01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

36. mál, kjötmat o.fl.

Bjarni Benediktsson:

Hæstv. atvmrh. taldi sjálfsagt, að gerður yrði verðmunur á kjöti eftir mati. Þá vaknar sú spurning, hví hv. Nd. felldi ákvæði um þetta efni, ef það er sjálfsagt, eða gat það þá skaðað í l.? Það er auðvitað gott að fá yfirlýsingu hæstv. atvmrh. um þetta, en betra væri að fá gerða grein fyrir þessu, og ég tél það skorta við undirbúning málsins. Ég vil mega vænta þess, að greinargerð verði lögð fram fyrir 3., umr. um það, hvaða áhrif þessi flokkun eigi að hafa á andvirði kjöts til bænda og verðið til neytenda. Hv. Nd. hefur þegar fellt, að flokkunin eigi að koma fram í verði. Það þarf því að taka hér af öll tvímæli. Ef ætlunin er, að flokkunin hafi áhrif á verðið, þá þarf greinargerð að koma fram um það. Þar þarf að taka fram, hvort eitthvað af kjötinu á að vera útilokað og hvert verðhlutfall eigi að gilda milli hinna tegundanna til bænda og neytenda. Ef hugsun er í frv., en ekki fálm, sem ég hef enga ástæðu til að ætla, þá hljóta upplýsingar um þetta að liggja fyrir. Ég tel þær því nauðsynlegri sem enginn veit almennilega, hvernig á að samræma þetta og álit sex manna nefndarinnar, en menn þurfa að gera sér glögga grein fyrir, hvernig á að koma þessu fyrir.

Það varð ljóst af ræðu hæstv. atvmrh., að hann hafði ekki hlýtt á mál mitt, því að hann kom aðeins að útskækli málsins, en ekkert að því, sem var aðalatriðið í ræðu minni, að séð væri um að tryggja gæði kjötsins á innlenda markaðinum. Nú lýsti hæstv. atvmrh. yfir því, að yfirdýralæknir teldi tryggilega frá heilbrigðisreglum gengið. Þetta kemur ekki vel heim við bréf þessa embættismanns til mín, dags. 12. 9. '43. Þar segir: „Í íshúskjöti frá f. á. hef ég séð galla og skemmdir, er stafa af bilunum í kælirúmum.“

Það er engin trygging fyrir því, að kjöt, sem er ekki flutt af landi burt, sé skoðað af læknum. Yfirdýralæknirinn mælir eindregið með þeirri skoðun, en samkvæmt gildandi reglum er ekki hægt að láta hana fara fram. Þetta bendir ekki til, að núverandi ákvæði séu trygg. Yfirdýralæknirinn telur og, að hægt sé að láta fara fram skoðun fyrir innlenda markaðinn, en til þess þurfi lagabreyt. Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Frv. getur staðið til bóta, en það vantar öll gögn með því. Hins vegar er gengið fram hjá svo mörgu öðru, sem ábótavant er, og því varhugavert að gera þessa lagabreyt.

En þar eð hæstv. atvmrh. taldi sjálfsagt að gera verðmun á kjöti eftir gæðum, þá má vænta greinargerðar um það fyrir 3. umr., ef málið hefur verið hugsað og undirbúið. Að öðrum kosti sé ég ekki annað en fella verði frv. eða vísa því frá með rökst. dagskrá, því að þá er ekki gerð grein fyrir, hvers vegna það er fram komið. En ég efast ekki um, að sú greinargerð verði fyrir hendi.