20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. 8. þm. Reykv. vildi leggja að jöfnu reglur, sem gilda um ýmsar stéttir í landinu, svo sem presta og kennara, og veitingu slíkra embætta og reglur um veitingu lögreglustjóraembætta. Eins og allir vita, eru til sérstök l., sem gilda um kosningu presta og það vald, sem þar á sér stað um það, hver hreppi það og það embætti í hverju tilfelli. Svo er sá settur í embættið, sem flest atkv. hlýtur, þó að hann hafi ekki náð löglegri kosningu. Þar er um kosningu að ræða. Um kennarana er það svo, að fræðslun. hefur tillögurétt um val í kennarastöður, en úrslitavaldið er í höndum fræðslumálastjóra. En þegar litið er á lögregluna hér í Reykjavík og stjórn hennar, þá er það ekki nema eðlilegt, að bærinn hafi nokkurn íhlutunarrétt um val lögreglustjóra. En ef mig minnir rétt, þá er úrslitavaldið hjá lögreglustjóra, og ég tel því, að bærinn ætti að hafa meira vald en hann hefur nú um val manna í lögreglustjóraembættið. Ég held, að hæstv. dómsmrh. hafi bent á það, að eins og till. er orðuð, er hvergi neitt úrslitavald til um það, hver eigi að veita þetta embætti. Það gæti því orðið togstreita um það, eins og till. er orðuð, hver eigi að kveða upp úrskurð um það.