07.12.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

36. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. Nd.-nefndar (Jón Sigurðsson) :

Ég vil aðeins taka það fram út af ummælum hv. 6. þm. Reykv., að mér þykir dálítið undarlegt, hvernig hann tók til orða. Hann sagðist geta fallizt á, að þetta mál væri tekið upp, og það er þó viðurkennt af öllum, að það er stór breyt., því að í rauninni er það þannig, að ekkert mat hefur farið fram. Nú er ekkert mat á kjöti, sem selt er á innlendum markaði, en með þessari löggjöf er ákveðið, að það skuli fara fram mat á þessu kjöti, eins og kjötið hefði verið flutt til útlanda. Ég skil ekki, hverjum væri hagur að slíku mati, ef ekki neytendum. Þess vegna er það skrítið að segja það, að menn geti rétt fallizt á það. Það er a. m. k. svo fyrir mér, að hér sé um mikið hagsmunamál að ræða, þegar matið er komið á, eins og það er ákveðið gagnvart okkur, sem framleiðum til útflutnings. Og það ætti ekki síður að hafa mikla þýðingu fyrir allan neytendahópinn í landinu og alveg jafnt fyrir því, þó að þessi ákvæði verði ekki sett inn sem nánari ákvæði. Sami hv. þm. var að tala um till. hv. 2. þm. N-M., en hann er að sjálfsögðu fær um að gera grein fyrir sinni till. En ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á það, að í till. hv. 2. þm. N.-M. felist allt annað, því að hann barðist fyrir því, að það væri gerður verðmunur til framleiðenda eftir því, í hvaða vöruflokk kjötið færi, þegar það væri lagt inn. Það er nú svo með okkur, sem búum í fjarlægð frá aðalneytendamarkaðnum, að við þykjumst ekki þurfa að gera slíkar ráðstafanir, vegna þess að það hefur verið gert hjá okkur, við fáum útborgað eftir vöruflokkum, eftir því, hvað við framleiðum gott kjöt eða lélegt kjöt, og það skiptir okkur miklu máli að við fáum kjötið vel borgað. Reynslan er sú hjá okkur, að það hefur ekki þurft að setja um þetta sérstakar reglur, því að þetta hefur komið af sjálfu sér. Ég er líka sannfærður um, að þegar matið er komið á, þá muni það koma af sjálfu sér, að gerður verði eðlilegur greinarmunur á því, hvort menn fá gott eða lélegt kjöt, þegar þeir kaupa það. Þess vegna er þýðingarlaust að vera að setja þetta inn í l., og ég held fast við það, að þetta eigi þar alls ekki heima.