19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og frsm. gat um, höfum við hv. þm. Vestm. (JJós) sérstöðu um eina gr. frv. Annars höfum við ekki talazt við þannig, að ég geti talað fyrir hans hönd, en sameiginlega hefur það verið skoðun okkar, að eignarnámsheimildin í 6. gr. frv. sé óvenjulega rúm og sé því varhugavert að ganga inn á þá braut að veita slíka eignarnámsheimild jafntakmarkalaust.

Ég hef í upphafi þrennt við frv. ríkisstj. að athuga. Í fyrsta lagi geri ég þá athugun við 1. gr., að mér þykir, að heimildin, sem gr. veitir ríkisstj., geti varla staðizt, nema tiltekið verði það fé, sem til þessara framkvæmda þarf. Og því fer fjarri, að ég vilji, að þetta verði skorið við nögl, enda var n. sammála um, að þetta yrði takmarkað við ákveðna upphæð úr ríkissjóði. En vitanlegt er, að Alþ. mundi bregðast vel við og rýmka þessa heimild, ef sú upphæð reyndist of lítil og nauðsyn bæri til að hækka hana. Það er góð regla, sem alls ekki er rétt að víkja frá, að Alþ. setji einhver ákveðin mörk fyrir því fé, sem ríkissjóður megi eyða, hversu nauðsynlegt það verk er, sem framkvæma á.

Í öðru lagi hef ég verið dálítið hugsandi yfir því, hvort fiskveiðasjóður gæti risið undir þeim kvöðum, sem honum eru gerðar með 3. gr. Við í sjútvn. höfum orðið ásáttir um það, eftir að hafa átt samtal við framkvæmdastjóra fiskveiðasjóðs, að vel geti staðizt samkvæmt l. sjóðsins 75 þús. kr. lánveiting með hliðsjón af lánum til hliðstæðra fyrirtækja, og það virðist svo eftir áætlun ríkisstj., að varla geti orðið meiri kostnaður við að koma upp hverjum olíugeymi en að félögin gætu látið sér nægja 75 þús. kr. lán úr fiskveiðasjóði. Til þess svo að bægja frá hugsanlegri hættu fyrir sjóðinn varð samkomulag um það að hækka framlag ríkissjóðs úr 1/6 af byggingarverði eða kaupverði í 1/5. Þar sem gert er ráð fyrir í l. fiskveiðasjóðs, að lán til slíkra hluta megi ekki nema meiru en 40% af byggingar- eða kaupverði, þótti okkur auk þess nauðsynlegt að breyta l. fiskveiðasjóðs í samræmi við þessi l. Þess vegna hefur sjútvn. lagt fram frv. um breyt. á l. sjóðsins, sem fyrst og fremst er heimild á lánveitingu til olíugeymastöðva með hækkun á hámarki lánveitinga úr fiskveiðasjóði upp í 50%, og enn fremur lán til skipasmíða, vegna þess að það er viðkunnanlegra, að fiskveiðasjóði sé stjórnað í samræmi við hans eigin l., sem verður nánar rætt, er það mál kemur hér til umr.

Ágreiningurinn er um það að taka efni 6. gr. til lagfæringar, því að við hana get ég ekki sætt mig. Hér er um að ræða að veita ríkisstj. heimild til eignarnáms á eignum olíufélaganna. Þetta er tvenns konar: Annars vegar að taka landsvæði, lendingarstaði og bryggjur frá einstaklingum og félögum, hins vegar að taka eignarnámi olíugeyma og aðrar eignir olíufélaganna. Í fyrsta lagi tel ég víst, að hægt sé að ná samkomulagi um slíka hluti og þurfi nær hvergi að grípa til harðræða til þess að fá olíugeyma og önnur tæki félaganna keypt. En ef svo færi, að á einhverjum stað næðist ekki samkomulag, væri ekkert því til fyrirstöðu að fá Alþingi til þess að veita eignarnámsheimild. Í öðru lagi sýnist ekkert vera því til fyrirstöðu, að ríkið komi upp þessum tækjum sjálft í stað þess að taka þannig eignir olíufélaganna.

Olíufélögin selja nær alla brennsluolíu, sem seld er hér innan lands, og munu þau geta litið svo á, að hér sé gerð hörð tilraun til að taka olíuverzlunina úr sínum höndum. Má því búast við, að þau snúist hart við til þess að reyna að halda fríðindum sínum. Olíufélögin hér njóta ríkulegs stuðnings erlendra verzlunarfyrirtækja. Geta þau fyrirtæki vel litið svo á, að hér sé um óvenjuleg ráð að ræða til þess að ná í okkar hendur þessum eignum. Ef við í löggjöf setjum að óþörfu óvenjuleg ákvæði í þessa átt, ákvæði, sem aðrar þjóðir teldu. ekki menningarlegar, gæti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur. — Ég vildi aðeins láta þessa getið, þótt olíufélögin séu innlend fyrirtæki.

Það ber að gjalda varhuga við að setja í íslenzka löggjöf ákvæði, sem samrýmast ekki réttarmeðvitund fólksins, og það samrýmist ekki réttarmeðvitund þess, að einhver aðili geti tekið mannvirki eignarnámi sjálfum sér til eignar. Get ég því ekki fallizt á að samþ. þessa till. og tel ég málinu borgið, þótt 6. gr. falli niður. En ef hún verður samt sem áður samþ., munum við hv. þm. Vestm. taka það til athugunar, hvort við berum fram brtt. þar að lútandi við 3. umr. málsins.