25.11.1943
Neðri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

36. mál, kjötmat o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Við meðferð þessa máls hér í d. á sínum tíma voru felldar fyrir mér brtt. um það, að verðmunur skyldi gerður á kjöti til þeirra manna, sem framleiddu það og keyptu, eftir því, hve gott það væri. Ed. átti nógu marga menn, sem vildu gera slíkan mun til neytenda. Hins vegar voru þar ekki nógu margir menn, sem vildu gera á kjötinu verðmismun til framleiðenda, eftir gæðum. Ég vænti þess, að hér muni vera það margir menn, sem vilja gera sama mismun til framleiðenda og neytenda, að það nægi til að samþ. þá brtt., sem ég ber fram um þetta á þskj. 152. Hún fer ekki fram á annað en í staðinn fyrir „útsölu“ komi „til neytenda og framleiðenda“. Ég vona, að allir sjái, að ekki kemur til mála að láta menn, sem framleiða góða vöru, ekki fá meira fyrir hana en þá, sem framleiða vonda vöru, þegar á að selja hana mishátt til neytenda, sem ég tel sjálfsagt: Ég vona því, að þessi brtt. verði samþ., og ég skil satt að segja ekki það sjónarmið meiri hl. að vilja ekki láta þetta standa í l. Ég viðurkenni fúslega það sjónarmið, að erfitt sé að framkvæma þetta, en það er langt frá, að það sé óframkvæmanlegt, og það er meira að segja framkvæmanlegt á fleiri en einn veg, og alveg sjálfsagt fyrst og fremst út frá því sjónarmiði, að það er sú mesta hvöt, sem hægt er að fá, fyrir framleiðendur til að vanda vöru sína, að þeir hafi hag af því að hafa hana góða. Þá leggja þeir í kostnað og fyrirhöfn til að vanda hana, en það gera menn ekki, ef það bezta og það skítlegasta er borgað jafnt.