24.11.1943
Efri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Brynjólfur Bjarnason:

Ég er samþykkur hv. 6. þm. Reykv. um, að ekki sé ástæða til þess, að lögfræðingur skipi lögreglustjóraembættið, vegna þess að ég álít, að aðrir hæfileikar séu einnig nauðsynlegir fyrir hann, — enn nauðsynlegri en lögfræðiþekkingin. Ég er því þeirrar skoðunar, að ekki sé heppilegt að einskorða lögreglustjóraembættið við það, að sá maður, sem skipar það, sé lögfræðingur. En þegar breyt. var gerð á þessum l., var hún ekki gerð út frá þessum forsendum. Ég þori að fullyrða, að sumir hv. þm., sem þá greiddu atkvæði, álitu það nauðsynlegt, að lögreglustjóri hefði lögfræðilega þekkingu. En ástæðan var sú, að þáv. dómsmrh. hafði augastað á ákveðnum manni til starfsins. Út frá þessu sjónarmiði var l. breytt. Það þurfti ekki að fara í neinar grafgötur um það, hvaða maður kom þar til greina, þ. e. núv. lögreglustjóri.

Höfuðatriðið er það, að í Reykjavík sé ekki lögreglustjóri, sem Reykvíkingar geti ekki sætt sig við. Það er höfuðskilyrði þess, að hægt sé að rækja embættið, svo að viðunandi sé, að fullt samkomulag sé milli lögreglustjórans og bæjarstjórnarvaldanna. Hv. þm. Str. sagði, að þegar núv. lögreglustjóri var skipaður, hafi verið leitað til flokkanna um samþykki og spurt um afstöðu þeirra til málsins. Þeir hefðu lýst sig samþykka því. En hann gat þess víst, að ekki hefði verið leitað til Sósíalistaflokksins, þess þurfti ekki á þeim dögum, enda býst ég við, að hann hefði ekki gefið sitt samþykki.

Ef flokkarnir hafa gefið sitt samþykki, þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hvers vegna það var gert. Það var eitt af samkomulagsatriðum þjóðstjórnarinnar. Þeir, sem að þeim samningum stóðu, gerðu ýmis hæpin samkomulagsatriði, sem hafa orðið til tjóns og nú er verið að leiðrétta. Þetta frv. er borið fram af því, að þetta þótti ekki heppileg ráðstöfun.

Forsendurnar, sem fara verður eftir hér í hv. deild, eru í fyrsta lagi þær, að núv. lögreglustjóri verði fluttur yfir í annað embætti og verði lögfróður maður skipaður í embætti lögreglustjóra, og í öðru lagi, að ekki verði skipaður í það embætti annar maður en sá, sem bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkir.

Út frá þessum forsendum sé ég mér ekki fært annað en fylgja frv., enda þótt ég sé ósammála því að löggilda að einskorða veitingu lögreglustjóraembættisins við þau skilyrði, sem gert er þar. Með þessu frv. er í raun og veru verið að leiðrétta stjórnarathöfn, sem var í alla staði óheppileg og var gerð til þess að koma ákveðnum manni í embættið. Það er ekki hægt að fá þingmeirihluta til að leiðrétta málið á þann hátt; sem æskilegastur hefði verið, það er að segja að samþykkja það, að til þess að skipa lögreglustjóra þurfi samþykki bæjarstj., en það hefði verið hreinasta afgreiðsla málsins. En með þessum forsendum mun ég greiða atkvæði með frv. Viðvíkjandi brtt. hv. 6. þm. Reykv. vil ég taka fram, að ég er henni samþykkur í ýmsum atriðum, t. d. því, sem tekið er fram í síðasta málslið um þörf þess, að bæjarstjórn samþykki lögreglustjóra. En ef brtt. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir, mundi núv. lögreglustjóri verða áfram í embætti.