05.10.1943
Efri deild: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

36. mál, kjötmat o.fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hef ekki til þessa blandað mér inn í þær umr., sem orðið hafa um þetta mál. Þær hafa verið talsverðar, en á síðasta fundi, sem frv. var til umr., var ég ekki viðstaddur og heyrði ekki ummæli hæstv. ráðh. Ég leit þannig á í n., þegar þetta mál var til umr. þar, að frv. væri frekar til bóta og sérstaklega væri mikið undir því komið, hvernig reglur n. setti samkv. þessari lagabreyt. Ef þær væru rækilegar og nákvæmar, hélt ég, að fást mundi flest af því, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á hér. Ég álít satt að segja, að að sumu leyti væri illa farið með þetta frv., ef það, sem er þó áreiðanlega að ýmsu leyti til bóta, er látið fara allt torleiðið hér á þingi, en á endamörkum vísað frá með rökst. dagskrá. Ég held, að miklu réttara væri að samþ. það, þó að því kynni að vera að einhverju leyti áfátt, og nota það, eftir því sem það mætti að gagni verða, en ef það reyndist, að rn. setti ekki nógu nákvæmar reglur, þá að taka málið upp aftur og endurbæta það eftir þörfum, og til þess yrði ég tilbúinn á næstu þingum, ef þess reyndist þörf. Þess vegna finnst mér ástæðulaust að vísa málinu nú frá með rökst. dagskrá, því að það er þó til bóta, og má alltaf endurbæta það síðar, ef það reyndist ekki fullnægjandi, eins og það er nú.