10.12.1943
Neðri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

92. mál, lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur orðið sammála um að mæla með samþ. þessa frv. Málið hefur nú gengið gegnum hv. Ed. og fengið þar einróma fylgi. Við í fjhn. gerum á því tvær smávegis brtt., og fjallar sú fyrri eingöngu um að skýra það, að lífeyrisstyrkur komi ekki til greina við launalækkun, nema hún stafi af örorku, en síðari brtt. er aðeins leiðrétting á máli. Annars held ég, að ekki þurfi að gera öllu ýtarlegri grein fyrir þessu frv., vegna þess að það er gert í nánu samræmi við gildandi lög um lífeyrissjóð ljósmæðra. Eini mismunurinn er sá, að rétt til lífeyris hefur sérhver hjúkrunarkona, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins í 10 ár eða lengur samkv. þessu frv., en samkv. l. um lífeyrissjóð ljósmæðra er miðað við 5 ár. Fjhn. taldi rétt að setja þessar reglur í þetta frv. í samræmi við það, sem upp er tekið í öðrum tveim frv., sem sé um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóð barnakennara. Þá var það og upplýst, að n. sú, er starfar nú stjórnskipuð til þess að endurskoða alla löggjöfina um tryggingar ríkisins, mun taka þetta mál til athugunar eins og önnur, og hygg ég, að hún muni síðar gera till. varðandi lífeyrissjóð ljósmæðra, að hann fari yfir á 10 ára regluna.

Eins og áður er sagt, álít ég, að ekki sé þörf á að gera frekari grein fyrir þessu máli, þar sem þetta er gert í samræmi við áðurgreind l. um lífeyrissjóð ljósmæðra, og er frv. samið af einum aðaltryggingasérfræðingi landsins.