30.09.1943
Efri deild: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

36. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. (Páll Hermannsson) :

Mér finnst álitamál, hvort ekki sé rétt að fresta þessari umr., þangað til atvmrh. (VÞ) getur verið viðstaddur til andsvara því, er hv. 6. þm. Reykv. hefur borið fram, og beini ég því til forseta, hvort hann vilji ekki taka málið af dagskrá. Þó vil ég drepa á örfá atriði í ræðu þm. Ég er honum alveg sammála um, að vanda beri til endurskoðunar á l. sem kjötlögunum, en einmitt þess vegna er ekki unnt að ráðast í þá endurskoðun, áður en þingið sker úr um afdrif þessa smámáls, og sé mál þetta meinlaust og að einhverju leyti gagnlegt, eins og n. telur, á að samþ. það, því að það spillir sízt fyrir frekari umbótum, heldur getur flýtt þeim. — Ég skyldi ekki hafa á móti því, að frv. væri svo orðað, að flokkunin skyldi hafa áhrif á verð, en ég endurtek, að ekki er nauðsyn að hafa slíkt í l. Þm. hafði orð eftir mér um þetta og virtist eigi hafa tekið eftir, að ég minntist á verðmun eftir flokkum, þegar selt er í heildsölu, heilum kroppum, og það getur skipt neytendur miklu. Það hefur áhrif á mig í þessu atriði, að búið er að fella till. hv. samþingism. míns í Nd. og örðugt mun að ná samkomulagi um breyting frv.

Að sjálfsögðu hafa verið uppi raddir um það, að misbrestur vilji verða á sæmilegri meðferð þessarar vöru. Sumt kann að vera orðum aukið, en ekki ástæðulaust. Á ýmsum slátrunarstöðum hefur návist setuliðs og húsaþrengsli af því orðið hindrun þess, að við yrði komið jafngóðri meðferð og annars, og fleiri tímabundnar ástæður mætti telja, er vandkvæði þessi hljótast af.