24.11.1943
Efri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. (Lárus Jóhannesson) :

Herra forseti. Umr. um þetta frv. hafa farið út fyrir málið sjálft, og skal ég ekki taka þátt í þeim deilum. Það eina, sem ég þarf að svara af því, sem fram hefur komið, er ræða hv. 6. þm. Reykv., þar sem hann var að reyna að færa rök að því, að ekki væri nauðsynlegt, að lögreglustjóri væri lögfræðingur. Rök hans voru ákaflega veigalítil í samanburði við þau rök, sem hann er vanur að færa fram máli sínu til stuðnings, og áttu helzt við um mann, sem gegndi lögregluþjónsstarfi og starfaði á götunni, en ekki þann heila, sem verður að vera á bak við störfin og stýra þeim. Ég álít, að lögfræðimenntunin sé svo mikilvægt atriði í þeim þekkingarskilyrðum, sem lögreglustjóri verður að uppfylla, að hún verði ekki vegin upp með því, að lögreglustjóri hafi lögfræðimenntaðan fulltrúa. Þá gæti ég eins orðið skipstjóri og haft fulltrúa, sem kynni sjómannafræði, eða læknir og haft fulltrúa, með læknismenntun. Þekking og ábyrgð verða að fara saman, og því hærri kröfur sem gerðar eru til yfirmanna, því hærri kröfur er hægt að gera til þeirra starfsmanna, sem undir stjórn þeirra vinna. Það skiptir engu máli, þó að hægt sé að benda á, að eitt sinn, meðan lögreglustjóri var löglærður maður, hafi það komið fyrir, að annan mann þurfti til að framkvæma ákveðna ákvörðun, því að aðalatriðið er að taka ákvörðun um framkvæmd þeirra ráðstafana, sem gera þarf.

Ég skal ekki lengja mál mitt. En út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, að skipting embættisins áður fyrr hafi aukið útgjöldin um ½ millj. kr., verð ég að segja, að það getur ekki náð neinni átt, nema hvað embættin hafa auðvitað orðið dýrari í rekstri eftir því sem bærinn stækkaði.

Ég legg áherzlu á þessi tvö atriði, sem n. tekur fram í áliti sínu, að ef frv. verður samþ. óbreytt, hlýtur að leiða af því, að flytja verður lögreglustjóra í annað embætti, og að lögreglustjóraembættið sé ekki veitt öðrum manni en bæjarstjórn Rvíkur samþ., meðan bæjarsjóður ber að miklu leyti kostnað af löggæzlunni.

Ég hef reynt að forðast að blanda nokkrum persónulegum deilum inn í mál mitt og læt hér staðar numið.