05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

27. mál, fjárlög 1944

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég á hér fáeinar brtt. við fjárl., sem mig langar til þess að lýsa ofurlítið fyrir hv. þm.

Fyrst er til að telja brtt. á þskj. 331, VIII, sem er til viðbótar brtt. 314 XIII, við 14. gr. frv. frá hv. 10. landsk. Hann hefur nú þegar gert grein fyrir sinni brtt., en það mál, er hér um ræðir, er viðvíkjandi kirkjubyggingu, og gildir því það sama um mína brtt. Hann hefur rætt málið svo almennt og ýtarlega, að ég þarf þar litlu við að bæta. Ég vil þó aðeins skýra frá því, sem mönnum mun þó flestum vera kunnugt um, að Borgarneskauptún á enga kirkju og hefur aldrei átt. Meðan kauptúnið var minna, átti það kirkjusókn á Borg á Mýrum, en það er alllanga leið að fara, en síðan þorpið stækkaði, – það telur nú um 800 íbúa, — hefur verið stofnaður þar sérstakur söfnuður og horfið að því ráði að flytja guðsþjónustur í skólahúsinu. Þetta skólahús er hins vegar lítið og mjög óþægilegt fyrir söfnuðinn til slíkra nota. Fyrir nokkuð löngu var því hafizt handa um að safna í sjóð til kirkjubyggingar í Borgarnesi, og hefur verið unnið að því af miklum ötulleika og fórnfýsi af safnaðarmeðlimum. Nú er svo komið, að söfnuðurinn á allálitlega fjárhæð til að koma upp viðunanlegu guðshúsi, en sökum verðbreytinga á síðari árum telur söfnuðurinn sér ekki fært að koma upp þessari byggingu af eigin rammleik. Hann hefur því beðið mig að flytja þetta mál á þessu þingi, í von um, að árangur náist, þar sem hv. þm. hafa tekið upp þá stefnu að styðja söfnuði, þegar sérstaklega stendur á. Ég álít, að þess sé ekki sízt þörf hér, þar sem reisa þarf kirkju frá grunni, og vona því, að hv. þm. sýni þá sanngirni að veita þennan litla stuðning, sem hér er farið fram á.

Á sama þskj. á ég brtt. við 14 gr., svo hljóðandi:

„Til Ungmennasambands Borgarfjarðar, til nauðsynlegra umbóta á veginum að íþróttavangi sambandsins hjá Ferjukoti.“

Þannig stendur á, að Ungmennasamband Borgarfjarðar hefur nú um 20 ára skeið haft íþróttasvæði skammt frá Ferjukoti, þar á bökkunum skammt frá Hvítá, en sá ljóður er á þessu svæði, sem að öðru leyti er ágætt, að vegurinn að því er stórhættulegur. Þar er farið mjótt einstígi, sem liggur fremst í hömrum rétt hjá Ferjukoti, en þetta einstígi er svo mjótt, að aðeins með mestu aðgætni er hægt að komast fyrir hornið í bíl og alveg útilokað er að mætast þar. Í þessari þröngu bugðu sést til hvorugrar handar, og má því ekkert út af bregða, svo að maður steypist ekki fram af þessu þverhnípta standbergi. Þarna eru haldin mörg mót, ekki aðeins fyrir Ungmennasambandið, heldur fyrir allar meiri háttar samkomur héraðsins, og er því mjög bagalegt, að þessi glæfralegi vegur er eina leiðin, sem fólk getur farið til þess að komast að þessum stað. Sjálfur hef ég farið um flesta vegi landsins, en það verð ég að segja, að þetta er sá glæfralegasti vegur, sem ég hef séð á þessu landi. Á síðasta þingi gerði ég tilraun til að fá þetta lagfært, en Alþ. varð ekki við þeirri bón minni. Hins vegar er ég sannfærður um, að það stafar einungis af því, að hv. þm. hafa ekki séð, hvernig þarna er ástatt, og hafa ekki veitt því athygli, þegar þessu hefur verið lýst hér. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að ungmennafélagið geti upp á eigin spýtur lagfært þennan veg, því að til þess þarf töluvert fé, en ég efast ekki um, að það mun láta einhverja fjárhæð til þess að hægt verði að laga veginn svo, að hann yrði ekki jafnhættulegur. Það er ekki tekið fram í þessari brtt., en ég tek það fram nú, að vegamálastjóri hefur tekið að sér framkvæmdir verksins, ef til þess kemur. Ég mun því láta þessi orð nægja og treysti því, að þeir hv. þm., sem hlýtt hafa á orð mín, greiði fyrir því, að á þessu verði ráðin bót ekki síðar en á komandi sumri.

Að lokum á ég brtt. á þskj. 338, V. ásamt báðum hv. þm. Skagf., og fjallar hún um að flytja til í fjárl. kr. 10000,00 frá loðdýralánadeildinni yfir á Loðdýraræktarfélag Íslands. Samkv. l. um loðdýralánadeildina var ákveðið, að ríkissjóður greiddi deildinni kr. 10000,00 á ári næstu fimm ár, eftir að deildin var stofnuð. Nú er þetta tímabil liðið, þannig að þessu ákvæði í l. sjálfum er þegar fullnægt. Hins vegar hafa störf deildarinnar á síðari árum ekki verið það mikil, að ég held, að ég megi fullyrða, að Búnaðarbankinn hefur ekki hirt þennan styrk, en Loðdýraræktarfélagið hefur haft fé af mjög skornum skammti og hefur sama styrk nú og það hafði á árunum fyrir stríð, þrátt fyrir að rekstrarkostnaður hefur stórum hækkað. Allir þeir, sem álíta, að loðdýraræktin í landinu sé merkilegt framtíðarmál, — og ég held, að þannig hugsi mikill meiri hluti hv. þm., — hljóta að vera á þeirri skoðun, að rétt sé að veita félaginu styrk þennan, svo að það geti haldið áfram starfsemi sinni, og tel ég því liggja í augum uppi, að þessu fé sé vel varið með því að flytja það yfir á þennan hátt og að það sé lögum samkvæmt. Það segir sig sjálft, að 3 þús. kr. hrökkva skammt til þessarar starfsemi, þannig að minna en þessi upphæð, 13 þús., sem styrkurinn yrði með þessari tilfærslu, er félaginu ekki boðlegur. Ég vona því, að hv. þm. skilji það, að lögin um loðdýralánadeildina gera ekki ráð fyrir greiðslum til deildarinnar lengur en fyrir árið 1943, og það er því ekki skylt lögunum samkvæmt að greiða þetta fé lengur.

Ég á hér ýmsar brtt. ásamt öðrum þm., sem ég er ekki fyrsti flm. að, en fyrir þeim hefur verið talað hér áður, svo að ég tel ekki ástæðu til að minnast á þær sérstaklega og mun því láta máli mínu lokið.