19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Hv. þm. G.-K. spurði, hvort það væri fyrir útgerðina gert að hraða þessu máli svo sem stjórnin fer fram á. Já, það er fyrir útgerðina gert til þess að hún fái ódýrari olíu. Það er augljóst mál, að það er ódýrara að flytja olíuna í tankskipum á hafnir og dæla olíunni úr skipinu í geyma en að fylla tunnur, með því verði, sem nú er á vinnu, og flytja þær síðan á hafnir, með því flutningsgjaldi, sem nú gildir. Þess vegna er það fyrir útgerðina gert að hraða framkvæmd þessa máls.

Sami hv. þm. gekk eftir svari við spurningu, sem mér því miður sást yfir að svara, hvort ekki væri léttara nú að hafa eftirlit með olíuverðinu en áður var. Jú, það er léttara en stundum áður. En það er ekki nóg að hafa eftirlit. Tvennt er það, sem hefur gert olíuna dýra. Kostnaðurinn við dreifinguna hefur verið meiri en hann þyrfti að vera, og ágóði hefur verið meiri en ég tel, að hann hefði átt að vera. Það er máske hægt að koma á svo sterku eftirliti með olíufélögunum, að ágóðanum sé haldið í skefjum, en ég efast um, að ríkisstj. hafi vald til að fyrirskipa um rekstrarfyrirkomulag félaganna. Þess vegna tók ríkisstj. það ráð að bera fram frv. þetta og með því hafa áhrif á, að aðrir en olíufélögin gætu fengið olíuna ódýra. Það er gert fyrir útgerðina, en ekki aðra.

Viðkomandi því, sem hv. þm. sagði, að ég hefði talið „óskaplegt“, að fyrrv. ríkisstj. skyldi ekki hafa verið búin að byggja olíugeyma úti um land, þá sagði ég, að það væri óskaplegt, að olíufélögin skyldu ekki hafa sinnu á að byggja tanka. Það hneykslaði mig. (ÓTh: Hæstv. ráðh. sagði „ríkisvaldið“) . Mér finnst óskaplegt, að olíufélögin skyldu ekki hafa komið auga á þennan sjálfsagða hlut. Mig undrar, að það skyldi ekki heldur vera gert af löggjafarvaldinu. Mig undrar það. En ég var ekki að sveigja að neinum sérstökum, hvorki fyrrv. viðskmrh. né fyrrv. forsrh., með því, sem ég sagði.

Viðkomandi hinu atriðinu, sem hv. þm. hefur fléttað inn í þetta mál, — hann var með ádeilu á mig, og ríkisstjórnina yfirleitt, — að ég hefði í ræðu minni haft þau orð um fyrrv. ríkisstj. í sambandi við olíumálið, sem væru röng, villandi og óréttlát, þá er það að segja, að ef nokkur slík orð eru í nefndri framsöguræðu minni í þessu máli, þá er ég reiðubúinn að taka þau til baka. Það, sem ég sagði, var þetta: „Ríkisstj. tók við olíumálum landsins þ. 16. des., og var þá stórkostleg hækkun skollin á. Samkv., upplýsingum olíufélaganna nam þessi hækkun 7 millj. kr., en fyrir góðan skilning Bandaríkjastjórnar fékkst þessi hækkun felld úr gildi og það þannig, að hún verkaði aftur fyrir sig.“ Ef hér er nokkuð órétt, nokkurt orð ofsagt, þá lýsi ég yfir, að það skal aftur tekið. En ég óska, að á slík röng orð sé bent. — Ég veit, að hvert orð er hér rétt. Það, sem ég hef sagt, er rétt. Ég tel það ekki auglýsingastarfsemi að gefa skýrslur, sem ekki er hægt að hrekja eitt orð í.