22.11.1943
Efri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Bjarni Benediktsson:

Okkur dómsmrh. greinir ekki á um það, að lögfræðimenntun sé góð og þroskandi. Hins vegar greinir okkur á um það, hvort hún sé nauðsynleg fyrir lögreglustjóra. Ég tel sem sagt, að hér sé búið að greina frá þau störf, sem til þarf lögfræðimenntun og áður heyrðu undir bæjarfógeta, og eftir séu störf, sem gera aðrar kröfur. Lögfræðimenntun spillir ekki; en hún er ekki nauðsynleg, sé öðrum betri kostum til að dreifa varðandi þetta starf.

Út af ummælum hv. þm. Barð. um núv. lögreglustjóra, þá álít ég, að hann hafi haft nokkra þekkingu og reynslu til þessa starfs.

Ég skal ekki dæma um störf hans, en yfirleitt get ég borið honum gott orð, þótt eðlilega verði einatt smágreinir með mönnum í slíkum stöðum.

Þá vil ég taka til athugunar annmarka þá, er dómsmrh. taldi á því að bæjarstjórn hefði hlutdeild um skipun lögreglustjóra. Hér er um að ræða sömu aðferð og nú á sér stað um skipun lögregluþjóna og hefur tíðkazt síðan 1872. Síðan ég tók við borgarstjórastarfinu, hefur ekki komið til ágreinings um ráðningu manna til þessa starfs, og ég tel ótrúlegt og óþarft að gera ráð fyrir svo ótækum dómsmrh. og þrjózkri bæjarstjórn, að samkomulag næðist ekki um skipun í þetta embætti.

Enn fremur má finna mörg dæmi um það, að fleiri en einn aðili koma sér saman um veitingu embætta. Ég geri því ráð fyrir, að dómsmrh. sjái við íhugun, að annmarkar þeir, er hann taldi, eru ekki svo stórvægilegir sem hann lét.

Varðandi það, sem 1. þm. Eyf. sagði, þarf ég ekki að vera margorður. Hann vildi svo vera láta, að ég vildi láta Reykjavík vera alls ráðandi í ríkinu. Þessi þm. hefur látið hafa eftir sér, að Reykvíkingar væru í sjálfu sér ekki verri en annað fólk. Þess gætir þó einatt hjá honum og skoðanabræðrum hans, að þeir vilja ekki unna Reykvíkingum jafnréttis, og það er það, sem ég vil ekki una við. Háttv. þm. telur, að ef bæjarstj. hefur áhrif á skipun manns í lögreglustjóraembættið, þá eigi hið sama að gilda, hvar sem er á landinu. En eins og dómsmrh. benti réttilega á, þá fer lögreglustjórinn í hinum ýmsu bæjum einnig með dómsvald, þar sem hér í Rvík fer hann einungis með lögreglustjórn. Það er og eðlilegt, að lögreglan öll sé kostuð af ríkinu. En það ,sem 1. þm. Eyf. vill, er að halda við ranglætinu. Bærinn á einungis að fá að borga kostnaðinn, 1½ millj. kr., en svo á hann engin áhrif að hafa á val þess manns, sem fer með þetta fé. Svona er nú sanngirnin og réttlætisástin hjá þeim framsóknarmönnum.