30.09.1943
Efri deild: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

36. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. 6. þm. Reykv. (BBen) ræddi þetta mál við fyrri hluta þessarar umr., bæði almennt og nokkur einstök atriði. Út af ummælum hans um málið almennt vildi ég geta þess, að n. taldi eigi annað en það liggja fyrir, hvort mæla skyldi með þessu frv. eða ekki, en hitt er annað mál, hvort þörf kunni að vera á allsherjarendurskoðun kjötlaganna. Þó að landbn. mæli með þessari smábreyt. og allir séu raunar sammála um réttmæti hennar, skyldar það nefndina engan veginn til að leggja nú þegar til að gera umfangsmeiri breyt., sem þyrftu nokkra rannsókn til undirbúnings. Þær breyt. kunna að vera æskilegar, og er hverjum þm. auðvelt að koma þar með tillögur, en n. má ekki ráðast í það án frekari undirbúnings að beita sér fyrir stórbreytingum. Hv. 6. þm. Reykv. þótti þetta frv. heldur lítilfjörlegt, og ber n. ekki ábyrgð á, þótt svo mætti kalla. En þegar hann talar um, að duldar orsakir muni liggja að frv., virðist mér það tilefnislaust. Tilgangur þess, að sama mat skuli gera á kjöti til innlendrar sem erlendrar sölu, liggur opinn fyrir og virðist alveg eðlilegur, — annarra skýringa þarf ekki til að skilja frv., eins og tekið hefur verið fram. Ég þarf ekki fleiri orð um þetta af hálfu n., en get drepið enn á tvö atriði í ræðu hv. 6. þm. Reykv.

Hann virtist ekki álíta flokkun kjöts ákaflega þýðingarmikla, nema um leið væru lögfest ákvæði um verðmun flokkanna. Hann benti á, að samþingsmaður minn hefði flutt tillögu um þetta í Nd., og virtist vera henni samþykkur, þótt hún næði þar ekki samþykki. Ég álít alveg sjálfsagt, að verðmunur sé, bæði þegar framleiðendur selja og neytendur kaupa. Þeir, sem framleiða góða vöru, eiga að fá meira fyrir hana en þeir, sem framleiða lakari, og eins á neytandinn heimtingu á verðmun. En ég er ekki viss um, að ákvæði um það þurfi að standa í l. Það er þeim í sjálfsvald sett, sem verzla með kjöt, að ákveða verðmuninn hæfilegan í hverju tilfelli. Ég býst við, að það geti verið ýmsum takmörkunum háð, hve langt sé rétt að ganga í því. Gagnvart framleiðendum er það auðvelt og eins í heildsölu, en í smásölu er ekki gott að sjá um hvern bitann, sem seldur er, hvaða verðflokki hann átti í fyrstu að tilheyra. Þar nær flokkunin síður tilgangi, og mér þykir vafamál, hvort hún á þar heima.

Þá vék þm. að þeirri hlið málsins, sem snýr að hreinlæti og hollustueftirliti með kjöti og allri meðferð þess og flutningum. Ég skal sízt bera móti, að um það þyrfti ákveðnari fyrirmæli en eru. Yfirleitt höfum við Íslendingar litla trygging fyrir því, að vörur, sem við neytum, hafi ekki hlotið óheilnæmari meðferð en skyldi, t. d. mjölmatur og ávextir. En með þessu frv. eru sömu ákvæði látin gilda um kjöt til neyzlu innanlands sem til útflutnings, og það er spor í rétta átt í þessu efni. Eina undantekningin er sú, að til fjár, sem slátra skal fyrir innlendan markað, nær ekki ákvæði 4. gr. kjötlaganna frá 1933, að læknisskoðun skuli fara fram á öllu sláturfé eigi meir en 12 klst. áður en því er slátrað. En ég álít læknisskoðun á kjöti eftir slátrun og eftirlit með geymslu kjötsins og flutningi vera miklu þýðingarmeiri en þessa skoðun á fénu fyrir slátrun. En ef þm. vilja, geta þeir einnig látið þá reglu gilda við slátrun fyrir innlendan markað.