16.12.1943
Neðri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

25. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Við höfðum nú að vísu ætlað okkur að bera fram brtt. við þetta frv., samhljóða þeim, er við fluttum við frv. um lífeyrissj. starfsmanna ríkisins, því að það er alveg sami smíðagallinn á því, en ég sé, að það hefur enga þýðingu, þar sem meiri hl. felldi brtt. okkar. Það er í frægri bók eftir Benedikt Gröndal, sem söguhetja segir: „Kauptu eitthvað.“ Á sama hátt virðist mér meiri hl. hv. deildar segja: „Við skulum smíða eitthvað.“ Það er sama, hvernig hluturinn lítur út, að dómi þessara hv. þm.

Ég sé ekki ástæðu til að bera brtt. fram. Hún mundi fá sömu meðferðina og hin fyrri.