16.12.1943
Neðri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

24. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. ( Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gat ég þess, að ég teldi óhjákvæmilegt að gera nokkra breyt. á frv. þessu auk þeirrar breyt., sem minni hl. fjhn. þá flutti till. um, en hv. d. gat ekki fallizt á. Í 12. gr. frv. er ákveðið, hvernig reikna skuli út upphæðir ellilífeyris þeirra, sem eiga að fá hann, og eiga þær að miðast við hundraðshluta af meðallaunum hlutaðeigandi sjóðfélaga síðustu 10 starfsár hans, og á hann að vera hækkandi eftir því, sem starfstíminn hefur verið lengri. Hámark ellilífeyris er miðað hér við 60% af meðallaunum viðkomandi aðila síðustu 10 starfsár hans.

Ég benti á það við 2. umr., að vel gæti svo farið vegna þeirrar röskunar, sem orðið hefur á verðgildi peninga, og þeirrar röskunar, sem búast má við, að verði í því efni í framtíðinni og ef þessi ákvæði verða samþ., að einhverju sinni verði ellilífeyrir til fráfarandi starfsmanns jafnhár eða jafnvel hærri en launagreiðslurnar fyrir hliðstæð störf á sama tíma. Ætti öllum að vera ljóst, að það er mjög fráleitt að afgreiða ákvæði, sem geta orðið þannig í framkvæmd.

Það var nokkuð um þetta rætt á fundi í fjhn., eftir að 2. umr. málsins lauk. Virtust mér í raun og veru allir hv. nm. vera á því, að það þyrfti að gera breyt. á frv., þannig að þetta gæti ekki komið fyrir. En þrátt fyrir það varð niðurstaðan sú, að það er aðeins minni hl. fjhn., þ. e. við hv. þm. A.-Húnv., sem stöndum að skrifl. brtt., sem hér verður lögð fram um þetta efni, því að meðnm. okkar vildu ekki taka þátt í flutningi þessarar brtt., þótt ekki hafi komið nein andmæli fram gegn því, sem haldið hefur verið fram um það, að nauðsynlegt væri að gera þessa breyt. á frv.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, þar sem ég nú hef gert grein fyrir þeirri skrifl. brtt., sem minni hl. fjhn. leggur fram við frv., og mun ég afhenda hæstv. forseta þessa brtt. En till. okkar er þannig:

„Við 12. gr. bætist ný málsgrein, svo hljóðandi: Lífeyrir skal þó aldrei vera hærri en 75% af þeim launum, sem greidd eru á hverjum tíma fyrir sama eða sambærilegt starf sem viðkomandi gegndi síðasta starfsárið.“