22.11.1943
Efri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Þótt fyrirspurn mín til háttv. frsm. gæfi ekki tilefni til þess, sem hér hefur verið mest rætt, þá hafa þessar umr. leitt ýmislegt í ljós, sem gott var, að kom fram.

Í fyrsta lagi hafa þær sýnt, að ekkert samræmi er í ályktun Nd. og viðhorfi ríkisstj. til þessa máls, svo sem fram kom í ræðu dómsmrh.

Viðvíkjandi lögfræðimenntun lögreglustjóra, þá er ég sammála dómsmrh. um það, að eðlilegt sé að heimta lögfræðimenntun til þessa starfs, og má í því sambandi benda á, að gert er ráð fyrir, að hann þurfi að hafa löglærðan mann í skrifstofu sinni. Þetta atriði eitt virðist mér nægja til að sanna, að eðlilegra sé, að lögreglustjórinn hafi þessa menntun. Ég vil því beina því til allshn., að hún taki þetta ákvæði aftur upp í frv.

Þá þykir mér ekki nægilega upplýst kostnaðarhlið þessa máls, og væri vert, að nefnd sú, er hefur þetta mál til athugunar, gefi gaum að því. Og að því er við kemur skiptingu lögmannsembættisins hér í Reykjavík, þá hefur það sýnt sig, að skipting embætta hefur ætíð í för með sér mikinn kostnað.

Ég mun ekki treysta mér til, eftir að ég hef fengið þessar upplýsingar, að greiða atkv. með frv., eins og það liggur fyrir. Annars vegar liggja engar upplýsingar fyrir um, hver kostnaðurinn er, hins vegar eru takmarkaðar upplýsingar um, hver þörfin er. Þar að auki er hér annað frv. um skiptingu á öðru embætti, tollstjóraembættinu, og í þriðja lagi eru engar upplýsingar um, hvort sá maður, sem nú á að víkja úr embætti samkvæmt ósk meiri hl. n., verður settur á 40 ára eftirlaun eða í svo og svo mikið hærra launaða stöðu, sem hægt væri að fá menn fyrir minni laun til að gegna og kannske eins vel eða betur hæfa í. Ég mun því greiða atkv. móti frv. í heild, þar til betri upplýsingar liggja fyrir um það frá hæstv. ríkisstj.