22.11.1943
Efri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

92. mál, lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Fjhn. hafði hugsað sér að taka fyrir eitt atriði í þessu frv. við 3. umr., sem borið hafði á góma í n. Það var um það, hvort námstími hjúkrunarkvenna skyldi teljast með starfstímanum, þannig að eftir 10 ára starf að námstímanum meðtöldum yrði þeim greiddur lífeyrir svo sem sagt er í 8. gr. En nú stendur svo á, að formaður n. er veikur, og hefur þess vegna ekki verið hægt að ná n. saman. Ég hef þess vegna, ásamt hv. 1. þm. Eyf. (BSt) borið fram till. um þessar breyt., sem borið hefur á góma í n. og ég gat um, sem er á þá leið, að aftan við fyrri málsgr. 7. gr. frv. bætist: „Námstíminn telst með starfstímanum, en meðalárslaun miðast þó aðeins við starfstíma hjúkrunarkonu, eftir að hún hefur lokið námi.“ Vildi ég, að þessi skrifl. brtt. okkar kæmi nú til atkv. Ég held, að ekki sé mikill ágreiningur um þetta í n., og tel líklegt, að n. hefði orðið sammála um brtt. eitthvað á þessa leið, ef hún hefði haft tækifæri til þess að koma saman. N. virtist þetta vera mjög eðlilegt, að námstíminn sé þarna reiknaður með. Réttur til lífeyris fæst ekki fyrr en eftir 10 ára starfstíma og þá ekki heldur fyrr en nokkuð löngu eftir, að hjúkrunarkonan byrjar á starfinu, ef námstíminn er ekki talinn þar með. Og hjúkrunarkonur standa að þessu leyti verr að vígi en annað starfsfólk hjá ríkinu, en er það svo, að starf hjúkrunarnemans er alveg sams konar og starf hjúkrunarkonunnar eftir að hún hefur lokið námi, og virðist því ekki bein ástæða vera til þess, að námstíminn sé ekki talinn með í þessu efni. — Hins vegar leiðir það af sjálfu sér, að ekki er hægt að reikna meðalárslaun hjúkrunarkvenna á þann hátt að taka námstímann með í þann útreikning, heldur aðeins þann tíma, sem þær starfa, eftir að þær hafa lokið námi, því að meðan hjúkrunarkona er við nám, er ekki hægt að telja, að hún fái kaup.

Ég leyfi mér svo að leggja fram þessa skrifl. brtt. með tilmælum um, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni.