05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

27. mál, fjárlög 1944

Ólafur Thors:

Ég á tvær smábrtt. á þskj. 331. Sú fyrri, merkt VII, lýtur að hækkun á tillagi til lendingarbóta í Vogum syðra, úr 25000 kr. í 50000 kr. Hér er um mjög aðkallandi þörf á lendingarbótum að ræða, og mér sýnist, að 25000 kr. sé nokkuð langt neðan við þá upphæð, sem lægst verður komizt af með. Annars get ég ekki rökstutt þessa till. eða sýnt fram á, að hún eigi meiri rétt á sér en aðrar svipaðar tillögur, en legg hana undir mat þingsins og vilja til að meta hana og vega og vænti þess, að þá hljóti hún það fylgi, sem hún þarf til þess að ná samþykki.

Síðari till. er um að veita Ólafi Ketilssyni, fyrrv. hreppstjóra, 500 kr., en hann á við mjög erfið kjör að búa. Hann hefur skrifað mér um þetta efni, og segir hann þar m. a., að hann sé nú 78 ára að aldri og ófær til vinnu. Auk hans sé kona sín á heimilinu, óvinnufær dóttir, 10 ára dótturdóttir og loks dóttir, sem hafi öll verkin á hendi. Allar tekjur búsins eru 3 tunnur kartöflur á 210 kr. og l pottur mjólkur á dag á kr. 0.70. Samtals eru tekjur búsins kr. 430,00 á ári. „Með þeirri dýrtíð, sem nú er, er mér alveg ómögulegt að komast af án hjálpar frá einum eða öðrum,“ segir hann að lokum. Þessi maður hefur nú verið hreppstjóri í 40 ár. Meðan hann var hreppstjóri Hafnahrepps, bjargaði hann 39 mannslífum úr sjávarháska, 36 útlendum og 3 íslenzkum. Þótt hann segi ekki frá þessu sjálfur, þá var mjög rómuð dirfska sú og snarræði, sem hann sýndi, er hann bjargaði skipshöfn hins enska togara. Mér er sagt af kunnugum, að í 50 ára búskapartíð þeirra hjóna hafi heimili þeirra verið alrómað fyrir gestrisni og höfðingslund við þá, sem að garði bar, hvort heldur þeir voru innlendir eða erlendir. Ég vona, að hv. þm., sem mál mitt heyra, sjái, að hér er höfðingi á ferð, sem á gamals aldri er féþurfi og er vel að því kominn að fá þessi heiðursverðlaun úr ríkissjóði. Vona ég, að þm. geti með glöðu geði stutt þessa till. mína.

Skal ég ekki ræða frekar um afgreiðslu fjárlaganna, a. m. k. ekki við þessa umr.