21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

36. mál, kjötmat o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Rang., sagði, að til þess væri nú verið að koma á gæðamati á kjöti, að menn fengju mismunandi verð fyrir kjötið eftir gæðum þess. En það er bara þetta sem er ekki gert. Gæðamat hefur þegar verið viðhaft um mikinn hluta landsins á útflutningskjöti, og verðmunurinn hefur ekki verið látinn koma fram í verðinu til bænda. Sums staðar hefur þessi verðmunur verið látinn koma þannig fram, sums staðar að nokkru leyti og sums staðar alls ekki. En það er vandalaust að láta hann koma fram í verðinu til bænda. Og nú er mér sagt, að á sumum svæðum séu þeir menn, sem um það hafa að segja, staðráðnir í því að láta ekki neinn slíkan verðmismun til framleiðenda koma fram eftir gæðamati. Á sama tíma á svo að segja við bændur: Leggið þið ykkur nú sem allra bezt fram til þess að eiga fé, sem gefur laggóða skrokka, sem beztur markaður er fyrir á heimsmarkaðinum, en þó að þið gerið það, fáið þið ekki meira fyrir hvert kg en aðrir, sem eiga kjöt, sem verra er talið.

Slíkt ósamræmi er slæmt, — að láta þá, sem raunverulega hafa beztu skrokkana, ekki fá tiltölulega mest fyrir þá. Það þarf að láta menn hafa þá hvöt með verðflokkun á kjötinu til framleiðenda, að þeir þess vegna reyni að framleiða þá vöru, sem selst vel. Ef menn geta séð það á reikningum sínum frá verzlunum, að þeir hafa fengið t. d. 5 aurum hærra verð fyrir bezta kjötið, sem þeir lögðu inn í fyrra, heldur en það næst bezta o. s. frv., þá verður þetta framleiðendum sú hvöt til þess að reyna að framleiða góða vöru í þessu efni, að með slíkri verðflokkun til framleiðenda mundi það nást á 10 árum í auknum gæðum kjötsins, miðað við sölumöguleika á því t. d. í Englandi, sem annars þyrfti sjálfsagt 30–40 ár til að ná.

Ég viðurkenni, að það er erfiðara að ákveða verðmun á kjötinu til neytendanna, og jafnvel eru á því miklar hömlur á vissum stöðum, sérstaklega í smáþorpum, þar sem lítið er um sölu á kjöti. Samt hygg ég, að víða sé hægt að yfirstíga þá erfiðleika. Þess vegna ætla ég að bera fram skrifl. brtt. við mína eigin brtt. og leggja til, að brtt. með þeirri breyt. byrji svona: „Eftir því, sem við verður komið, skal gera“ o. s. frv. Og með þeirri breyt. er því þannig fyrir komið, að ekki er sagt, að það þurfi að gera verðmismun á kjötinu til neytenda með eins miklum stigbreyt. eða eins nákvæmlega og til framleiðenda, og ekki þyrfti þá endilega að gera þann mismun á þeim stöðum, þar sem sala er svo lítil, að það kjöt, sem til sölustaðar kemur, selst að kalla strax. Ég legg því þessa skrifl. brtt. fram og bið hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.