04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

27. mál, fjárlög 1944

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég flyt hér tvær brtt., aðra viðvíkjandi hafnarmálum og hina viðvíkjandi vegamálum. Fyrri brtt. fer fram á það, að framlag til hafnargerðar í Stykkishólmi verði hækkað úr 25 þús. kr. upp í 50 þús. kr. Þessi brtt. er flutt samkv. áskorun hafnarnefndar í Stykkishólmi, sem mér, því miður, barst svo seint, að hv. fjvn. hafði þá afgr. sína till. um 25 þús. kr., en áskorun hafnarn. í Stykkishólmi er um 50 þús. kr. Ég vil taka það fram, að á síðasta ári voru veittar til þessara hafnarmannvirkja 40 þús. kr. Og eftir samtalið við formann fjvn. þá, virtist mér sem fullkominn ádráttur hefði verið um það gefinn, að þá yrði á næsta ári veitt sama upphæð, 40 þús. kr., aftur, í samræmi við það, að hafnarnefnd Stykkishólms fór fram á það þá að fá alls 80 þús. kr. fjárveitingu til hafnarmannvirkja. Og var þá 40 þús. kr. fjárveiting upp tekin með það fyrir augum, að seinni helmingurinn yrði veittur í fjárl. fyrir 1944. Nú hefur hv. fjvn. tekið upp aðeins 25 þús. kr. fjárv. til þessara hafnarmannvirkja.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins fara út í nauðsynina á þessu. Það er allstór hafskipabryggja, sem þarna er um að ræða, sem þarfnast mjög mikillar viðgerðar og þetta fé á að renna til. Ég hefði nú viljað óska þess, að hv. fjvn. tæki þetta mál til athugunar til 3. umr., og ég vildi því fallast á að taka brt. þessa aftur til 3. umr. í því fullkomna trausti, að hv. fjvn. taki málið til velviljaðrar athugunar. Enda hef ég rætt það við vitamálastjóra, og hann hafði mjög góð orð um að mæla með því. En ástæðan til þess, að þessar áskoranir hafa ekki komið fram fyrr, er sú, að till. hafnarnefndar Stykkishólms hafa verið þetta síðbúnar.

Hin brtt., sem ég flyt fyrir mitt kjördæmi, er um samgöngubætur milli Ólafsvíkur og Hellissands. Þarna er vegamálum þannig háttað, að fyrir allmörgum árum var tekinn í þjóðvegatölu vegur um Ennisdal. Að þeim vegi hefur lítið sem ekkert verið unnið. Hins vegar hafa verið uppi raddir manna, bæði í Ólafsvík og á Hellissandi, um að fá veg lagðan, ekki um þennan Ennisdal, heldur undir Ólafsvíkurenni. Og samkv. till., sem ég flutti í fyrrasumar hér á Alþ., hafa farið fram rannsóknir og verið gerð kostnaðaráætlun um þessa vegarlagningu. Vegamálastjóri telur, eftir þá rannsókn, að sú vegargerð undir Ólafsvíkurenni mundi verða mjög kostnaðarsöm. Þar er að vísu um mjög stuttan veg að fara, en mjög miklir erfiðleikar eru á þeirri leið. Geysimikill vatnsagi og grjóthrun er úr fjalli því, sem þessi vegur, ef lagður væri, mundi liggja undir. En vegamálastjóri hefur á prjónunum aðra hugmynd um samgöngubætur þarna, sem er, að í staðinn fyrir vegarlagningu, sem þarna þyrfti helzt að vera þannig, ef gerð yrði, að vegurinn yrði steyptur, þá kæmi bifreið af sérstakri gerð, sem væri sérstaklega útbúin til þess að geta farið yfir þessa vegleysu. Það eru svo kallaðir beltisbílar eða skriðdrekar. Og þetta mál er í fullkomnum undirbúningi hjá vegamálastjóra. Við afgreiðslu síðasta árs fjárl. lagði vegamálastjóri til, að veittar yrðu 30 þús. kr. til þessa vegasambands. En sú till. var felld í fjvn. og einnig hér á hinu háa Alþ. Nú ber ég fram brtt. um að veita 25 þús. kr. til samgöngubóta milli Ólafsvíkur og Hellissands, með það fyrir augum, að sú fjárveiting verði ekki bundin við vegarlagningu, heldur geti einnig í því falizt, að ef talið væri heppilegra að fá sérstaka bifreið eða flutningatæki milli þessara staða, þá væri jafnheimilt að verja þessu fé í það.

Ég þarf ekki að lýsa ástæðum kauptúnsins Hellissands í þessu efni. Það er nokkurn veginn jafnfjölmennt og Ólafsvík, en á því óláni að sæta að vera eitt af þeim fáu kauptúnum með jafnmikinn íbúafjölda, sem ekki er í bílvegasambandi við aðra landshluta. (PZ: Þau eru nú nokkuð mörg). Ég vil þess vegna fara fram á það, að þessi brtt., sem felur ekki í sér ákveðnar kröfur um vegarlagningu, heldur um samgöngubætur, í hvaða formi sem heppilegast þætti, verði samþ. af hinu háa Alþ. En ég skal jafnframt taka það fram, að ef þess mætti vænta, að hv. fjvn. vildi taka þetta mál til rækilegrar athugunar, þá er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að taka þessa brtt. aftur til 3. umr.

Að því er snertir mitt kjördæmi hef ég ekki aðrar brtt. að flytja við þessa umr. En ég vil hins vegar nota tækifærið til þess að þakka hv. fjvn. fyrir góðar undirtektir undir ýmsar málaleitanir, sem ég hef borið fram við hana út af vegamálum í þessu kjördæmi.

Þá er þriðja brtt., sem ég er hér meðflm. að, sem mér þykir rétt að minnast hér á nokkrum orðum. Hún er í því fólgin, að hækkaður verði styrkur til Sambands íslenzkra listamanna úr 2400 kr. í 4800 kr. og auk þess verði veitt verðlagsuppbót á þá fjárhæð. Þessi brtt. er miðuð við það, að á síðasta þingi voru samþ. breyt. á rithöfundalögunum, sem fela í sér, að þetta umrædda félag eða samband hefur fengið aðild um flutning tónlistar og ritsmíða yfirleitt. Af þessari breyt. á rithöfundal. leiðir það, að félagið verður að hafa opna skrifstofu til að sinna þessum verkum, og það verður að hafa ráðinn fastan starfsmann í því skyni. Ég vil vekja athygli hv. þm. og ekki sízt hv. frsm. fjvn. á því, að þessi till. er sérstaklega miðuð við þessa breyt., sem gerð var á síðasta þingi á þessum l. (Forseti: Er hún komin fram?). Henni hefur ekki verið útbýtt hjá mér a. m. k., en hún hefur verið afhent í skrifstofuna, og ég býst við, að hún sé í prentun.

Fleiri brtt. ber ég ekki fram, sem ég er 1. flm. að, við þessa umr., þó að ég hins vegar geri ráð fyrir, að við 3. umr. kunni að koma einhver önnur atriði, sem ástæða væri til að hreyfa. En ég vil sérstaklega beina því til hv. frsm. fjvn. að því er snertir tvær fyrri brtt., sem ég mælti fyrir, að ég vil óska þess, að hv. fjvn. taki þær til athugunar og leiti þar að sjálfsögðu samráðs þeirra ríkisfulltrúa, sem þar eiga hlut að máli, bæði vegamálastjóra og vitamálastjóra, og vænti ég þess, að báðir þeir fulltrúar muni taka vel í þessar till. — Sé ég svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.