22.11.1943
Efri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Í nál. á þskj. 413 er tekið fram, að 3 nm. telji sjálfsagt, að lögreglustjóraembættið í Reykjavík sé ekki veitt öðrum en þeim, sem bæjarstjórn samþykkir, meðan bærinn greiðir mestan hluta kostnaðarins við lögreglustörfin. En ég tel, að sama eigi þá að gilda um önnur lögsagnarumdæmi. Ég tel, að það nái ekki nokkurri átt að setja þetta sem l. fyrir Rvík eina. Enda lítur svo út, að tveir nm. leggi ekki mikla áherzlu á þetta atriði, því að aðeins einn, hv. 6. þm. Reykv., hefur komið með það á þskj., en hinir eru með því að frv. verði samþ. óbreytt.

Ég er hv. 6. þm. Reykv. á margan hátt sammála um það, sem hann sagði í fyrri hluta ræðu sinnar viðvíkjandi því, að lögreglustj. þyrfti ekki að vera lögfræðingur. En ég tel þó, að það geti engu spillt, þótt hann sé lögfróður maður, enda hafi hann aðra þá þekkingu á lögreglumálum, sem áskilin er í frv.

En þegar hann kom að síðari hluta ræðu sinnar og hélt því fram, að ekki ætti að veita lögreglustjóraembættið öðrum en þeim, sem bæjarstj. samþ., þá varð ég honum ósammála. Mér finnst það oft koma fram hjá honum, að hann lítur á Rvík sem sérstakan aðila gagnvart landi og þjóð. Þess vegna finnst honum óhæfa, að bæjarstj. eða kannske öllu heldur borgarstjórnin skuli ekki ráða, hver sé yfirmaður lögreglunnar. En þótt Rvík sé stór og voldug, þá er hún hluti af íslenzka ríkinu og þeir, sem í henni búa, ísl. þegnar eins og aðrir í landinu, og ég skil ekki í öðru en stjórnin beri hagsmuni þeirra fyrir brjósti engu síður en annarra. Þess vegna sé ég ekki, hvers vegna sami háttur mætti ekki vera á, hér eftir sem hingað til hvað það snertir. Samt skal ég ekki segja, að ekki mætti breyta til batnaðar, en þá á það bara að ganga yfir allt landið eða a. m. k. aðra bæi. Og ef það á að liggja undir samþ. Rvíkur, hver sé lögreglustj. þar, hví á þá ekki að liggja undir samþ. annarra bæja, hverjir séu bæjarfógetar? Hv. 6. þm. Reykv. telur kannske réttast, að Rvík yrði sérstakt ríki? Eða ef ekki það, þá svipað og Róm í gamla daga: að ríkið sé Rvík? Það er sjálfsagt bara röggsemi hans sem borgarstjóra, sem lýsir sér á þennan hátt.

Ég undrast, að dómsmrh. skyldi taka undir þetta og álíta, að kostnað af lögreglu eigi að greiða af ríkinu, enda þótt vitað sé, að lögreglu er einungis þörf í bæjum og hliðstæða við hana er engin í sveitum. Með þessu væru því lögð fullkomlega óréttmæt gjöld á íbúa utan bæjanna.

Það var lítið, sem hv. frsm. veik að mér í ræðu sinni. Hann gat þess, að hæfan mann þyrfti til þess að vera lögreglustjóri. Ég játa það fullkomlega, að lögreglustjórastarfið er ábyrgðarstaða, og til að gegna því þarf mann góðum kostum búinn, en ég álít, að til slíks sé lögfræðimenntun ein ekki næg trygging. Ég hef séð lögreglustjóra framkvæma verk sitt þannig, að hann sýndi þar ekki stillingu, hvað sem þroska líður, og var hann þó lögfræðingur.

Ég tel það enn fremur enga sönnun fyrir því, að núv. lögreglustjóri sé ekki vaxinn sínu starfi, þótt Pétur Sigurðsson vildi ekki takast það á hendur. Og þótt hann teldi þörf lögfræðimenntunar til starfsins, þá sannar það ekkert í þessu máli, og enginn er kominn til að segja, að hans skilningur á því atriði sé réttari en þess, er tók við starfinu. Annars finnst mér óviðeigandi að blanda nafni lögreglustjóra inn í þessar umr., og vildi mælast til, að það yrði forðazt. Fleira vildi ég ekki taka fram að svo komnu.