20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Finnur Jónsson:

Mér þykir rétt að láta það koma fram fyrir hönd Alþfl. út af ummælum hv. 2. þm. S.-M. og þm. G.-K., að þótt Alþfl. legði ekki fram till. um að gera landið að einu kjördæmi, þá hvikaði hann í engu frá þeirri stefnu, að að því bæri að miða. Sú breyt., sem gerð var á kjördæmaskipuninni, miðaði að því að tryggja, að réttur kjósenda yrði jafnari en áður. Alþfl. telur, að ekki hafi náðst fullkomið réttlæti, eins og þó ber að stefna að, en mikið hefur orðið ágegnt.

Annars ætla ég mér ekki að blanda mér inn í þessar umr., en annars benda á, að sú ásökun Alþfl. til Sjálfstfl. og Framsfl., að verzlað hafi verið með frestun bæjarstjórnarkosninganna og kjördæmamálið, er fullsönnuð af þeim ummælum, sem hér hafa komið fram. Hvort sem lagður er trúnaður á það, sem hv. þm. G.-K. segir, að tveir ráðherrar hafi lofað að gera allt, sem þeir gætu til að koma í veg fyrir, að kjördæmamálið næði fram að ganga eða hvort drengskaparorð hefur fylgt loforðinu, þá stendur sú staðreynd óhögguð. Í útvarpsumr., þar sem Jón Blöndal talaði fyrir hönd Alþfl., gerði hann sér far um að fá Hermann Jónasson og Ólaf Thors til að svara, hvort satt væri, að verzlað hefði verið með þessi mál, en hvorugur treysti sér til að svara. (ÓTh: Var ég í þeim útvarpsumr.?). Auk þess gátu þeir látið svara í blöðum sínum, en þeir gerðu það ekki heldur. Þessi verzlun, sem þarna hefur farið fram, hefur sannarlega verið misbeiting valdsins, — frestun bæjarstjórnarkosninga til þess að koma í veg fyrir, að annað mál yrði tekið upp. En Alþfl. tókst að sprengja þessa samvinnu, annars er erfitt að segja, hvar lent hefði. Frestun bæjarstjórnarkosninganna, gerðardómslögin og þetta, eru þrjú stærstu hneykslin, sem hér hafa verið framin. Það er ómögulegt að segja, hver endirinn hefði orðið, ef Alþfl. hefði ekki tekizt að sprengja þessa samvinnu.

Þá má benda á, að þjóðin er ekki orðin spilltari en svo, að þingið hefur allt fengið ámæli fyrir þessa verzlun. Þingið allt hefur hlotið þau, jafnvel þó að fyrir henni stæðu aðeins fjórir verzlunarstjórar, sem eftir stóðu í stjórninni, þegar StJSt hafði sagt af sér (ÓTh: Er hann verzlunarstjóri Alþfl.? ). Því var lýst yfir, að gert væri ráð fyrir, að Alþfl. legði sínar gömlu till. fram í kjördæmamálinu, og ef Sjálfstfl. hefði komið með sínar till. og svo hvor hinna flokkanna með sínar, þá hefði ekki verið neinnar lausnar að vænta. En Alþfl. fór þá leið að reyna að koma á nokkru réttlæti, og sem betur fór, virðist sem þm. Sjálfstfl. hafi þá tekið völdin af leiðtogum sínum í þessu efni.