01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

36. mál, kjötmat o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Ég vil fyrst taka það fram, að ég hafði eftir dýralækni, að hann áliti skoðun á fé á undan slátrun óþarfa, þar eð nægilegt væri að skoða kjötið á eftir slátrun. Annað hafði ég ekki eftir honum. Sú tilvitnun í bréf frá honum, sem hér hefur verið lesin upp, kemur þessu því ekkert við.

Viðvíkjandi þessu frv. vil ég benda á það, að það er frv. til l. um breyt. á l. um kjötmat. Það eru l. um mat og flokkun, en ekki l. um sölu og verðmun milli flokka. Þessi l. eru sambærileg við l. um fiskimat og l. um kartöflumat, en þau l. fjalla ekkert um verðmun milli flokka. Það er gert ráð fyrir, að það sé framkvæmdaratriði. Um það atriði, að ákvæði vanti inn í frv. um skoðun og geymslu og rétt til eftirlits, áður en kjötið er selt, þá ætla ég að réttur til eftirlits sé til í l. um eftirlit með matvælaverzlun landsins.

Ég vil svo endurtaka, að þetta eru matslög, en ekki l. um sölu og verðlagningu.