04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

27. mál, fjárlög 1944

Lúðvík Jósefsson:

Ég hef ásamt hv. 2. landsk. þm. ekki getað orðið samþykkur meiri hl. fjvn. í afgreiðslu fjárl. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að þessu. Hv. 2. landsk. hefur gert því góð skil, svo að ég get verið fáorður um flestar till. okkar.

Það, sem sérstaklega gaf mér tilefni til að segja nokkur orð, voru orð, sem féllu hjá hæstv. fjmrh. um þá miklu bjartsýni, sem hann taldi, að ríkti hjá fjvn., og þá sérstaklega bjartsýni minni hl. Ég vildi þá víkja nokkrum orðum að röksemdum hans viðvíkjandi áætlun teknanna.

Tekju- og eignarskattur hefur reynzt eða er áætlaður nú um 22 millj. kr., miðað við tekjur 1942. Ég hygg nú, að ekkert bendi til þess, að tekjur manna og stofnana verði minni 1943 en á s. l. ári. Og það eru a. m. k. ekki komin fram nein rök fyrir því, að svo muni verða. Nú er vitað mál, að tekju- og eignarskattur á næsta ári miðast við tekjur og eignir þessa árs. Því er engin ástæða að ætla, að þessi tekjuliður verði minni. Við í minni hl. n. höfum ekki áætlað tekju- og eignarskattinn nema 21 millj. kr., svo að ekki erum við sérstaklega bjartsýnir, en við horfumst í augu við það, sem er. Við vitum, að tekjur manna þetta ár hafa verið eins miklar og á s. l. ári. Samkv. upplýsingum frá hæstv. fjmrh. mun vörumagnstollur reynast 9–10 millj. kr. Mér er ekki kunnugt um, að fram hafi komið upplýsingar, sem sýni ástæðu til þess að færa áætlun um innflutningsmagnið svona mikið niður, eða nálega um helming, rök viðvíkjandi því hafa ekki komið fram. Hins vegar verður maður að ganga út frá því, að vörumagnið, sem inn verður flutt á næsta ári, verði nokkuð svipað því, sem það var á s. l. ári, og leggjum við því til, að vörumagnstollur verði áætlaður 9 millj. kr., eða um 1 millj. kr. lægri en hann hefur reynzt á þessu ári.

Þá kem ég að verðtollinum, en þar skakkar mestu. Hann er áætlaður í frv. 23 millj. kr., en hins vegar reyndist hann á árinu 1942 39,4 millj. kr., og 1. okt. á þessu ári reyndist hann nokkurn veginn jafnhár og hann hafði reynzt á sama tíma árið áður. Ef maður ætti að draga beina ályktun af þessu, þá væri hún sú, að þessi tollur mundi reynast jafnhár á árinu 1943 og á árinu 1942, eða 39–40 millj. kr. Hins vegar benti hæstv. fjmrh. á það, að ef maður tekur 9 fyrstu mánuði ársins, þá væri verðtollurinn 2,6 millj. kr. á mánuði, og mundi hann því, ef hann reyndist jafnhár þá 3 mánuði, sem eftir eru af árinu, ekki reynast nema 31½ millj. kr. Þetta segir hæstv. ráðh., vitandi það, að tollar hafa alltaf, a. m. k. á undanförnum árum, verið hærri síðari mánuði ársins en hina mánuðina. T. d. er það vitanlegt, að þegar fer að líða fram undir jól, þá flyzt mjög mikill jólavarningur til landsins, sem er mjög hátt tollaður. Það er þess vegna rangt að taka meðaltal þeirra 9 mánaða, sem liðnir eru, og láta skína í það, að þessir 3 mánuðir, sem eftir eru, muni fylgja því meðaltali, þegar það liggur fyrir, að þessir 3 mánuðir hafa reynzt miklum mun drýgri hvað tollana snertir. Ef gera á samanburð á árinu 1942 og 1943, þá er eðlilegt að athuga, hvað tollurinn var orðinn 1. okt. 1942 og 1. okt. 1943, og niðurstaðan verður sú, að hann er álíka hár bæði árin, miðað við sama tíma, og þá verður sú ályktun dregin af því, að hann muni verða jafnhár á þessu ári öllu og hann var allt árið áður. Um það, hvað þessi verðtollur kann að reynast á næsta ári, er erfitt að segja. En það eina, sem hægt er að miða við, það er, hvað hann hefur reynzt þessi 2 ár, og þótti okkur þá eðlilegt að áætla hann nokkuð lægri en hann hefur reynzt, eða um 38 millj. kr. En sú tala, sem hæstv. stj. setur í frv., er 23 millj. kr., og eftir því, sem tollurinn hefur reynzt, virðist sú tala vera sett út í bláinn. En sú tala, sem meiri hl. fjvn. hefur gengið inn á að samþ., er rökstudd með því að ganga út frá meðaltali þeirra 9 mánaða, sem liðnir eru af árinu, en eins og ég hef bent á, er með öllu villandi að gera það.

Hæstv. ráðh. segir, að það komi sér kynlega fyrir sjónir, að fulltrúar Sósfl. skuli leggja til, að tollarnir verði áætlaðir svona háir, miklum mun hærri en stj. og allmiklu hærri en meiri hl. n. hefur áætlað þá, og hann segir, að þetta skjóti skökku við það, þar sem Sósfl. hafi einmitt gert það að sinni kröfu að lækka tollana og bent á það sem úrræði til úrbóta í dýrtíðarmálunum. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að hér er ekki um að ræða, að það sé verið að gera samþykkt um það, hvað tollarnir skuli vera háir, heldur er aðeins verið að gera áætlun um það, hvað sú tollalöggjöf, sem nú gildir, muni gefa mikla tolla. Það liggur fyrir, að þing og stj. hafa ekki, þrátt fyrir sínar mörgu og miklu glímur við dýrtíðina, fengizt til þess að verða við tilmælum okkar sósíalista um að lækka verulega tollana. Stj. virðist ekki vera á þeirri skoðun, og meiri hl. Alþ. virðist vera á þeirri skoðun, að það beri að lækka tollana, og við fulltrúar Sósfl. getum ekki gengið út frá öðru en því, sem er í þessu máli, sem sé því, að hin óréttláta tollalöggjöf er í gildi, og við miðum okkar áætlanir við það, sem er. Ef við ætlum að miða tekjurnar á þessum einstaka lið, sem hér liggur fyrir, við það, sem við óskum, og hið sama gerðu aðrir hv. þm., er ég hræddur um, að það mundi fá einkennilegan endi. Það er vitanlegt, þó að stj. leggi til, að þessi liður verði áætlaður 23 millj., þá getur hann eins orðið 46 millj., svo að þó að við sósíalistar viljum láta lækka tollana verulega, þá breytir það ekki neitt því, sem er. Við göngum út frá því, sem er og gildir í þessum efnum, og við viljum láta áætla þennan tekjulið sem næst því, sem hann mun verða, á meðan sú löggjöf, sem gildir um þetta efni, varir.

Þá er annar liður í tekjubálk frv., sem við í minni hl. höfum ekki getað orðið samferða meiri hl. n. um, en það er að gera áætlun um tekjur af áfengisverzluninni og tóbaksverzluninni. Meiri hl. fjvn. hefur miðað sínar till. við það að taka aðeins þann hagnað af þessum tveim fyrirtækjum, sem mundi fást með því verðlagi á vörum verzlunarinnar, sem gilti áður en sú verðhækkun fór fram, sem fyrir skömmu var gerð. Með öðrum orðum, till. meiri hl. er þannig, að það er aðeins tekinn hluti af þeim hagnaði þessara stofnana, sem vitanlegt er, að muni verða. Við í minni hl. gátum ekki fallizt á það að taka aðeins hluta af þeim tekjum, sem vitað er, að fram muni koma af þessum stofnunum, en vildum taka allar tekjurnar í áætlunina. Meiri hl. n. hefur lýst því yfir, að það gæti komið til mála að taka þetta með við 3. umr., en við sáum enga ástæðu til þess að bíða með þetta. Þetta lá fyrir, og er vitað mál, að álagningin á söluvörur þessara verzlana hefur verið hækkuð, og stj. hefur gert ráð fyrir því, að tekjur þessara stofnana mundu hækka um 8–9 millj. kr. á árinu af þessum ástæðum. Það var því engin þörf á að bíða með þessa áætlun, og er ekki nema sjálfsagt að taka hana með strax, og sérstaklega virðist það vera kyndug aðferð hjá meiri hl. að fara samt að breyta tekjuáætluninni, sem lá fyrir í frv., og breyta henni nokkuð til hækkunar, en taka aðeins hluta af þeirri hækkun, sem vitað er, að er til staðar hjá þessum fyrirtækjum.

Ég þykist nú hafa skýrt það, hvaða rök við leggjum til grundvallar þeim tölum, sem við höfum viljað áætla tekjurnar eftir, en hins vegar vil ég benda á það, að það er engin nýlunda, að það komi fram frá hæstv. stj. og ýmsum þm. og flokkum að vilja áætla tekjur í fjárlfrv. miklu lægri en alveg er gefið og vitað mál, að þær muni reynast. Við afgreiðslu fjárl. þessa árs á s. l. vetri urðu hér í þinginu umr. um tekjubálk þess frv., sem þá lá fyrir, og nú er komin fram nokkur reynsla um það, hverjir hafi haft rétt fyrir sér viðvíkjandi áætlun teknanna í það sinn. Þá var í einu lagi tekjuskattur, eignarskattur og stríðsgróðaskattur áætlaður 23 millj. kr. Við fulltrúa sósíalista í fjvn. þá lögðum til, að áætlunin yrði um 24 millj., en nú hefur þessi liður reynzt um 28 millj. Vörumagnstollur var áætlaður 6 millj., við sósíalistar lögðum til, að hann yrði áætlaður 7,5 millj., en hann hefur reynzt 9,4 millj. Verðtollurinn var þá áætlaður 21½ millj., við áætluðum hann 25 millj., en hann hefur reynzt 39,4 millj. Ég man vel eftir því, að það kom fram í ræðum, að áætlanir okkar þóttu bera vott um alveg frábærlega bjartsýni og að hætt væri við, að áætlanir okkar stæðust ekki. Ég var alveg fullviss um það þá, eins og ég er fullviss um það nú, að þeir þm., sem það segja, þeir segja það gegn betri vitund, og þeir vissu það vel þá, að allt benti til þess, að tekjurnar yrðu hærri en till. okkar gerðu ráð fyrir. Hins vegar hafa þessir herrar tilhneigingu til þess að áætla tekjur miklu lægri en þær muni reynast. En hvað liggur til grundvallar þessari tilhneigingu? Jú, það er það, að það vilja ýmsir flokkar fá nokkurt fé í hendur ríkisstj. óbundið, og áætla því á þessa lund, til þess að geta haft nægilega óbundnar hendur um það að verja fénu án þess að fjárlagaheimild liggi þar fyrir, og verja svo fénu samkv. þál., svipaðri þeirri, sem afgr. var í fyrra um 15 millj. til verðuppbóta. Það er þægilegt að áætla tekjuhlið fjárl. það miklum mun lægri en hún muni reynast, að til séu nokkrir tugir milljóna til þess að hægt sé að samþ. útgjöldin með þáltill. Svo er hin ástæðan. Það er sífellt verið að spyrna fótum við ýmsum útgjaldatill. til ýmissa verklegra framkvæmda, sem vitanlega eru nauðsynlegar og ekki hægt að standa á móti, nema með þeim röksemdum, að ekki sé til fé og ekki sé hægt að koma því að, af því að tekjunum sé öllum ráðstafað, þó að það hafi verið gert á þann hátt að áætla tekjurnar miklum mun lægri en þær vitanlega mundu verða. Ég ætla nú með örfáum orðum að koma að nokkrum till. okkar í minni hl. til útgjalda við fjárlfrv., en ég get haft orð mín fá um þær till., vegna þess að hv. 2. landsk. þm. hefur fylgt þeim allröggsamlega úr hlaði. Í till. okkar er lagt til í fyrsta lagi, umfram það, sem kemur fram hjá meiri hl., að varið verði 10 millj. kr. til þess að endurbyggja fiskiskipastólinn, og verði það fé lagt fyrir. Hér hafa farið fram umr. og það hefur komið fram hjá flestum flokkum, að það sé eitt af þeim nauðsynlegustu málum, sem þurfi að leysa, að verja fé til endurbyggingar skipastólsins, og þá virðist varla seinna vænna en að nota næsta ár til þess að leggja fé til hliðar í þessu skyni. Það hefur sýnt sig, að það að veita skattaívilnanir til útgerðarfélaga er ónóg til þess að mæta endurnýjun skipastólsins, svo stórt átak sem það er, þegar þar að kemur. Þá er ekki síður rætt um nauðsyn þess, að gera þurfi stórt átak til úrbóta landbúnaðarframleiðslunni, skipuleggja verði landbúnaðarframleiðsluna o. s. frv. En hins vegar er meira talað um þetta en að fram komi raunhæfur vilji með því að leggja fram fé í þessu skyni. Því höfum við lagt til, að teknar yrðu af tekjum ríkissjóðs 4 millj. kr. til þess að reyna að koma landbúnaðinum á betur framleiðsluhæft stig heldur en hann er á nú.

Þá höfum við lagt til, að framlag til vitabygginga yrði hækkað um helming. En eins og flestum er kunnugt, eru fjárveitingar til vitabygginga miklum mun lægri nú á þessu síðasta ári en til annarra framkvæmda ríkisins, og hafa því vitabyggingarnar orðið útundan, og átti þó sjómannastéttin sízt það skilið, eins og nú standa sakir. Ég vil t. d. benda á það, að fyrir stríð var mjög almennt, að fjárveitingar til brúargerða væru svipaðar eins og til vitabygginga. En nú síðustu tvö ár var gert ráð fyrir að veita til brúargerða rúmlega 1 millj., en hins vegar til vitabygginga ekki nema 1/3 úr millj., og svipaður er samanburðurinn við ýmsar aðrar fjárveitingar, og til ýmissa framkvæmda hefur verið veitt mikið fé, á meðan sama og engu hefur verið varið til vitabygginga, enda hefur svo farið hin síðari ár, að ekki hafa verið byggðir nema fáir vitar, vegna þess að fjárframlög hafa verið skorin við nögl.

Þá leggjum við einnig til, að veitt verði til barnaskóla utan kaupstaðanna nálega helmingi hærri upphæð en meiri hl. leggur til, eða um 350 þús. kr. fram yfir hans till. Það er vitanlega mikil þörf á því víða úti um landið að hefja framkvæmdir í þessum efnum, og frá samtökum kennara sérstaklega hafa komið fram áskoranir til þingsins um það að veita fé og verið nefndar í því skyni háar upphæðir. Hins vegar hafa þær fjárhæðir, sem Alþ. hefur veitt í þessu skyni, verið af skornum skammti til þessa. Nú fer fræðslumálastjóri fram á, að veittar verði 750 þús. kr. í þessu skyni, en meiri hl. fjvn. hefur ekki getað fallizt á að veita nema 400 þús. kr. En fræðslumálastjóri segir, að 400 þús. kr. nægi ekki nema rétt til þess að sinna þeim, sem þegar eru komnir algerlega af stað, en telur upp allmörg skólahverfi, sem nú hafa pantað efni og muni ráðast í framkvæmdir á næsta ári, og með þessari upphæð verður ekki hægt að sinna þeim neitt. En auk þess bendir hann á það, að 12 önnur skólahverfi séu búin að gera ráðstafanir til þess að hefja framkvæmdir, en með þessari upphæð, sem verður sennilega samþ., verður hins vegar ekki hægt að sinna þeim að neinu leyti. Ég held því, ef Alþ. hefði viljað sýna þessu máli skilning að ráði, þá hefði það átt að bæta fyrir það, hvað þessum málum hefur verið lítill sómi sýndur, og verja nú a. m. k. þeirri upphæð í þessu skyni, sem fræðslumálastjóri hefur lagt til.

Ég skal svo fara að stytta mál mitt. Ég vil þó aðeins drepa á það, að ég hef lagt til, að veitt yrði til sjúkraskýla og læknisbústaða hærri upphæð en meiri hl. hefur fallizt á. Eftir skýringum landlæknis standa ýmist yfir eða fyrir dyrum byggingar sjúkraskýla og læknisbústaða á 17 stöðum á landinu, og verði upphæð meiri hl. samþ., er hún ónóg, ef sinna á öllum þessum stöðum.

Ég á hér nokkrar fleiri brtt., sem ég flyt ásamt öðrum hv. þm., en ég mun ekki orðlengja um. Sennilega fer fyrir þeim eins og ýmsum öðrum góðum till., sem til útgjalda stefna, að þær verða felldar með þeim fyrirsláttarrökum, að nægar tekjur séu ekki fyrir hendi.

Ég hef bent á, að allar líkur benda til, að tekjurnar muni reynast miklum mun hærri en meiri hl. fjvn. vill áætla, — en það er, eins og ég hef áður sagt, þægilegt fyrir hæstv. fjmrh. og meiri hl. fjvn. og aðra þá, sem standa vilja gegn nauðsynlegum framkvæmdum, að afsaka andstöðu sína gegn þeim með ónógum tekjum, og af þeim ástæðum er tekjuáætlunin höfð miklum mun lægri en öll rök standa til.