24.11.1943
Efri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Þetta frv. var borið fram af ríkisstj. með það fyrir augum, ef það skyldi verða að l., að þá geti það orðið til þess að gera olíuverzlun í landi hér ódýrari og hagkvæmari fyrir þá, sem olíuna þurfa að fá, og þá fyrst og fremst fyrir sjávarútveg landsins.

Það má segja, að það séu þrjú meginatriði í þessu frv., fyrst það að heimila ríkisstj. ef þörf gerist, að kaupa, byggja eða leigja aðalbirgðastöð og á sama hátt að kaupa, byggja eða leigja olíuflutningaskip, sem gætu flutt olíu frá aðalbirgðastöðinni út um landið. Ég vil taka það fram, að það er ekki ástæða til þess að gera ráð fyrir, að það þurfi til þessa að grípa meðan sú skipan er á olíuflutningum til landsins, að flotastjórnirnar selja okkur olíu frá birgðastöðvum sínum og eru hjálplegar þegar á þarf að halda um flutning á olíu til landsins, eins og hingað til hefur verið. En þegar það ástand verður ekki lengur, þá er ástæða til að hafa þessa heimild.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í frv., að með hjálp ríkissjóðs, sumpart með styrk og sumpart með lánum úr fiskveiðasjóði, sé létt undir með ýmsum þeim enn þá mörgu verstöðvum á landinu, sem ekki hafa neina olíugeyma, til þess að byggja olíugeymana. Og eftir athugun, sem gerð hefur verið, þá eru það milli 30 og 40 verstöðvar á landinu, sem þessa þurfa með.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í 6. gr. frv., að ríkisstj. sé gefin heimild til eignarnáms eða leigunáms á olíugeymum, sem til eru í landinu, þar sem slíks væri nauðsyn til þess að gera aðstöðuna til dreifingar á olíunni hagkvæmari og ódýrari. Í öðru lagi er í sömu gr. ákvæði um það, — undir þeim kringumstæðum, að þau félög, sem greind eru í frv. og hefðu rétt til þessara framkvæmda, þurftu þess með, — að heimilt væri ríkisstj. að taka eignarnámi lönd til þess að byggja olíugeyma, og er þetta sams konar heimild og áður hefur verið veitt í nokkrum tilfellum og almennt er veitt í sambandi við bryggjugerðir.

Eins og ég hef tekið fram, þá er meginkafli frv. og aðalatriði þess það að veita styrki og lán til þess að koma upp olíugeymum á þeim stöðum á landinu, þar sem þeir eru ekki til nú og þar sem sýnt er, að það mundi orka því að gera olíudreifinguna og olíuverzlunina ódýrari. Ríkisstj. lítur svo á, að með þessu megi stíga spor til þess að gera þessa verzlun miklum mun hagkvæmari en hún hefur verið hingað til, og vill hún mæla með því við hv. þd.samþ. þetta frv. eins og það hefur gengið í gegnum hv. Nd.

Samkvæmt beiðni minni vann hv. sjútvn. þessarar d. að athugun málsins með sjútvn. Nd., og er mér kunnugt um, að báðar þessar n. unnu þar saman. Vænti ég þess því, að sjútvn. þessarar hv. d. hafi þegar fjallað svo mikið um frv. sem hún telji sér nægja, og vildi ég því fara fram á það, að þessi hv. d. geti fallizt á að vísa málinu ekki til n. hér, heldur afgreiða það áfram.