11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Olíuverzlun landsins hefur verið með þeim hætti fyrirfarandi ár, að hvergi nærri er ákjósanlegt. Kostnaður félaganna, sem annazt hafa dreifingu á brennsluolíum, hefur verið geypimikill. Hagnaður félaganna hefur verið mjög stór. Af þessu hvoru tveggja hefur leitt, að olíuverð í landi hér hefur verið mjög hátt.

Núverandi ríkisstj. var strax ljóst, að á þessu sviði var mikil þörf úrbóta. Ríkisstj. tók við olíumálum landsins þannig 16. des. s.l., er stórkostleg hækkun á heildsöluverðinu var skollin á. Samkv. upplýsingum olíufélaganna nam hækkun þessi a. m. k. 7 millj. kr. á ársnotkun landsmanna. Fyrir góðan skilning Bandaríkjastjórnar fékkst í marzmánuði s. l. þessi hækkun felld úr gildi og það þannig, að lækkunin verkaði aftur fyrir sig.

Núverandi ríkisstj. samdi síðan við flotastjórn Bandaríkjanna um, að Íslendingum yrði tryggður nægur olíuforði yfirstandandi ár af birgðum flotans, og enn fremur var um það samið, að brennsluolíur þær, sem landsmenn fengju, yrðu ekki aðeins afhentar þá starfandi olíufélögum til sölu, heldur einnig til annarra þeirra félag eða fyrirtækja, sem ríkisstj. tilnefndi.

Þegar þessu var náð, tók stjórn síldarverksmiðja ríkisins fyrir beiðni ríkisstj. nokkrar birgðir af hráolíu til sölu, sem flotastjórnin góðfúslega flutti norður. Olía þessi var seld á 38 aura, en verð olíufélaganna var þá 51 eyrir. Lækkun á útsöluverði olíunnar gat verið allmiklu meiri, en af ýmsum ástæðum þótti ekki ástæða til að fara lengra niður að sinni. —Nokkrir staðir á landinu höfðu fyrir stríð sýnt virðingarverðan áhuga á að brjóta af sér fjötra olíufélaganna. T. d. höfðu útgerðarmenn við Eyjafjörð haft samtök um olíukaup beint frá útlöndum með allgóðum árangri, en alveg sérstaklega er ástæða til að benda á framsýni og dugnað útgerðarmanna í Vestmannaeyjum, sem urðu brautryðjendur í því að taka saman höndum og með samvinnu leystu það þrekvirki, óstuddir af öðrum, að smíða olíugeyma og hefja árangursríka samkeppni við olíufélögin. Útgerðarmenn í Keflavík gerðu síðar slíkt hið sama.

Samkv. upplýsingum frá stjórnendum olíusamlagsins í Vestmannaeyjum mundi rekstrarkostnaður þeirra nú ekki vera meiri en svo, að hráolíuverð þar á staðnum, miðað við núverandi heildsöluverð og farmgjald, gæti verið um 32 aurar, en verð olíufélaganna, áður en fyrirskipuð verðlækkun viðskiptaráðs var gerð fyrir skemmstu, var 51 eyrir. Ætla ég, að aðstaða olíusamlagsins í Keflavík mundi ekki vera lakari. Af þessu má ljóst vera, hversu miklu það skiptir að geta notað þá aðstöðu, sem ríkisstj. fékk með samningum við flotastjórnina á s. l. sumri.

Bæði þessi olíusamlög leituðu eftir því við ríkisstj. að fá olíu til sölu, og var hægt að láta þeim þetta í té, en úr þeim framkvæmdum olíusamlaganna varð þó ekki, vegna þess að olíugeymar þeirra eru bundnir olíufélögunum með leigusamningum, sem olíufélögin hafa sennilega ekki kært sig um að gefa eftir.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, af skýrslu ríkisstj. til Alþ. fyrir nokkru, var útlit fyrir, að í byrjun þessa mánaðar mundi verða breyting á um olíuviðskiptin, sem valda mundi verulegri verðhækkun. Ríkisstj. skýrði þá jafnframt frá, að hún hefði málið til samningsmeðferðar. Án þess á þessu stigi að geta greint nokkuð frekar frá þessum samningum, er mér þó ljúft að geta upplýst hv. þd. um, að enn hefur engin breyting verið gerð á olíuviðskiptunum og engin hækkun átt sér stað.

Félag útgerðarmanna á Norðfirði, sem fyrir stuttu bað um hráolíu á geymi, sem félagið hefur fengið leigðan á staðnum, hefur af ríkisstj. verið viðurkennt sem réttur aðili til þess að fá olíu af birgðum flotans. Hef ég fengið loforð fyrir, að séð verði um flutning á hæfilegum forða handa þeirri verstöð innan skamms. Mun því Norðfjörður bráðlega geta byrjað að selja hráolíu með stórlækkuðu verði frá því, sem nú er.

Frv. það til l., sem ríkisstj. ber hér fram, er í beinu framhaldi af öðrum aðgerðum hennar í olíumálunum. Það er ekki nóg að hafa útvegað ódýra olíu í heildsölu, það þarf líka að sjá fyrir því, að olían komist á sem ódýrastan hátt til þeirra, sem þurfa að nota hana. Til þess gætu verið m. a. tvær leiðir. Önnur er sú að lögleiða einkasölu á allri olíuverzlun í landinu, hin að gera ráðstafanir til, að notendurnir sjálfir geti annazt dreifingu olíunnar. Ríkisstj. telur ekki æskilegt, að einkasala sé lögboðin, a. m. k. ekki fyrr en aðrar leiðir hafa verið reyndar. Og af ýmsum ástæðum teldi ég það beinlínis mjög óhagstætt, eins og olíumál okkar eru í augnablikinu, að þetta yrði gert nú. Seinni leiðin hefur verið valin, sú leið að leggja til, að olíunotendum verði veitt nauðsynleg aðstoð, til þess að þeir sjálfir í samstarfi geti annazt dreifingu olíunnar. Er það sannfæring mín, enda sýnt af reynslunni, að þannig má reka verzlun með þessa vöru sem aðrar ódýrast og hagkvæmast fyrir þá, sem vöruna nota.

Frv. gerir ráð fyrir þrennu. Í fyrsta lagi er ríkisstj. veitt heimild til að koma upp eða eignast hæfilega stóra aðalbirgða- og geymslustöð, einnig að eignast eða hafa til afnota hæfilegt skip til flutnings á olíunni með fram ströndum landsins. Að vísu er ekki nauðsynlegt að gera þetta nú í augnablikinu, á meðan við höfum samninga við flotastjórnina, en heimildin verður nauðsynleg, þegar að því kæmi, að þessir samningar féllu úr gildi. Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því, að olíunotendum úti um land verði veitt aðstoð til að koma upp olíugeymum, en það er vitað, að dreifing olíunnar beint til bátanna í stað þess að flytja hana í tunnum, eins og nú gerist almennt, er miklu hagkvæmari og olíunotendum ódýrari.

Gert er ráð fyrir, að þessi aðstoð verði veitt á tvennan hátt, í fyrsta lagi sem beinn styrkur til notendanna, til byggingar eða kaupa á olíustöðvum, og skal styrkurinn nema hæst 1/6 af byggingarkostnaði eða kaupverði slíkra stöðva, í öðru lagi, að fiskveiðasjóði sé lögð sú skylda á herðar að veita allt að 50% lán til kaupa eða byggingar þeirra. L. gera ráð fyrir, að þau skilyrði séu sett fyrir þessum framkvæmdum, að útgerðarmenn og aðrir, sem vilja verða þessara hlunninda aðnjótandi, stofni með sér félög, er hafi þau þrjú aðaleinkenni, 1) að hver aðili hafi eitt atkvæði, 2) að arði af rekstri olíusölunnar sé skipt milli félagsmanna eftir því olíumagni, sem hver hefur keypt, 3) að félagið sé opið öllum útgerðarmönnum, útgerðarfélögum eða öðrum, sem eru verulegir olíunotendur.

Viðkomandi kvöðinni á fiskveiðasjóði vil ég upplýsa, að sjóðurinn á ónotaða stóra lántökuheimild, og virðist því ekki á þessu stigi málsins þurfa að leita honum meiri heimilda. Það er gert ráð fyrir, að vextir af lánum, sem fiskveiðasjóður veitir, verði 4%, og er búizt við, að þau verði ekki það mörg, að það skipti þeim kostnaði, að þörf verði á að sjá honum fyrir sérstökum tekjum þess vegna.

Eins og ég hef sagt áður, gerir ríkisstj. ráð fyrir, ef útgerðarmenn geta notað sér þær heimildir, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu, að þá sé stórt spor stigið í þá átt að gera olíuna ódýrari en hún nú er og mundi annars verða.

Í þriðja lagi er ríkisstj. veitt heimild til eignarnáms. Er það tvenns konar. Í fyrsta lagi er eignarnám á lóðum og lendum til að reisa á olíustöðvar. Þetta er sams konar heimild og tíðkast í hafnarl. og fleiri lögum. Í öðru lagi er heimilað eignar- eða leigunám á olíustöðvum, sem til eru í landinu, ef með því fæst hagkvæmari og ódýrari dreifing olíu og má endurleigja þá eða selja þeim, sem starfa samkv. þessum 1.

Það virðist réttmætt að heimila eignarnám undir slíkum kringumstæðum.

Ég vil mæla hið bezta með þessu frv. við hv. Alþ. og verði það að l., mun ríkisstj. gera sitt ýtrasta til, að aðstoð sú, sem frv. gerir ráð fyrir, komi að gagni þeim verstöðvum, sem um það biðja. Einnig mun ríkisstj. leggja áherzlu á að útvega efni og annað til framkvæmda svo fljótt og vel sem kostur verður á.

Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til sjútvn. að þessari umr. lokinni og um leið óska þess, að sjútvn. beggja d. hafi það meðferðis samtímis, til þess að hægt sé að hraða göngu þess sem mest. Þá vil ég geta þess, að það er prentvilla í 4. gr. frv. Þar á að standa „félaga“, ekki „félags“, í síðustu línu fyrri mgr., og að í niðurlagi 6. gr. á að standa „olíum“ en ekki „olíu“.