19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Ólafur Thors:

Eins og menn hafa heyrt, þá er ekki hægt að fá nein svör við því hjá hæstv. ráðh., að hve miklu leyti hann telur nauðsynlegt að nota þessa takmarkalitlu heimild til leigu- eða eignarnáms. Skal ég víkja að því síðar.

Ég vil að öðru leyti, út af þeim ræðum, sem hæstv. atvmrh. flutti, þegar hann reifaði þetta mál við 1. umr., og ræðu, sem síðar var nokkuð með óvenjulegum hætti birt í útvarpinu, geta þess, að ég tel, að í þeirri síðastnefndu ræðu sé ekki nákvæmlega með staðreyndir farið og óþarflega hallað á fyrrverandi ríkisstj. í málinu. Það er eiginlega ekki annað að sjá af þessari ræðu en að núverandi ríkisstj. hafi ein og fyrst allra séð ástæðu til þess að rísa gegn fyrirhuguðum breyt. Bandaríkjamanna í sambandi við olíusöluna. Og segir hæstv. ráðh. um það í þeirri ræðu, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórnin tók við olíumálum landsins þannig 16. des. s. l., að stórkostleg hækkun á heildsöluverðinu var skollin á.“ — Þetta er rangt. Það var engin hækkun skollin á í raun og veru, því að einmitt vegna þess, að fyrrverandi ríkisstj. tók í öndverðu á þessu máli eins og hún gerði, var verðhækkunin ekki skollin á. Fyrrverandi ríkisstj. hélt því fram við yfirvöld Bandaríkjanna í þessum málum, að verðhækkunin væri óþörf. Þegar mér bárust til eyrna þessar kröfur frá olíufélögunum um hækkun á olíuverðinu, þá færði ég fram við sendiherra Bandaríkjanna öll þau rök í þessu máli, sem til greina koma. Ég gerði það mest í viðræðum við hann, en sumpart í bréfi, sem ég afhenti honum. Í bréfinu segi ég beinlínis, að verði ekki fallizt á kröfur Íslendinga um þetta, þá verði ekki annað sýnna en ríkissjóður muni þurfa að greiða mismuninn á verðinu, þ. e. olíuhækkunina, og það verði kannske með öllu ókleift fyrir ríkissjóð eins og komið væri fjárhagsástæðum Íslendinga. En ég sagði við sendiherrann strax í upphafi, að þessar kröfur væru með þeim blæ, að þær væru ekki frambærilegar. Við Íslendingar höfðum samið við Bandaríkin um sölu á sjávarafurðum til þeirra í heilt ár fram í tímann. Að sönnu tóku Bandaríkin ekki sömu ákvörðun um olíuverðið og Bretar, en þeir ábyrgðust á sínum tíma, að Íslendingum skyldi bætt það, ef olíuverðið hækkaði. Þetta var ekki tekið með í samningana við Bandaríkin beinlínis vegna þess, að það var talið sjálfsagt, að Bandaríkin tryggðu þetta, m. a. af því, að það var talin siðferðileg skylda, að olíuverðið yrði ekkí hækkað, meðan samningurinn gilti, því að það er óeðlilegt og óaðgengilegt, þegar Íslendingar seldu vörur sínar til árs fram í tímann, að ein aðalnauðsynjavara þeirra hækkaði með þeim hætti, sem hér skyldi verða. Hér var sem sé ekki um að ræða hækkun, sem stafaði af venjulegum verðlagsbreyt. á flutningsgjaldi eða verðlagsbreyt. á erlendum markaði, heldur af samningum, sem komið var á milli Bretastjórnar og Bandaríkjastjórnar, án þess að Íslendingar væru að spurðir. Og það væri að koma aftan að Íslendingum, ef Bandaríkjamenn semja um kaup á íslenzkum vörum fram í tímann og gera svo skipulagsbreyt. á sölu olíunnar og breyt. á verði hennar á sama tíma. Ég sýndi sendiherranum fram á þetta. Og ég sýndi honum líka fram á það, að þegar sú skipulagsbreyt. yrði, þá ætti af henni að leiða lækkun á flutningsgjöldum, en ekki ferfalda hækkun, eins og Bandaríkjastjórn fór fram á, að reiknað yrði með. Ég sýndi fram á, að hvorki reikningslega séð né eftir eðli málsins væru þessar kröfur frambærilegar.

Ég held, að það hafi ekki farið dult hjá sendiherra Bandaríkjanna frá því fyrsta, er ég talaði við hann, að hann var á mínu máli um þetta. Og ég held, að þegar sendiherra okkar kom fram með málaleitun um þetta og jafnframt var talað um þetta gegnum sendiherra Bandaríkjanna hér, þá hafi málstaður minn náð fram að ganga.

Ég get nú ekki sætt mig við, að ópólitísk stjórn láti birta það í útvarpi, að þessi mál hafi verið eins og skip, stjórnlaust og stýrislaust, þangað til hæstv. núverandi stjórn tók stjórnvölinn í sínar hendur. Þetta er að vísu ekki aðalatriði málsins. En ég hefði gaman að heyra þau rök, sem hæstv. atvmrh. hefur fært fram til framdráttar þessu máli, umfram það, sem núverandi stjórn færði fram og náðu til úrslita í þessu máli. Eru þau meira en þetta: Við höfðum selt vörur okkar fyrir eitt ár fram í tímann, og það var ekki frambærilegt að koma aftan að okkur með samningum milli ríkja á þeim tíma um olíuverzlunina, sem höfðu í för með sér hækkað verð á þeirri vöru, þar sem Bandaríkin höfðu selt okkur olíuna, samningum, sem yrðu þess valdandi, að olíuverðið stórhækkaði. Í öðru lagi, að af þessari skipulagsbreyt., sem fyrirhuguð var á olíuverzluninni, leiddi eðli málsins samkvæmt, að verðið átti að lækka, en ekki hækka, bæði af því að skipin, sem fluttu olíuna, voru stærri og farmgjöldin lægri og auk þess vátrygging ódýrari með þessu fyrirkomulagi. Og loksins, að í þeim umr., sem farið höfðu fram um málið, hafði flotamálastjórn Bandaríkjanna hér á landi eða yfirmaður hennar látið þess getið, að hann teldi útilokað, að af þessu skipulagi gæti leitt hækkun á farmgjöldum. Hann hafði að vísu ekkert umboð Bandaríkjastjórnarinnar til þess að segja þetta, heldur þá heilbrigðu skynsemi, sem leiðbeindi honum um það, að þetta væri það eðlilega og þess vegna gæti engin hækkun á olíuverðinu komið til greina. — Ég vildi gjarnan fá að heyra hvaða rök það væru, sem hæstv. núverandi ríkisstj. hefur flutt fram, sem gefur hæstv. atvmrh. ástæðu til þess að hafa að engu það, sem fyrrverandi stjórn hafði gert í þessu máli og grundvallar þessa staðhæfingu: „Ríkisstjórnin tók við olíumálum landsins þannig 16. desember s. l., að stórkostleg hækkun á heildsöluverðinu var skollin á.“ Hvaða tillögur til úrbóta voru það, sem núverandi hæstv. stjórn bar fram, fram yfir það, sem fyrrverandi stjórn bar fram um það, að verðhækkun ætti ekki að skella á? Og bar ekki fyrrverandi ríkisstj. fram rök sín af því, að verðhækkunin var ekki skollin á? Mig langar til þess að fá þessu svarað. Og þetta gæti kannske orðið tilefni til þess, að ég gæti fengið að ræða þetta í útvarpi við hæstv. ráðh. Ég held því fram, að á þessu máli hafi verið tekið af fullkominni festu af hæstv. núverandi ríkisstj. og að þar hafi notið við aðgerða fyrrverandi stjórnar í málinu.

Varðandi þetta frv. að öðru leyti veit ég ekki betur en hæstv. ríkisstj. njóti um það stuðnings þingsins. Og mér hefur verið tjáð af formanni mþn. í sjávarútvegsmálum, að rannsókn málsins væri ekki það langt komið enn þá, að fyrir lægi málefnaleg rannsókn, sem nægði til þess, að málið yrði borið fram á Alþ. Og mér finnst líka eðlilegt, að svo sé. Hitt er svo rétt stefna að minni hyggju í þessu máli, að að svo miklu leyti sem sjávarútvegurinn er ekki fær um af eigin rammleik að koma sér upp þeim tækjum, sem nauðsynleg eru til þess að geta rekið sjálfur þessa verzlun, þá skuli ríkið aðstoða hann til þess. En ég hygg nú, að það orki tvímælis, í hverju sá stuðningur eigi að liggja. Það er eitt af því, sem betur þarf að rannsaka. En að minni hyggju hafði ég talið, að mest nauðsyn væri á, að ríkið tryggði, að hér kæmist á eins konar sölumiðstöð á olíu í Reykjavík eða annars staðar þar, sem hentugast þætti að koma henni á. Ég held, að ég megi segja það almennt fyrir hönd sjálfstæðismanna, að við teljum eðlilegast, að útgerðarmenn eins og aðrir hafi þau samtök, sem þeim sjálfum líkar, til þess að afla sér nauðsynja sinna, og það af eigin rammleik. Svo getum við tekið undir það, að einstaklingum er ekki kleift að ráðast í það í þessu efni. Og ég held, að olían falli kannske ein sér eða þá í fremstu röð af nauðsynjum útgerðarinnar undir þann ramma, að þetta sé ofviða einstaklingum. Útgerðarmenn hafa reynzt færir um að kaupa salt- og kolafarma og veiðarfæri og annað handa útgerðinni af eigin rammleik. En reynslan hefur sýnt, hve miklum erfiðleikum það er bundið hér á landi að koma upp stórum tönkum, til þess að þessi verzlun gæti orðið rekin á hagkvæmasta hátt. Ég hef ekki komið auga á, að það atriði yrði betur tryggt með öðru en því, að þeir útgerðarmenn, sem koma vilja sér upp tönkum, geri með sér eigin samlög. Og ég viðurkenni, að ég hafði helzt látið mér koma til hugar, að þar þyrfti stór birgðastöð að koma til — og þá kannske, að þar með fylgdu skip og annað, sem þyrfti til þess að annast dreifinguna. Að þessu leyti er þessi till., sem hér er fram borin, í fullu samræmi við till. okkar sjálfstæðismanna.

Það verður svo alveg mál fyrir sig, hvenær á að láta skríða til skarar um þetta. Það má segja, að því fyrr sem hafizt er handa, því fyrr nái málið höfn í þessu efni, og skal ég á engan hátt mótmæla því, að eitthvað verði nú þegar að gera í þessu efni. Ég hygg þó, að róleg og skynsamleg yfirvegun á málinu mundi hafa leitt til þess, að menn hefðu komizt að niðurstöðu um, að það væri kannske ekki öðru sinni síður ástæða til þess að leggja í dýran stofnkostnað en í dag, vegna þess að nú getum við haft óvenjulega sterka aðstöðu til þess að hafa fullt eftirlit með álagningu olíufélaganna. Ég skal ekki ráðast á olíufélögin, ég hef ekki næga þekkingu til þess, en ég geri ráð fyrir, að þau hafi aldrei gert ráð fyrir að vera neinn frelsisher hér á landi, heldur ætlað sér að hagnast á olíuverzluninni svo sem kostur væri. Ég geri ráð fyrir þessu, en veit ekkert um þetta. Mér er sagt, að árin fyrir stríð hafi þessi félög tapað, vegna þess að erfitt hafi verið að fá greiðslur fyrir vörur, sem þau seldu. Um þetta veit ég ekki heldur. En hafi nokkru sinni verið hægt að hafa eftirlit með álagningu þessara félaga, þá hlýtur það að vera nú, ef verðlagseftirlit ríkisins er ekki bara sjón, heldur reynd. Mér er sagt, að olían fáist nú fyrir um 17 aura lítrinn hér í Hvalfirði. Það getur ekki verið ofviða verðlagsyfirvöldunum að hafa þekkingu og dugnað til þess að sjá um, að þessir 17 aurar verði ekki margfaldaðir, þegar olían kemur til þeirra, sem nota hana. Af þessum ástæðum er síður þörf á að ráðast í þetta nú en kannske verða mun nokkurn tíma síðar. Það er varhugavert, ef stíga á stórt spor, að hafa ekki alla gætni við. Menn skyldu varast að stofna til fyrirtækis með meiri kostnaði en þörf er á, en stofnkostnaður mundi vafalítið verða meiri nú en á venjulegum tímum. Þeir, sem fara með slík mál, verða að kunna fótum sínum forráð. Aukakostnaður sá, sem af dýrtíðinni leiðir, mundi auðvitað leggjast með áframhaldandi þunga á rekstrarafkomu næstu ára. Ég vil lýsa yfir því hér fyrir mitt leyti, að ég er samþykkur þeirri grundvallarhugmynd, að útvegsmönnum sé gert léttara fyrir að því leyti, sem þeir eru ekki einfærir um það að ná í sínar hendur viðskiptum með þessar nauðsynjavörur sínar, en vil þó beina til hæstv. Alþ. og stjórnarvaldanna þessum tveim fyrirspurnum: Er það ekki rétt, að einmitt nú höfum við sérstaka aðstöðu til að hafa öruggt eftirlit með vöruálagningu, og leiðir ekki af því, að af þeirri ástæðu sé minni þörf en ella mundi á því að leggja í mikinn stofnkostnað, eins og hér er ætlazt til? Og ber ekki að hafa hliðsjón af þessu, þar sem vitað er, að stofnkostnaður mundi vera margfaldur á við það, sem vera mundi, ef beðið yrði? En sé sú skoðun hæstv. ráðh. á rökum reist, að sérstök ástæða, sem mér er ekki kunn, sé fyrir hendi og hafa verði hraðann á um þetta mál, þá vil ég raunar segja það, að svo margur peningurinn fer til misjafnra hluta, að ég sé svo sem ekkert eftir því, þó að geymarnir verði eitthvað dýrari en ella mundi. Hins vegar er ég andvígur því fyrir hönd útvegsmanna að ráðast í það nú að taka hina stóru olíugeyma, ef greiða á þá með sannvirði dagsins í dag.

Ég verð að viðurkenna, að mér þótti 1. gr. frv. nokkuð glannaleg, þó að ákvæði hennar þyrftu raunar ekki að leiða til óráðs, ef hæstv. ríkisstj. kynni nægilega fótum sínum forráð. Það væri glannalegt af hæstv. Alþ. að veita ríkisstj. heimild til að framkvæma allt það, sem 1. gr. fjallar um. En nú hefur hv. n. dregið mjög úr þessu með þeirri takmörkun, sem á þetta er sett, og ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. taldi hana til bóta. Ég lít á þetta sem yfirlýsingu af hans hálfu um það, að hann ætli ekki að nauðsynjalausu að haga framkvæmdum þannig, að stofnkostnaður verði óeðlilega mikill. Frá sjónarmiði Sjálfstfl. er ekkert í 1. gr., sem stríði á móti stefnu flokksins eða sé í ósamræmi við eðlilega lausn málsins, en um 6. gr. er það að segja, að ég get ekki greitt atkv. með henni. Það er réttilega tekið fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að um er að ræða tiltekna eignarnámsheimild. Er ástæða til að ætla, að Alþ. muni neita hæstv. ríkisstj. um þessa heimild, og er hæstv. ráðh. viss um, að þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, muni ekki telja, að hér sé of langt gengið að nauðsynjalausu? Ég skal viðurkenna hér í þingsalnum, að ég veit ekki, hvernig við erum á vegi staddir um öflun olíu. Við sáum það, að víða var hægt að fá olíu fyrir stríð, og við vorum komnir á rétta leið um öflun hennar. Ég ætla ekki að ganga lengra, ég veit, að menn skilja, við hvað ég á. En um 6. gr. vil ég að öðru leyti segja það, að ég held, að mig reki rétt minni til, að um svona eignarnámsheimild urðu hörð átök í fyrra, og Alþ. neitaði þá um hana nema með því skilyrði, að lögð væri á ákveðin skylda, sem væri innt af höndum innan stutts frests. Alþ. sagði þá, eins og ég vil segja nú, að slíku ætti ekki að beita nema í ýtrustu nauðsyn. Það er vissulega of nærri gengið einstaklingsfrelsinu, ef menn eiga yfir höfði sér sverð eignarnámsins og geta búizt við því, að eignir þeirra verði teknar að miklu eða öllu leyti, — ef ekki nú, þá síðar meir. Slík óvissa hlýtur að lama allan atvinnurekstur. Fyrir þessu kunna að vísu að vera einhver fordæmi, en þó minnir mig, að fyrirtæki eins og t. d. póstur og sími hafi enga heimild til að taka lóðir eignarhaldi, þó að þau þurfi á þeim að halda, og er þó hér að ræða um einhverjar nauðsynlegustu stofnanir þjóðfélagsins, og eignarnámsheimildir í sambandi við hafnargerðir tel ég ekki hliðstæðar þessu. Ég vil því mjög brýna fyrir mönnum að lögfesta hér ekkert, sem gæti orðið vopn í baráttunni gegn góðri hugsun, og allra sízt ætti að gera slíkt, ef ekki er fyrir hendi skilyrðislaus nauðsyn.

Ég hef nú beint nokkuð mörgum fyrirspurnum til hæstv. ráðh. Hann getur haft svör sín stutt, að því er snertir athugasemdir mínar við ræðu þá, sem hann hélt við 1. umr. En ég vildi heyra, hvort honum finnst ég deila á hann af ósanngirni. Hitt skiptir þó meira máli, hvort hann telur hyggilegt að hafa 6. gr. eins og hún er, hvort það er ekki rétt hjá mér, að við stöndum nú óvenjuvel að vígi um það að hafa eftirlit með verðlaginu, og hvort hann kvíðir því ekki, að stofnkostnaðurinn muni valda útveginum erfiðleikum.

Að lokum vil ég segja, að ég sé í þessari hugmynd áframhald þeirrar viðleitni útvegsmanna undanfarin ár að gæta hagsmunamála sinna, og ég vona, að þeim veitist, áður en langt um líður, færi á að kaupa olíu sína sjálfir og síðan kannske salt, kol og veiðarfæri. Þetta er eðlilegt og æskilegt, þó að hverjum útvegsmanni verði vitanlega frjálst að vera utan við slík samtök. En mér finnst þó æskilegt, að þeir hafi sín viðskipti fyrir sig.