hér á dagskrá. En umræðurnar hafa nú tekið sérstaka stefnu, og vil ég því vænta þess, að hæstv. forseti verði þolinmóður, þó að ég hljóti að gera meira en örstutta aths. En ég skal reyna að tala svo stutt sem unnt er eftir atvikum.

Mér þykir nú leiðinlegt, að hv. þm. G.-K. (ÓTh) hefur látið hafa sig til þess að bæta gráu ofan á svart. Ég hafði að vísu hálft um hálft búizt við því, að hann yrði svo króaður í horn af ofstopamönnum í flokki sínum, að svona mundi fara. En eigi að síður þykir mér þetta leitt.

Það er náttúrlega þýðingarlaust, að menn standi hér og segi: „Klippt var það. Skorið var það“ — í þessu máli. En af því að hv. þm. G.-K. hafði þá aðferð að gera grein fyrir líkum í sambandi við skýrslu sína, ætla ég að hafa svipaða aðferð í því, sem ég segi út af viðskiptum okkar.

Upphaf þeirra umræðna, sem hér hafa farið fram um drengskaparloforð fyrrv. ráðh. Sjálfstfl., er það, að hv. þm. N.-Ísf. (SB) bar mig og hv. þm. Str. þeim brigzlum í ræðu, að við værum ósannindamenn að framburði um viðskipti okkar og fyrrv. ráðherra Sjálfstfl. og þess vegna væri ekki mark takandi á því, sem við héldum fram um önnur efni. Út af þessu tilefni svaraði ég því, að það, sem við hv. þm. Str. (HermJ) hefðum sagt og látið hafa eftir okkur — opinberlega um drengskaparloforð ráðherra Sjálfstfl., væri rétt og satt, og ég endurtek það hér, að það er rétt. En það, sem við höfðum látið hafa eftir okkur í málinu, er það, sem hér fer á eftir. Hefur það komið í Tímanum og er tekið upp úr skýrslum, sem við gáfum trúnaðarmönnum í flokki okkar skriflega, nú á þessu ári. Með leyfi hæstv. forseta eru ummæli okkar þannig:

„Eftir að gerðardómslögin höfðu verið sett, var samið við Sjálfstæðisflokkinn um kosningafrestun í Reykjavík og um skattamálin, og jafnframt lofuðu þeir Ólafur Thors og Jakob Möller því og lögðu við drengskap sinn, að þeir skyldu sjá um, að breytingar á kjördæmaskipuninni yrðu ekki samþykktar fyrir kosningar um vorið 1942, sem þá voru ráðnar.“

Þetta er það rétta í þessu máli. Þetta loforð var gefið kl. 12.25 17. janúar 1942.

Aðdragandi þessara atburða er sá, að Sjálfstfl. og Framsfl. stóðu saman að gerðardómslöggjöfinni. Þessi löggjöf mætti talsvert verulegri mótspyrnu, eins og kunnugt er, og flokkarnir sáu, að ef unnt átti að verða að framkvæma löggjöfina, þá yrðu þeir að gera með sér víðtækara samstarf, sem gæti orðið svo varanlegt, að það gæti náð fram yfir þann tíma, sem þurfti til þess að gera l. gildandi í framkvæmd og stöðva dýrtíðina.

Sjálfstfl. taldi sér mikla nauðsyn á því að fá frestað bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík, því að þá stóð yfir prentaraverkfall. Það voru skiptar skoðanir um það innan Framsfl., hvort það ætti að gera þetta. Sumum fannst eðlilegt að gera það, en öðrum fannst það ekki eðlilegt. Sumum fannst, að bæjarstjórnarkosningar gætu farið fram þrátt fyrir verkfallið. Sú skoðun varð þó ofan á að lokum, að eðlilegt væri, eins og þá stóð, að fresta þessum bæjarstjórnarkosningum, ef samkomulag yrði milli flokkanna um önnur mál. Mönnum var það ljóst, að baráttan mundi enn harðna. Þess vegna var gerður málefnasamningur um afgreiðslu skattamálsins, sem var eins konar viðbót við það samkomulag, sem orðið hafði um gerðardómslögin og þann þátt dýrtíðarmálanna.

Raddir komu fram innan Framsfl. um það, að mjög væri farið að bóla á því í herbúðum Alþýðuflokksmanna, að þeir ætluðu að taka kjördæmamálið upp og gera Sjálfstfl. þannig erfitt fyrir í sambúðinni við Framsfl.

Jafnframt fylgdi það orðasveim þessum, að það mundi vera ætlun Alþfl. að taka þetta mál upp á þann hátt, sem örðugast væri fyrir Sjálfstfl. að neita því, en ekki á þann hátt, sem Alþfl. teldi réttast að leysa málið. Nú voru til menn innan Framsfl., sem litu svo á, að það væri í sjálfu sér ekki ástæða til þess að draga svo mjög þetta atriði inn í samningana, vegna þess að það mundi aldrei geta komið til mála, að Sjálfstfl. hugsaði sér aðrar eins aðferðir og þær, að gera fyrst samninga um afgreiðslu á erfiðustu fjárhagsmálum, en ganga svo í berhögg við Framsfl. rétt á eftir með því að afgreiða kjördæmamálið, sem allir vissu, að var deilumál milli Framsfl. og Sjálfstfl. En hinir voru miklu fleiri innan Framsfl., sem töldu það alveg nauðsynlegt, að því samkomulagi, sem gert væri um fjárhagsmálin og frestun bæjarstjórnarkosninga, fylgdi einnig trygging af hálfu Sjálfsfl. fyrir því, að hann ryfi ekki samkomulagið og snerist með kjördæmabreyt., þegar stutt væri á leið komið, eyðilegði þannig málin, sem unnið væri að, og þannig hryndi til grunna allt, sem reynt hafði verið að byggja upp. Framsfl. krafðist þess vegna í þeim viðtölum, sem fram fóru, að ráðherrar Sjálfstfl. gerðu samninga um það fyrir flokksins hönd, að kjördæmamálið yrði ekki afgreitt af Sjálfstfl. með andstöðuflokkum ríkisstj. fyrir þær kosningar, sem fyrir dyrum stóðu. Ráðherrar Sjálfstfl. hugsuðu sig um, en það kom þó mjög greinilega fram af þeirra hálfu, að þeir töldu sjálfir, að það væri ósvinna að taka kjördæmamálið upp, eins og þá stóð, — og þarf ekki neinn vitnisburð um það efni, því að fyrir liggja um það vitnisburðir margra manna. En þeir sögðu, að það væri örðugt fyrir þá að gera um þetta skriflegan samning, eins og á stóð, þótt þeir væri þessarar skoðunar. Við skýrðum þeim hins vegar frá því, að ekki væri unnt fyrir okkur framsóknarmenn að halda áfram samstarfi og fallast á kosningafrestunina, nema hitt lægi skýlaust fyrir frá þeirra hálfu. Um miðjan janúar voru málin komin í hnút út af þessu, og 16. janúar var fullkomlega tvísýnt, hvort samkomulag gæti náðst.

Ég veit ekki, hvað gerzt hefur í herbúðum Sjálfstfl. 16. og 17. janúar, en eftir að þeir höfðu fengið frest þann 16. og mælt sér mót við okkur í Stjórnarráðinu þann 17., var gengið frá þessum málum kl. 25 mínútur yfir 12 á þá lund, sem ég hef hér sagt frá, og það eitt er satt í þessu máli, hverju sem haldið verður fram.

Það má vel vera og virtist raunar liggja í orðum hv. þm. G.-K., að óverjandi hafi verið af okkur að taka gilt slíkt drengskaparloforð, sem lá ekki skriflegt fyrir. En hvað annað gátum við gert? Það hefði óneitanlega verið freklega móðgandi í þeirra garð, hefðum við neitað að taka mark á drengskaparloforði þeirra.

Hv. þm. G.-K. taldi fram nokkur atriði til sönnunar því, að mönnum væri óhætt að trúa því, sem hann segði um þetta. Hann segir t. d., að undarlegt hafi verið að heimta borgun fyrir frestun bæjarstjórnarkosninganna. En ég vil spyrja: Var það nokkur krafa um borgun, þó að óskað væri eftir tryggingu fyrir því, að samstarfsflokkurinn hlypi ekki að baki Framsfl. til þess að leysa málið á þann hátt, sem allir vissu, að Framsfl. var gersamlega mótfallinn? Var þetta annað en sjálfsagður hlutur, þegar verið var að gera samninga um samstarf flokkanna? Hv. þm. sagði, að það væri óviðeigandi, svo að fram úr hófi gengi, að menn skyldu leyfa sér að gefa í skyn, að þeir hefðu getað samið um að fresta framkvæmd kjördæmabreyt., ef upp á væri boðið á þá lund, sem Alþfl. gerði. En hvernig kemur þetta heim við það, sem fyrir liggur í málinu að öðru leyti? Það vita allir, sem kunnugir er í herbúðum Sjálfstfl., að hv. þm. G.-K. var persónulega mótfallinn því frá upphafi, að kjördæmamálið yrði afgreitt, enda þótt boðið væri upp á lausn Alþfl.

Ég vil með öðru fleira í sambandi við þetta mál minna á vitnisburð um þetta frá manni, sem var um þær mundir í innstu herbúðum Sjálfstfl. og hefur gefið skýrslu um það, sem þar fór fram 16. og 17. janúar 1942. Árni Jónsson frá Múla, fyrrv. alþm., hefur skýrt nokkuð frá þessu í grein, sem hann kallar Sögu um svik. Þar segir, að nóttina milli 16. og 17. janúar hafi hann ásamt fleirum verið kallaður heim til formanns Sjálfstfl. til að ráða fram úr þeim vanda, sem þá var á höndum. Hann segir, að hv. þm. G.-K. hefði þá sagt, að tilefni þessa næturfundar væri það, að Framsfl. krefðist þess, að Sjálfstfl. stæði ekki að afgreiðslu kjördæmamálsins á þ., og vildi formaðurinn heyra undirtektir manna. Árni kvaðst hafa orðið svo reiður, að hann hafi yfirgefið fundinn og því ekki vitað, hvað þar fór síðan fram. En daginn eftir, 17. janúar, er haldinn fundur aftur í flokknum, og þá er komið á samkomulag um framhaldandi samstarf Sjálfstfl. og Framsfl., en þar var þó ekkert sagt frá því loforði, sem gefið hafði verið um kjördæmamálið, enda ekki á slíku von, þar sem það átti að fara leynt. Árni Jónsson segir, að á þeim fundi hafi hann óskað þess, að sett yrði sérstök n. til undirbúnings kjördæmamálinu. En hvernig tók hv. þm. G.-K. því? Eftir því sem honum fórust orð áðan, að ómögulegt hefði verið að fresta þessu réttlætismáli, skyldu menn ætla, að hann hefði tekið þessari till. mjög vel. En Árni Jónsson segir, að hann hafi tekið henni meir en fálega. Síðan segir Árni, að formaðurinn hafi gert sér ferð á eftir sér út á ganginn til að biðja sig að gera ekki þann óvinafagnað að hreyfa við kjördæmamálinu og lagt fast að honum að hætta við fund í Varðarfélaginu, sem boðaður hafði verið um kjördæmamálið. Okkur, sem þennan sama dag höfðum fengið þetta loforð hjá hv. þm. G.-K., kemur þetta ekki undarlega fyrir sjónir, og það bendir til þess, að hann hefur þó ætlað einhverja stund að standa við loforð sitt. Síðan segir þessi fyrrv. þm. Sjálfstfl. frá enn eindregnari tilraunum hv. þm. G.-K. til þess að koma í veg fyrir, að fundur yrði haldinn um kjördæmamálið, og enn segir hann, að rétt fyrir bæjarstjórnarkosningar í kaupstöðum landsins hafi Alþýðublaðið birt þá fregn, að Sjálfstfl. hafi keypt sér frest á kosningum gegn því að afgreiða ekki kjördæmamálið. Einhverjir aðrir í flokknum ætluðu að fá þetta borið til baka, en það fékkst ekki. Hvers vegna ekki? Auðvitað vegna loforðs ráðherrans um að afgreiða ekki málið.

Síðan tekur Alþfl. upp kjördæmamálið á þeim grundvelli, að hlutfallskosning verði tekin upp í tvímenningskjördæmum. Þá tekur fyrrv. fjmrh., Jakob Möller, til máls við 1. umr. Menn skyldu nú ætla eftir orðum hv. þm. G.-K. áðan um þessa lausn, að þessi fyrrv. ráðh. hefði lýst yfir því, að óhugsandi væri, að Sjálfstfl. gæti frestað slíkri lausn. En hvað gerist? Þessi fyrrv. ráðh. tekur málinu meir en fálega. Hann varar við því að afgreiða málið, eins og þá standi sakir, og leggur áherzlu á, að menn geri sér grein fyrir því, hvað af slíku geti stafað, og leggst eindregið gegn afgreiðslu málsins. Hér virðist vera tilraun til þess að standa við loforð, sem gefið hafði verið, en kemur ónotalega við yfirlýsingu hv. þm. G.-K. nú. Ég vil biðja hv. þm. að taka þetta sérstaklega til athugunar og meta svo, hve mikið muni vera að marka framburð hv. þm. G.-K.

Þá vil ég næst minna á útvarpsumr., sem fram fóru í maí 1942. Þá var þung gremja í mönnum út af því, sem gerzt hafði, og mönnum skilst nú væntanlega, að það var vorkunnarmál. Þá segir hv. þm. Str. í umr., að við höfum haf: rökstudda ástæðu til að líta svo á og treysta því, að kjördæmamálið yrði ekki leyst af Sjálfstfl. fyrir kosningarnar, og hv. þm. G.-K., sem nú telur það ganga býsnum næst að láta sér detta í hug, að slík frestun hafi getað komið til greina, viðurkennir í umræðum, að við hv. þm. Str. höfum haft rökstudda ástæðu til að líta svo á, að kjördæmamálið yrði ekki afgreitt. Ég býst við, að hv. þm. hafi þótt það fullmikið að halda því fram, að ekkert hafi verið minnzt á kjördæmamálið í viðræðunum, og virði ég honum það til vorkunnar. Hefur hann tekið þann kost að halda því fram, að loforð sjálfstæðisráðherranna hafi verið um það að taka málið ekki upp né fylgja því, að landið yrði gert að einu kjördæmi. Um einstakar leiðir í kjördæmamálinu var ekkert rætt, og allt þetta tal um einstakar leiðir er í ósamræmi við sannleikann.

Að endingu vil ég minnast á eitt atriði enn. Hv. þm. G.-K. sagði, að blað Framsfl., Tíminn, væri lengi búið að ata hann auri í sambandi við þetta mál, en sagðist ekkert hafa viljað aðhafast í málinu, fyrr en hv. þm. Str. og ég gerðum framburð Tímans að okkar framburði. Hann hefur nú fengið tækifærið við frumhlaup hv. þm. N.-Ísf. og þess vegna hafizt handa um að mótmæla þessu. Út af þessu er rétt að geta þess, að liðnar eru vikur, ef ekki mánuðir, síðan Tíminn birti þau ummæli okkar hv. þm. Str., sem ég las upp áðan, svo að hv. þm. G.-K. hefði ekki þurft að bíða eftir þessu frumhlaupi hv. þm. N.-Ísf. En hvers vegna hikaði hann? Væntanlega af því, að hann veigraði sér við að bera á móti því, sem satt var í málinu. Ég tel honum það til ámælis að hafa nú látið undan pressunni og bætt gráu ofan á svart með því að mótmæla.

Ég hef tekið fram helztu atriðin í þessu máli og mun ekki segja fleira, nema tilefni gefist.