25.10.1943
Efri deild: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

25. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Bjarni Benediktsson:

Það eru fyrirspurnir, sem ég vildi bera fram til hv. flm., og eiga þær við bæði frv. um lífeyrissjóðina. Fyrsta fyrirspurnin er: Hvaða ástæður hafa valdið því, að ekki er hægt að hafa um þessi mál einn lagabálk í stað tveggja, úr því að ákvæðin um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eiga að vera um svo margs konar starfsmenn? Þar er gert ráð fyrir, að starfsmenn bæjar- og sveitarfélaga komi einnig undir. Það hefði verið eðlilegast, að mér virðist, að þessu hefði verið steypt saman í einn sjóð og sams konar reglur svo um þetta látnar gilda. En þetta er aðeins formsatriði.

En svo er fyrirspurn varðandi 6. gr. þessa frv. Þar segir, að ávaxta skuli sjóðinn „í tryggum verðbréfum, svo sem ríkisskuldabréfum eða öðrum bréfum með ríkisábyrgð, vaxtabréfum veðdeildar Landsbankans eða Búnaðarbankans, jarðræktarbréfum, skuldabréfum, tryggðum með fyrsta veðrétti í fasteignum allt að 60% af fasteignamati þeirra, eða með öðrum álíka tryggilegum hætti.“ Þarna virðist nú að vísu vera nokkuð rúm heimild, og ég mundi skilja þetta svo, að skuldabréf t. d. bæjar- og sveitarsjóða mundu koma þarna undir, þó að orðalagið sé á þennan veg, vegna þess að þau yrðu talin ámóta trygg bréf og þau, sem þarna eru talin. En þó kynni að mega líta þannig á, að á þessu væri nokkur vafi, þar sem þau einu bréf, sem þarna eru talin, en eru ekki tryggð með veði, eru bréf með ríkisábyrgð. Ég mundi nú bera fram brtt. um þetta efni fyrir 3. umr., ef hv. flm. telur á þessu nokkurn vafa. Því að eftir að gera má ráð fyrir, að töluverður hluti sjóðfélaga sem fyrra frv. tekur til (um lífeyrissjóð embættismanna), og einnig þeirra sjóðfélaga, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir, tekur til, töluverður hluti þessara manna tekur laun sín að verulegu leyti úr bæjar- og sveitarsjóðum, og bæjar- og sveitarsjóðir greiða þeim verulegan hluta iðgjaldanna, þá sýnist mér eðlilegt, að það megi ávaxta þeirra lífeyrissjóði í skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga að svo miklu leyti sem sjóðstjórnin telur þau jafntrygg og þau bréf, sem þarna eru talin í frv. Ég vildi þess vegna mega spyrja um álit hv. flm. á þessum atriðum.

Þá er fyrirspurn út af samanburði á 14. og 15. gr. frv., um það, hvort hv. frsm. mundi telja, að þeir, sem látið hafa af störfum og goldið hafa í lífeyrissjóð embættismanna eða barnakennara samkvæmt gömlu ákvæðunum og hafa ekki fengið það greitt úr lífeyrissjóði aftur með sérstökum fjárlagaákvæðum eins og margir hafa fengið, mundu nú eiga beinan rétt á að fá þetta greitt, ef þeir hafa borgað inn í sjóðinn, eftir að l. þessi ganga í gildi, ef frv. verður samþ. Hitt er ljóst, að þeir eiga rétt á því, ef þeir láta af störfum, eftir að l. þessi ganga í gildi. En viðkomandi þeim, sem látið hafa af störfum fyrir t. d. 10 árum, er mín fyrirspurn. Það virðist langeðlilegast, að sama regla gildi um þá eins og hina, sem láta af störfum, eftir að l. þessi öðlast gildi., ef frv. verður samþ. Og í langflestum tilfellum hafa þessar greiðslur verið ákveðnar með fjárlagaákvæðum. En spurningin er, hvort ekki er rétt að láta ákvæði l. vera þannig, að þetta sé greitt, án þess að um það þurfi að sækja í hvert skipti til Alþ.