15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

121. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Þetta frv. er komið frá Nd., og er efni þess að heimila ríkisstj. að taka innanlandslán, allt að 10 millj. kr., til greiðslu á erlendum skuldum ríkissjóðs. Fjhn. þessarar d. hefur athugað frv. og mælir einróma með, að það verði samþ., enda mætti það undarlegt heita, ef ísl. ríkið reyndi ekki að nota sér ástandið, sem nú er, til að breyta erlendum lánum í innlend eða a. m. k. greiða upp þau erlendu lán, sem eru með það háum vöxtum, að hægt er að fá innlend lán ódýrari. Í gærkvöld var getið hér um innistæður í bönkum og sparisjóðum í landinu, og samkv. því, sem þá kom fram, virðist vera nægilega mikið fé fyrir hendi innan lands til lána fyrir ríkissjóð og meira en það, jafnvel þó að sum bæjarfél. séu líka að bjóða út lán. Ég held, að það væri hæglega hægt að selja öll þau skuldabréf, sem til kæmi.