22.11.1943
Efri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. (Lárus Jóhannesson) :

Herra forseti. Mál þetta, sem hér liggur fyrir, er komið frá hv. Nd., og það var upprunalega lagt fyrir þá hv. d. af hæstv. dómsmrh. Frv. þetta fer fram á þrenns konar breyt. frá gildandi l. Í fyrsta lagi er í 3. gr. frv. lagt til, að gerð verði breyt. á þinglýsingarreglum þeim, sem nú gilda. Þær eru orðnar gamlar mjög og úreltar, sérstaklega að því er snertir Reykjavík. Og hér er lagt til, að það komi venjuleg skrásetning um öll innrituð og aflýst skjöl í staðinn fyrir skrásetningu að viðbættri eftirfarandi þinglýsingu, sem er hreint formsatriði, þ. e. a. s. þinglýsingin.

Annað og veigamesta atriði frv. er það, að farið er fram á, að lögmannsembættinu sé skipt. Það embætti er orðið svo viðamikið, að það er varla tiltækilegt, að nokkur einn maður geti borið ábyrgð á því. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, munu vera hjá lögmanni nú 12 fulltrúar, þannig að það er meira en nægilegt starf fyrir einn mann að annast eftirlit með því. Ég get ekki annað séð en skiptingin, eins og hún er ráðgerð í frv. á þessu embætti, sé mjög hagsýnisleg, enda hafa hinir færustu menn um þetta fjallað.

Þriðja lagabreyt., sem farið er fram á með þessu frv., sem þarf kannske ekki að kallast nýmæli, er það, að lögreglustjórinn í Reykjavík skuli uppfylla þau almenn skilyrði, sem dómarar þurfa . að uppfylla samkv. 32. gr. l. nr. 85 frá 1936 og nú gilda. En með l. nr. 67 31. des. 1939 var beinlínis tekið fram, að undanþágu mætti veita frá þessum ákvæðum, að því er lögreglustjóra í Reykjavík snertir. Þar er tekið fram í 1. gr. þeirra l., að „í Reykjavík skuli vera lögmannsembætti, sakadómaraembætti, lögreglustjóraembætti og tollstjóraembætti. Konungur veitir þessi embætti, og skulu embættismennirnir fullnægja dómaraskilyrðum samkvæmt 32. gr. laga nr. 85 23. júní 1936. Undanþágu má þó veita frá framangreindum skilyrðum, að því er lögreglustjóra snertir, enda séu þá sett sérstök skilyrði fyrir veitingu þess embættis með konunglegri tilskipun.“

Án þess að nokkuð væri leitað fyrir sér um það, hverjir vildu sækja um lögreglustjóraembættið, þá var gefin út tilskipun 31. des. 1939, nr. 68, þar sem vikið er allmjög frá þessum almennu dómaraskilyrðum um veitingu lögreglustjóraembættisins. Þá var t. d. álitið nægilegt, að lögreglustjórinn sé 24 ára að aldri. Auðvitað er þeim skilyrðum fylgt, sem um dómara gilda, að hann sé lögráður og hafi forræði fjár síns og hafi óflekkað mannorð. En þá var því bætt við sem skilyrði, að hann „hafi aflað sér sérþekkingar um meðferð lögreglumála og hafi hæfileika til lögreglustjórnar.“

Mér skilst, að í Nd. og eins í allshn. þessarar hv. d. hafi menn verið algerlega sammála um, að rétt væri að breyta þeim reglum, sem um þinglýsingar hafa gilt til þessa, og eins, að rétt væri að skipta lögmannsembættinu, eins og í frv. er farið fram á. En það var talsverður ágreiningur um það, hvaða skilyrði þyrfti að setja í l. til þess að skipa mann í lögreglustjóraembætti. Það varð þó niðurstaðan í hv. Nd., að samþ. var, að sú skipan skyldi vera á, að lögreglustjóri skyldi fullnægja lögmæltum skilyrðum til skipunar í héraðsdómaraembætti. Og í hv. Nd. var ekki látið sér það nægja, heldur bætti sú hv. d. inn í frv. þessum orðum: „Til veitingar lögreglustjóraembættisins er það enn fremur skilyrði, að aðili hafi raunhæfa þekkingu á háttum og stjórn lögreglumanna og skipulagi lögreglumála.“ Það eru m. ö. o. gerð enn þá strangari skilyrði til þess, að maður verði skipaður í þetta embætti, en um önnur embætti gilda. Og þetta er — að mínu áliti með réttu —, vegna þess að þetta embætti er vafalaust eitt af allra vandasömustu lagaembættum hér á landi.

Það hafa nú verið haldnir margir fundir um þetta atriði í allshn. þessarar hv. d., og sitt hefur sýnzt hverjum. En að lokum hefur n. orðið sammála, þ. e. a. s. 4 nefndarmanna, um það að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. En einn nefndarmaður, hv. 6. þm. Reykv. (BBen), telur ekki alveg nauðsynlegt, að lögreglustjórinn sé lögfræðingur, og hefur sá hv. þm. borið fram sértill. í því efni. En 4 nefndarmenn eru sammála um, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá hv. Nd., og þá leiðir af því með lógískri nauðsyn, að flytja verður núverandi lögreglustjóra í annað embætti. Það leiðir af því, að menn eru sammála um, að embætti þetta sé það mikilsvert, að það sé skipað af lögfræðingi ásamt öðrum skilyrðum, sem sett eru. Og úr því að hæstv. Alþ. er sammála um þetta, þá leiðir af sjálfu sér, að það á að skipta um mann í embættinu, — ef svo er álitið, að þetta sem önnur embætti sé fyrir alþjóð, en ekki einhvern tiltekinn mann eða menn, sem í embætti eru. Og þetta á því fremur við, þar sem við erum að setja l. fyrir framtíðina, en sá embættismaður, sem í þessu embætti er nú, mætti sitja í því að öðrum kosti, ef ekki ætti að gera þessi l. gildandi, fyrr en hann léti af starfi, í 37 ár enn. Hins vegar langar engan til þess að gera þessum manni neitt til miska, og þess vegna er tekið fram í nál., að er hann verði fluttur í annað embætti, skuli honum allur sómi sýndur í því sambandi. Ég minntist á það atriði við hæstv. dómsmrh. (EA). Ég hygg ég hafi ekki skilið það ranglega, að verði frv. samþ. óbreytt, leiði af því flutning þessa embættismanns í annað embætti og sú sé skoðun ríkisstj. Annað atriði, sem n. lagði mesta áherzlu á, er, að meðan þannig stendur, að mestur hluti af löggæzlukostnaði er greiddur af bæjarsjóðum, er eðlilegt að bæirnir hafi íhlutunarvald um það, hvernig í lögreglustjóraembætti er skipað.

Það hefur ekki fengizt einróma álit um frv. Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) telur, að sama eigi að gilda um kostnað af löggæzlu, hvar sem er á landinu. Í hugsun hans er margt rétt, og þótt hluti landsins sé tekinn fyrst af vissum ástæðum, en ekki unnt að taka nú þegar fyrir breyt. á öllu landinu, er það engin röksemd gegn réttmæti breytingarinnar. Um sýslumenn og bæjarfógeta gegnir líka öðru máli en um lögreglustjóra, því að þeir fara með dómsvald o. fl., sem er óskylt lögreglustjóra. Ef frv. verður samþ. óbreytt, hef ég ástæðu til að ætla, að hæstv. dómsmrh. taki þessar óskir til greina, og af þeim ástæðum leggur n. ekki til breytinga. Verði frv. samt sem áður breytt, hafa einstakir nm. frjálsar hendur. Sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, nema tilefni gefist.