21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

36. mál, kjötmat o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki bæta miklu við það, sem ég hef sagt um þetta mál. En ef einhver vildi, hafa fyrir því að fara í gegnum sýningarskýrslur hrúta síðast liðin 20 ár, þá mundi hann komast að raun um, að á þeim svæðum landsins, þar sem starfað hafa kaupfélög, er gert hafa verðmismun á kjötinu til bænda eftir gæðamati, er meðaltal hrúta með tilliti til gæða kjötsins mun hærra en annars staðar. Og hann getur líka sannfært sig um, að á þeim svæðum, þar sem gerður hefur verið verðmunur á kjöti til bændanna eftir gæðum þess, þar hefur farið vaxandi prósentvís það kjöt, sem hefur farið í hæsta verðflokk, meðan þetta stendur í stað á hinum stöðunum, þar sem þessi verðmunur hefur ekki verið gerður. Og þar, sem ekkert gæðamat er á kjöti, mun sá hinn sami finna það, að gæði kjötsins hafa ekki breytzt nokkurn hlut, eins og hér á svæði Sláturfélags Suðurlands, þar sem í þessu efni er kyrrstaða.