23.11.1943
Efri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Ég mun nú vera búinn að tala eins oft við þessar umr. og þingsköp leyfa, enda stend ég ekki upp af því, að mér finnist síðasta ræða hv. 6. þm. Reykv. svaraverð. En hann bar þar sakir á mig og um leið á hv. forseta þessarar d., því að hann tví- eða þrítók fram, að ég hefði viðhaft hér illyrði í gær. Hví ætli hæstv. forseti hefði þá ekki hastað á mig? Það gerði hann ekki. Ég skýt því til hæstv. forseta, hvort ég hafi farið hér með nokkur illyrði, og ég skora á hv. 6. þm. Reykv. að segja, hver þau voru.

Út af því, sem hv. þm. hefur orðið svo tíðrætt um úr viðtali við mig í Tímanum hér á dögunum, þá er þar sérstaklega átt við þm. búsetta í Rvík, en ekki Reykvíkinga yfirleitt. Ég sagði greinilega, að þingið lamaðist í störfum sínum af því, hve margir Reykvíkinganna, sem þar eiga sæti, væru önnum kafnir utan þings. Ég mælti þetta ekki til hv. 6. þm. Reykv., ég skal taka það fram, að hann er með mér í n., og hef ég ekkert nema gott eitt um störf hans þar að segja. En ég er í annarri n., sem skipuð er eintómum Reykvíkingum fyrir utan mig, og eru nm. svo tímabundnir, að n. getur ekki haft fundi sína nema í kaffitímanum.

Hv. þm. varði löngum tíma í að afsaka, að sig skyldi hafa misminnt, að þingsetutími minn væri 5 árum lengri en hann er raunverulega. Varð það ljóst af orðum hans, að afsökun hans var sú, að ég væri svo leiður, að tíminn virtist lengi að líða í návist minni. Mér liggur nú í léttu rúmi, hvað þessum hv. þm. þykir í þessum efnum. Og varla getur misminni hans stafað af þessu, við erum nú ekki búnir að vera hér svo lengi samtíða. En ég ráðlegg hv. þm. að spyrja föður sinn um, hve leiður ég hafi verið hér. Við höfum verið lengur hér saman en ég og hv. 6. þm. Reykv., og skal ég rólegur hlíta úrskurði föður hans í þessu tilliti.

Það er misskilningur, að ég hafi hrósað mér af því að hafa greitt atkv. með hafnarlögum fyrir Reykjavíkurbæ. Ég benti aðeins á, að ef við framsóknarmenn værum jafnfjandsamlegir bænum og blöð hans reyna að telja fólki trú um, þá hefðum við ekki greitt atkv. með þessu máli. Það er e. t. v. ekkert hrósvert að gera þetta, en það er þó ekki fjandsamlegt. Að fyrrgreint frv. sé til hagsbóta fyrir landið í heild, þá er því til að svara, að því fylgja mörg hlunnindi fyrir Reykjavíkurbæ einan, t. d. aukin atvinna o. fl.

Ummæli hv. þm. Barð. út af „útkjálkaþingmanns“-titlinum skildi ég ekki. Hv. 2. þm. Rang. (IngJ), sem ummælin hafði, er flokksbróðir hv. þm. Barð. og því ekki ástæða til að skeyta skapi sínu á framsóknarmönnum út af því.