24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

36. mál, kjötmat o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. —Þetta frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér eina breyt., sem máli skiptir, á kjötmatsl., sem nú gilda. Eftir gildistöku þessarar breyt. verður tekið að meta kjöt til innanlandsneyzlu, hvort það er frosið eða nýtt, en í eldri l. er ekki heimild til þess að framkvæma slíkt mat. Það liggur í augum uppi, að það sé rétt og æskilegt, að slíkt mat sé tekið upp, en til þess liggja tvennar ástæður. Önnur er sú, að ætíð sé afgreitt frá sláturhúsunum til frystihúsanna kjöt, sem sé jafnhæft, hvort heldur er til útflutnings eða til innanlandsneyzlu. Í öðru lagi er sú ástæða, að neytendur innanlands eigi rétt á því að fá tryggingu fyrir því, að kjötið sé vel meðhöndlað, þegar þeir kaupa það til neyzlu. Af þessum tveim ástæðum er það, að þessi breyt. á kjötmatsl. er borin fram.

Til frekari upplýsinga vil ég geta þess, að fyrir atbeina atvmrn. var kallaður saman fundur í ágúst í sumar, þar sem saman voru komnir allir yfirkjötmatsmenn landsins ásamt kjötverðlagsn. o. fl. Þar var meðal annars mikið rætt um kjötútflutninginn og hversu æskilegt væri að tryggja sem bezta meðferð kjötsins. Þessi fundur féllst á það meðal annars, að farið yrði fram á þessa lagabreyt., sem hér er komin fram.

Með því að sláturtíð er nú að byrja, þá er það mjög æskilegt, að hv. þd. geti séð sér fært að láta þetta frv. ganga gegnum þessa hv. d. svo hratt sem kostur er á. Málið hefur hins vegar fengið afgr. í hv. Nd., og afgr. hún það eins og það kom þangað. Ég vænti þess, að sú meðferð þar geti orðið til þess að flýta fyrir því, að frv. gangi fljótt gegnum þessa hv. d. Ég ætla ekki að gera neina till. um, að málið gangi til n., en ef hv. d. telur þess þörf, þá vænti ég þess, að því verði vísað til hv. landbn.