04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

27. mál, fjárlög 1944

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég á 2 brtt. á þskj. 331 við till. hv. meiri hl. fjvn. á þskj. 296. Þær eru báðar við 13. gr., um aukið framlag til tveggja vegakafla á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Það er vegurinn yfir Vatnsskarð og Öxnadalsheiðarvegurinn.

Í fjárlfrv. eins og það var lagt fram af hæstv. stj. var gert ráð fyrir 170 þús. til hvors vegarkafla um sig, auk þess hluta benzínskatts, er kæmi til góða þessum vegum samkv. sundurliðun í frv. Meiri hl. fjvn. breytti þessum hlutföllum milli veganna þannig, að framlagið til Vatnsskarðsvegarins varð 150 þús., en hækkaði það til Öxnadalsheiðarvegarins upp í 200 þús. Ég álít framlögin til Vatnsskarðsvegarins og vegarins yfir Öxnadalsheiði of lág og fer því fram á, að þau séu hækkuð um 50 þús. hvort um sig. Það er því meiri þörf, að þessum vegum sé hraðað, þar sem hér er um að ræða aðalsamgönguleiðina milli Norður- og Suðurlands. Og þó að ríkissjóður legði nú meira fram í svipinn, þá mundi það sparast í framtíðinni, því að nú er allmiklu fé varið í það að halda uppi samgöngum milli Sauðárkróks og Akureyrar á sjó, og leggur ríkissj. fram það fé.

Ég mun nú snúa mér að öðrum till., er liggja fyrir, og þá fyrst viðvíkjandi byggingu sjúkrahúss á Akureyri. Það þarf að gera sér það vel ljóst, að bygging spítala á Akureyri er ekki aðeins hagsmunamál Akureyringa einna, heldur allra Norðlendinga og jafnvel Austfirðinga, því að sjúklingar eru fluttir þangað frá Norður- og Austurlandi. Það hefur verið gerð skýrsla um legudaga á mán. eftir því, hvort um utan- eða innanbæjarmenn væri að ræða, og hefur komið í ljós, að 60% hafa verið utanbæjarmenn, en aðeins 40% Akureyringar. Það virðist því vera eðlilegast, að sjúkrahús á Akureyri sé nokkurs konar landsspítali og ríkissjóður taki á sig mestan kostnað við byggingu hans og rekstur, enda hefur bæjarstjórn Akureyrar sent Alþ. áskorun í þá átt. Því að ekki verður talin sanngirni í því, að Akureyri byggi sjúkrahús yfir utanbæjarmenn, en aftur á móti virðist mjög mikil þörf fyrir nýtízku sjúkrahús á Norðurlandi, og þá mun bezt henta að reisa það á Akureyri. Það er mjög mikilsvert, að hv. þm. hafi góðan skilning á þessu, því að ef ríkissjóður fellst ekki á að borga meir en 1/3 kostnaðar, þá er hætt við, að Akureyringar reisi sjúkrahús, sem sé sniðið eftir þeirra þörfum, og þá er þetta vandamál óleyst fyrir þá landshluta, sem leitað hafa til Akureyrar hingað til. Og þá kæmi til kasta ríkissjóðs að sjá fyrir þeirra þörfum, og er vafasamt, að það yrði ódýrara eða hagkvæmara, og frá heilbrigðilegu sjónarmiði yrði það tvímælalaust óhagstæðara, m. a. vegna þess, að ekki yrði hægt að hafa tæki og annan útbúnað jafnfullkominn.