20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Þóroddur Guðmundsson:

Það, sem ég ætlaði aðallega að tala um að þessu sinni, er brtt. 198, sem er um það, að lögreglustjóraembættið í Reykjavík skuli aðeins veitt að fengnu samþ. bæjarstjórnar Reykjavíkur. Mér finnst margt mæla með því, að þessi till. verði samþ. Í fyrsta lagi er þetta embættismaður, sem starfar í Reykjavík og hefur mikið saman við bæjarstjórnina að sælda varðandi ýmsar framkvæmdir og reglugerðir, sem bæjarstjórnin setur, og virðist mér því eðlilegt, að bæjarstjórn Reykjavíkur geti nokkru um það ráðið, hverjum sé veitt lögreglustjóraembættið. Í öðru lagi virðist mér óeðlilegt, að lögreglustjóri, sem bæjarstjórn ber ábyrgð á, sé þannig ráðinn, að bæjarstjórn ráði þar engu um, því að það er vitanlegt, að bæjarstj. ber ábyrgð á gerðum lögreglustjóra og rekstri þess embættis og það er auðvelt að gera bæjarstj. ábyrga fjárhagslega fyrir axarsköftum, sem lögreglustjóri kann að valda. Það er ekki hægt að mæla á móti því að það er ósanngirni, að bæjarstjórnin geti engu um það ráðið, hver situr í þessu embætti, en eigi samt sem áður að bera ábyrgð á því, hvernig embættið er rekið. Ég vona, að þetta sé svo augljóst sanngirnismál, að enginn hv. þm. verði á móti því, að þessi brtt. verði samþ. Að öðru leyti vil ég segja það í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum, þegar hæstv. dómsmrh. tók til máls, því að áður en hann tók til máls, var búið að ræða það, hvort nauðsynlegt væri, að lögreglustjóri hefði einhverja hernaðarlega menntun eða ekki, og nokkrir þm. lögðu allmikið upp úr því, að hann væri nokkurs konar herforingi, sem væri notaður til þess að stjórna lögreglunni, ef þyrfti að beita henni gegn stórum hópi manna. Það er bersýnilegt af þessum umr., að hér var ekki aðeins um það að ræða að halda uppi almennri reglu, heldur var einnig um það að ræða, hvort beita ætti lögreglunni í vinnudeilum.

Það er búið að fá nokkra reynslu um það, hvernig vinnudeilur hafa farið fram hér á landi. Reynslan hefur sýnt, að hafi lögreglan haft einhver afskipti af vinnudeilum, þá hefur það orðið til hins verra, en vinnudeilur hafa oftast verið leystar með samningum milli atvinnurekenda og verkamanna. Stundum hefur að vísu komið til verkfalla, en það hefur langoftast tekizt að leysa slík deilumál með samkomulagi á milli hlutaðeigandi aðila, nema þegar lögreglan hefur blandað sér í málið. Þessi reynsla ætti að vera sá skóli, að menn æsktu ekki eftir hana að útbúa lögregluna til þess að grípa inn í vinnudeilur. Ég átti von á því, að hæstv. dómsmrh. mundi koma inn á þetta mál, því að margir mundu gera mikið með hans orð og taka mikið tillit til þess, hvaða skoðun hann hefur á málinu. Í öðru lagi var í sambandi við þessa hlið málsins upplýst, að lögreglan hefði verið æfð í meðferð skotvopna, ekki aðeins með byssur, heldur einnig með vélbyssur og eiturgassprengjur. Það er bersýnilegt, að þessi vopnabúnaður lögreglunnar getur ekki verið til þess eins að halda uppi reglu, heldur hlýtur hann að vera ætlaður til þess, að hægt sé að beita lögreglunni í vinnudeilum. En það hefur ekki enn fengizt upplýst, með hvaða heimildum þessi vopnakaup hafa verið gerð, og það væri ekki óeðlilegt, að það kæmi fram á Alþ., hver ber ábyrgð á þessum vopnakaupum og hver hefur haft heimild til að taka fé úr ríkissj. til þessara vopnakaupa.

Ég geri ráð fyrir, að hæstv. dómsmrh. viti, hvernig í þessu liggur, og það hefði því verið fróðlegt, að hann hefði sagt þm. frá því, hvað hæft væri í þessu, og gefið nánari skýringar á því.

Nú vill svo til, að hér á landi er verið að agitera fyrir því að stofna hálffasistískan flokk að finnskri fyrirmynd, nokkurs konar einræðisflokk, og það er sýnilegt, að verði slíkur flokkur stofnaður, þá gæti það verið hættulegt, ef slíkur flokkur hefði mann í lögreglustjóraembætti. Það embætti gæti orðið hættulegt í höndum slíkra manna.

Ég hygg, að það hafi fleiri en ég orðið fyrir vonbrigðum við það að heyra ekkert frá hæstv. dómsmrh. um þetta mál. Að öðru leyti hef ég ekki fleira við þetta að bæta, en vil endurtaka það, að ég er fylgjandi till. hv. þm. N.-Ísf., og ég held, að umr. hafi staðfest, að sú till. á mikinn rétt á sér. Ég ætla ekki að deila á þann mann, sem nú situr í lögreglustjóraembættinu í Reykjavík. Það hafa verið bornar á hann þungar sakir, að hann hafi að ástæðulausu sparkað mönnum úr embættum, og ég verð að segja, að ef þær ásakanir eru á rökum reistar, þá er það allt annað en glæsilegt, en þó verður að telja enn þá hættulegri þann vopnaburð, sem nú á sér stað hjá lögreglunni.