24.11.1943
Efri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Hermann Jónasson:

Ég býst ekki við, að það, sem ég segi, þurfi að lengja umr. mikið, enda þótt ég frétti, þegar ég var fjarverandi af brýnni nauðsyn, að þau orð hefðu fallið hér, að mönnum þætti einkennilegt, að ég væri ekki við. En mér þykir ekki ástæða til að hefja langar umr. Aðeins vil ég segja það, að mér finnst skrítið, hvernig komið geta fyrir þau vinnubrögð hér á Alþ., að fyrir fáum árum er það samþ. svo að kalla einróma af öllum flokkum, nema ef vera skyldi sósíalistum, að skipta um stefnu í þessum lögreglumálum, skipta embætti lögreglustjórans í Rvík, sem hafði haft lögfræðistörf með höndum ásamt götugæzlunni, og setja í götugæzluna mann með sérþekkingu, sem sá lögreglustjóri hefur, sem skipaður var. Með talsverðri nákvæmni voru svo tínd út úr lögreglustjóraembættinu flest þau störf, sem lögfræðiþekkingu þarf til.

Flest þau störf, sem krefjast lögfræðiþekkingar, eru því lögð undir sakadómarann í Rvík. Um þetta er ekki einu sinni neinn ágreiningur hér á Alþ., heldur er það beinlínis talin réttarbót í íslenzku réttarfari. Í þessu sambandi má geta þess, að allshn. Nd., sem hafði með málið að gera á sínum tíma, var sammála um málið þannig, að undanteknum einum manni, sem nú er fylgjandi þeirri stefnu, sem nú er rætt um. Á þetta var bent við umr. í Nd., og einnig var það upplýst, að í þessari n. voru lögfræðingar, t. d. Thor Thors, núv. sendiherra Íslands í Washington, en þáv. þm. Snæf. Hann mælti eindregið með því, að þessi breyt. yrði gerð og þessi nýja skipan upp tekin. Eins og kunnugt er, var ekki verið að sækjast eftir neinum sérstökum manni, því að fyrst var leitað til annars manns, sem hafði svipaða menntun og núv. lögreglustjóri hefur, og hann beðinn að taka að sér þetta starf. Eftir að sá maður hafði neitað að taka starfið að sér, en þessi maður var Pétur Sigurðsson sjóliðsforingi, þá fyrst féllst núv. lögreglustjóri á að taka að sér þetta embætti, og sagði lausu starfi því, sem hann hafði gegnt. (LJóh: Af hvaða ástæðu neitaði Pétur Sigurðsson að taka þetta starf að sér?). Vegna þess, að hann taldi sig hafa búið sig undir annað starf. (LJóh: Mín skoðun er sú, að hann hefur álitið, að það starf, er hér um ræðir, útheimti lögfræðiþekkingu). Þá vildi ég geta þess, að áður en þessi breyt. var gerð og áður en núv. lögreglustjóri tók að sér þetta starf, kom hann til viðtals við mig í skrifstofu mína og lét í ljós við mig, að hann vildi ekki taka við þessu embætti, nema vissa lægi fyrir um það, að ekki væri nein óánægja um þessa skipun meðal flokkanna, og sagðist hann ætla að hafa tal af formanni Sjálfstfl. um þetta mál, sem hann gerði, og var það upplýst af einum þm. Sjálfstfl. í Nd. Var honum skýrt frá því, að honum væri óhætt að taka þetta starf að 3ér; vegna þess að um þetta mál væri fullkomin eining. Síðan bregður svo einkennilega við hér á Alþ., að tekin er upp alveg öfug stefna, og nú þykir mestu máli skipta, að maður með þessa menntun sé ekki hæfur í þetta embætti, eftir að búið er að veita það með þeim hætti, sem ég hef nú frá skýrt, og hafa raddir komið upp um það hér á Alþ., að núv. lögreglustjóri eigi að víkja úr embætti, þó að enn hafi ekki verið gengið frá því.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að mér er ekki kunnugt um, hvort t. d. vegamálastjóri hafi sérþekkingu í vegamálum eða verkfræði, eða hvort vitamálastjóri hefur hafnarmál eða vitamál sem sérgrein, og eins væri hægt að segja, að það væri ekki nema eðlilegt, að borgarstjóri ætti að vera verkfræðingur fyrst og fremst, þar sem hann þarf að hafa svo miklar framkvæmdir með höndum. En hins vegar verð ég að segja, að mér finnst mjög óeðlilegt, eftir að búið er að skipa mann þann, er hér um ræðir, í embætti með samþ. allra stjórnmálaflokka og Alþ. um skipunina, að setja þá lagaákvæði, sem kveða á um það, að þessi sami maður þurfi að uppfylla alveg ný skilyrði, svo að hann verði að víkja úr embættinu. Við skyldum t. d. segja, að maður sá; er tæki að sér vitamálastjóraembættið, þyrfti að hafa hafnarmál sem sérgrein, því að hafnarmál eru sérgrein innan verkfræðingastéttarinnar. Ég vil taka það fram, að ég er ekki að nefna vegamálastjóra og vitamálastjóra af því, að ég telji þá ekki eins hæfa og hverja aðra embættismenn, heldur aðeins sem dæmi, og ástæða. væri til að athuga ýmislegt fleira í sambandi við þetta, ef taka á upp þessa reglu varðandi lögreglustjóra. En núv. lögreglustjóri hafði tryggingu fyrir embætti sínu, þegar hann tók við því, vegna þess að hann gekk til formanns Sjálfstfl., eins og ég gat um áður, og spurðist fyrir um, hvort nokkur ágreiningur væri um þetta mál, og sá, að Alþ. var búið að samþykkja þessa skipun einróma, þegar hann tók við embættinu. Þetta eru því vinnubrögð, sem geta dregið dilk á eftir sér, og getur ekki hjá því farið, að þau veki nokkra eftirtekt. Að vísu er þetta frv. borið fram af hæstv. dómsmr. með þeim forsendum, að núv. lögreglustjóri haldi embætti sínu, þó að frv. verði samþ., þó að breyting sé gerð fyrir framtíðina á þeim skilyrðum, sem sá maður þarf að uppfylla, sem fær veitingu fyrir embættinu, og með þessum forsendum er það samþ. í hv. Nd., eins og ljóslega kom fram í því, að það var fellt með yfirgnæfandi meiri hluta að ganga þannig frá þessu frv., að núv. lögreglustjóri eigi að víkja úr embætti eða að hægt væri að flytja hann til. Það er og vitað, að yfirgnæfandi meiri hluti Alþ. er þeirrar skoðunar, eins og sjá mátti í hv. Nd., að þó að samþykkt sé, að framvegis þurfi lögreglustjóri að uppfylla þær skyldur að vera lögfræðingur, þá ber ekki að láta þann mann, sem nú situr í embættinu, víkja úr því eða flytja hann til, og er því vafasamt, hvort ríkisstj. hafi heimild til að flytja hann til, samkvæmt ákvæðum stjskr., þar sem þingvilji liggur fyrir um þetta embætti, að það megi ekki. Það var fyrst fallizt á það af Alþ., og samkomulag varð um það í Nd. að gera framvegis þær kröfur til lögreglustjóra, að hann sé lögfræðingur, enda uppfylli hann jafnframt önnur skilyrði, sem Alþ. á sínum tíma lagði megináherzlu á og urðu til þess, að núv. lögreglustjóra var veitt þetta embætti. Annars er ekki nema gott eitt um það að segja, að lögfræðiþekkingu sé bætt við þetta embætti, ef á annað borð verður hægt að fá mann í þetta embætti, sem hefur hvort tveggja þessa menntun til að bera.

Þetta, sem ég hef nú sagt um málið, er því aðeins saga, sem að vísu er óþarfi að rekja, vegna þess að hún liggur fyrir í skjölum Alþ., þannig að allt, sem ég hef um sögu málsins sagt, hefur verið rætt í hv. Nd. Hins vegar hafði ég ekki tækifæri til þess að taka þátt í þeim og hlustaði ekki á þær, en álít, að rétt sé, eins og hv. þm. Seyðf. einnig lét í ljós, að halda sem mest utan við þessar umræður deilum um þann embættismann, sem hér á hlut að máli, en skal ekkert um það segja, hvað kann að blandast inn í þetta mál eða hvaða breyt. um það kunna að koma. Ég vil taka það fram, að það, sem ég hef hlustað á við þessar umr., hefur ekki gefið mér tilefni til að svara neinu sérstöku, en vil þó geta þess, eins og ég hef áður bent á, að þetta er eitt af þeim fáu embættum, sem valið hefur verið þannig í, að fyrir þessari embættisveitingu var samþ. þáverandi ráðh. og hlutaðeigandi flokks, og man ég ekki eftir slíkri tryggingu við nokkra aðra embættisveitingu. Með þessu vil ég benda á þau sinnaskipti, sem átt hafa sér stað hér á Alþ., og gæti ég verið fús til að bera ábyrgðina á veitingu þessa embættis, sem hér er verið að ræða um, án þess að fara nánar inn á, hvernig um það hefur verið rætt, en mun ekki gera það, nema sérstök ástæða til þess gefist. Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta nánar að sinni.