24.11.1943
Efri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Sem form. sjútvn. vil ég þegar í upphafi lýsa því yfir, að það er engan veginn rétt með farið, að sjútvn. beggja d. hafi orðið sammála um málið. Hæstv. atvmrh. var fullkunnugt um það, að það var mjög mikill ágreiningur um málið milli mín annars vegar, sem formanns sjútvn., og milli þess hluta sjútvn. hins vegar, sem afgreiddi málið í hv. Nd. Sjútvn. Ed. hafði því raunverulega ekkert með afgreiðslu þessa máls að gera í Nd., af þeim ástæðum, að þarna var mjög mikill meiningamunur á. Mun ég því að sjálfsögðu leggja til, að málið verði sent til sjútvn. þessarar hv. d. að lokinni þessari umr. til frekari athugunar.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að þær upplýsingar, sem um þetta mál komu frá hæstv. atvmrh., voru svo villandi, en ef þær hefðu komið réttar — eins og hv. sjútvn. Nd. átti að sjálfsögðu heimtingu á, — þá er alls ekki öruggt um það, að málið hefði verið afgr. frá hv. Nd. á þann hátt, sem gert var. Og sjútvn. þessarar hv. d. mun að sjálfsögðu óska þess og væntir þess, að hæstv. atvmrh. leggi fram fullkomin svör við þeim fyrirspurnum, sem lagðar voru fyrir hann viðvíkjandi þessu máli á sameiginlegum fundum sjútvn. beggja d., og að það séu lögð fram öll þau gögn óhlutdrægt, sem nauðsynleg eru til þess, að hv. alþm. geti dæmt um gagnsemi þessa máls.

Þó að ég geri fullkomlega ráð fyrir því, að málið fari til n., þykir mér rétt á þessu stigi málsins að ræða dálítið í heild þau sjónarmið, sem ég hef haft í þessu máli, og gera grein fyrir því, hvers vegna ég sá mér ekki fært að vera með í því að mæla með því, að málið væri afgr. frá sjútvn. beggja d. sameiginlega. Ég skal þá fyrst snúa mér að því, sem hæstv. atvmrh. minntist á hér, að þetta frv. væri alveg sérstaklega borið fram til þess að gera olíuna ódýrari. Fyrir því hafa út af fyrir sig ekki verið lögð fram nein gögn, sem væri þó nauðsynlegt til þess, að hv. þm. geti, eftir að þau liggja fyrir, greitt atkv. óhlutdrægt um málið.

Það var að vísu upplýst í sjútvn. beggja d., að olían hefði verið seld af tönkum á Siglufirði á s. l. sumri frá síldarverksmiðjum ríkisins fyrir 38 aura pr. kg. Það var einnig upplýst, að þessi sama olía hefði kostað í Hvalfirði um 175 kr. pr. tonn, eða 17½ eyrir pr. kg., og að ríkisstj. hefði getað selt þessa olíu fyrir 33 aura pr. kg. á Siglufirði, en stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefði þótt öruggara og vissara að selja hana ekki undir 38 aur. Ég hef síðan fengið upplýsingar um það, að í því verði, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. verði ríkisstj. á olíunni í sumar, séu vanreiknaðir ekki svo fáir liðir. Og vildi ég biðja hæstv. atvmrh. að athuga þá hlið málsins og gefa sjútvn. þessarar hv. d. fullkomnar upplýsingar um það, hvort þetta sé á fullum rökum byggt eða ekki, þ. e. útreikningurinn á verði og kostnaði olíunnar frá því hún fer úr Hvalfirði og þar með talið verð á henni þar, 17½ eyrir. Þessi kostnaður er nokkru meiri en gefinn hefur verið upp af hæstv. ráðh. Hann sundurliðast þannig: Flutningsgjald með tankskipi til Siglufjarðar kr. 93,70 á tonn, vátrygging kr. 1,93, leyfisgjald kr. 0,88, vörumagnstollur kr. 3,50, vörugjald kr. 6,00 og uppskipun 75 aurar. Með fob.-verði olíunnar í Hvalfirði, kr. 176,31, samtals kr. 283,07 á tonn. — Nú koma aðrir liðir, sem hér eru reiknaðir til útgjalda, sem kostnaður eftir að kaupverðið hefur verið reiknað eins og ég gat um. Þessir kostnaðarliðir eru: Rýrnun ½%, kr. 1,42, vextir, fyrning og viðhald til samans kr. 41,58 á tonn. Nú skal ég ekkert um það segja, hvort hæstv. ríkisstj. hefur lagt svo fyrir, að þessir gjaldaliðir skyldu vera reiknaðir, þegar olían var seld á Siglufirði. En ef þeir eru ekki reiknaðir, þá er vitanlegt, að ríkið er að gefa með þessari verzlun. Því að þá eru þessir kostnaðarliðir bornir af annari ríkisstofnun, þ. e. síldarverkmiðjum ríkisins. Og þá kemur til greina, hvort rétt er í slíku fyrirtæki að fara ekki heldur inn á það að bæta sjómönnum upp síldarverðið, gefa þeim hærra verð fyrir síldina, ef síldarverksmiðjustjórnin á annað borð sér sér fært að nota einhverja fjárfúlgu frá þeirri stofnun til þess að hjálpa sjávarútveginum, m. a. til lækkunar á olíuverðinu. — Þar að auki kemur bryggjuleiga, sem minnst má telja 5 kr. á tonn. Síðan afgreiðsla og mannahald við olíuverzlunina, sem yrði, ef reiknað er yfir allt tímabilið, kr. 29,17, og að síðustu skrifstofukostnaður kr. 23,75 og vextir af rekstrarfé kr. 8,49 á tonn. Og er þá kostnaðurinn á olíunni orðinn kr. 392,48 á hvert tonn á Siglufirði. Þessi olía hefur verið seld út á Siglufirði fyrir 38 aura kg., þ. e. 380,00 kr. tonnið. Og þá er annaðhvort, að ríkisstj. gefur hér svo eða svo marga kostnaðarliði eða reiknar þá á önnur fyrirtæki, þannig að hún hefur beinlínis orðið að tapa á olíuverzluninni. Hér eru svo ekki heldur reiknaðir með skattar og útsvar, sem frjáls verzlun verður að greiða. Og sé það numið burt, þá verður að finna einhvers staðar aðra tekjustofna til þess að vega upp á móti þeim upphæðum. — Auk þess, sem ég hef talið hér, vantar enn lóðárleigu, brunatryggingu, símkostnað, ritföng, skrifstofuleigu, hita, ljós og ræstingu. Ég er því ekki enn alveg sannfærður um það, að þó að þessi leið sé farin, sem rætt er um og ætlazt er til í frv., að það verði í raun og veru til þess að gera olíuna ódýrari. Ég sannfærist ekki um það fyrr en ég fæ fullkomin skilríki í hendur um, að svo sé. Ég gerði fyrirspurn um þetta til hæstv. atvmrh. í hinum sameinuðu sjútvn., hver kostnaður yrði við að koma þessum málum í það horf, sem ætlazt er til í frv. Nefndirnar fengu ekki annað svar frá hæstv. ráðh. á fyrsta stigi málsins en að það væri alveg aukaatriði. Kostnaðurinn við að koma málinu í framkvæmd væri alveg aukaatriði, hann mundi aftur koma fram endurgreiddur í betri afkomu útvegsmanna. Út af fyrir sig er það náttúrlega rétt, að svo er, að kostnaðurinn kemur fram í betri afkomu útvegsmanna, svo framarlega að hann sé minni við það að skipa málunum á þennan veg heldur en hann er með því að skipa málunum eins og nú er eða á einhvern þriðja hátt. Það er þess vegna nauðsynlegt fyrir þá, sem ætla að greiða atkv. með málinu hér á þingi, að geta gert sér grein fyrir því, hvaða söluaðferð það er, sem kostar minnst fé og er hagkvæmust fyrir olíunotendur. Ég gerði fyrirspurn um það til hæstv. ráðh., hve mikið tekjutap þetta væri fyrir ríkissjóð. Á því stigi málsins taldi hann það ekki heldur neinu máli skipta. Ég get upplýst, að á s. l. ári munu olíufélögin hafa greitt um 1600000 kr. í skatta til ríkis og bæjarfélaga hér á Íslandi. Og það er náttúrlega ekki alveg sama, hvort þeir tekjustofnar hverfa. Ef þeir hverfa, þá þarf að sjálfsögðu að finna aðra í þeirra stað. Og ef þessir skattar verða færðir yfir á útvegsmenn — og ég hef á þessu stigi málsins enga tryggingu fyrir, að svo verði ekki —, þá sé ég ekki annað en hér sé verið að taka úr einum vasanum og láta í hinn, — nema því aðeins, að það sé hugsað þannig af hæstv. ráðh., að þessar upphæðir séu teknar af einhverjum öðrum atvinnugreinum, t. d. landbúnaði eða verzlun. En mér finnst, að áður en gengið er til atkv. um þetta frv. hér í hv. d., þurfi hæstv. ráðh. að upplýsa, hvað þetta mundi koma til með að breyta skattaálagningunni í sambandi við þetta.

Hæstv. ráðh. hefur við umr. upplýst, eftir beiðni, að kostnaðurinn við að koma upp þessum olíugeymum um landið mundi verða 9 þús. kr. fyrir 25 tonna geymi, 13500 kr. fyrir 50 tonna geymi, 24 þús. kr. fyrir 100 tonna geymi og 49 þús. kr. fyrir 300 tonna geymi, en 64 þús. kr. fyrir 500 tonna geymi. Mér er nú alveg ljóst, af því að ég hef meiri þekkingu á þessari hlið málsins heldur en hæstv. ráðh., að hér er alveg um rangar upplýsingar að ræða. Og ég vildi beinlínis beina því til hæstv. ráðh. að leggja fram fyrir sjútvn. þessarar hv. d., hvernig hann hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta mundi verða kostnaðurinn við að koma upp geymunum, og að þeir menn, sem gert hafa þennan útreikning, leggi alveg skýlaust fram, hvernig hann er gerður. Ég hef óskað eftir því persónulega, að forstjóri landssmiðjunnar, sem ég veit, að hefur gert þennan útreikning, leyfði mér aðgang að því að sjá, hvernig hann er fundinn. Hann gaf mér það svar, að það yrði að biðja um það frá atvmrh. og að sjálfsögðu mundi hann þá láta þinginu í té upplýsingar um það. Ég veit, að ef hæstv. atvmrh. getur árið 1943 komið upp geymum fyrir þetta verð á Íslandi, þá þarf engan styrk til þess að byggja þá geyma. Það þarf þá ekki neinar sérstakar fjárveitingar til þess eða lán, því að þeir mundu verða gleyptir út af hverjum þeim aðila, sem vildi koma nálægt því að selja hér olíu. Því að hér er engan veginn um hálfan þann kostnað að ræða, sem verða mundi við að koma geymunum upp.

Þá vil ég einnig í sambandi við þetta frv. benda á það, að í 1. gr. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé gefin afar víðtæk heimild til kaupa eða til leigu á fasteignum og lausafé í landinu, sem hæstv. ráðh. var að enda við að lýsa yfir, að ekki væri nauðsyn að nota, svo lengi sem herlið væri í landinu og flytti olíu til Íslands. Ég sé nú ekki, ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. hefur upplýst hér um þetta atriði, að þá beri nauðsyn til að veita þessa heimild fyrr en á henni þarf að halda. Það eru, því miður, ekki mikil líkindi til þess, að herliðið fari úr þessu landi áður en næsta Alþ. kemur saman, þannig að það heldur þá áfram að flytja hingað olíu þangað til. Ég sé þess vegna enga brýna nauðsyn til þess að samþ. nú þessa gr. frv. Þar að auki hefur hv. Nd. séð ástæðu til að takmarka þessa heimild við ákveðna upphæð. Samkv. frv. hefur Nd. takmarkað hana við 15 millj. kr., og er það ekki nema brot af þeim kostnaði, sem þetta hefur í för með sér, svo framarlega að það eigi að gera þessar ráðstafanir á þessum tíma. T. d. ef ætti að taka eignir Shellfélagsins, sem það á hér, mundi það fara með ekki svo lítinn hluta af þessari fjárupphæð, sem heimildin er um.

Hæstv. ráðh. upplýsti þess utan, að það kæmi ekki til mála, að ríkisstj. tæki eignarnámi nema ákveðinn hluta af þessum fyrirtækjum og sízt þeim hluta, eins og skipum, sem yrði til þess, að atvinnufyrirtæki yrðu að stöðva rekstur sinn, en það er þó sá hluti, sem nauðsynlegast yrði að taka, ef ríkisstj. keypti sér ekki olíuflutningaskip.

Ég vil einnig benda á, að eins og frv. kom frá ríkisstj. var heimild til að styrkja, ekki eingöngu olíufélög og útgerðarmenn, heldur og samvinnufélögin í landinu, til að byggja geyma. Þetta er nú úr sögunni, enda allir nema framsóknarmenn á móti því, en það er ósamboðið Alþ. að ætla þannig að tryggja atvinnurekstur ákveðinna manna með framlagi úr ríkissjóði, á meðan aðrir verða að reka sína atvinnu á eigin reikning, auk þess sem það átti nú að fara að gefa þeim stórar gjafir ofan á allt skattfrelsið.

Ég lagði einna mesta áherzlu á það í samtali mínu við ráðh., að ef horfið er að þessu ráði, þá sé því a. m. k. bætt í l., að tryggt sé, að þeir staðir, sem ekki gætu strax fengið olíugeyma, — því að þeir verða margir, a. m. k. 40, og þetta verður ekki gert á degi og ekki einu sinni ári, þetta er skipulag, sem tekur langan tíma að koma á laggirnar, ekki sízt nú, þegar bæði vantar efni og vinnu —, verði ekki verr úti en hinir, þannig að þeim sé tryggt olíuverð, ekki lakar en nú er, með því fyrirkomulagi, sem nú er á olíuverzluninni. En atvmrh. lagði á móti því. Hann taldi, að þeir, sem bezta aðstöðu fengju strax, nytu einnig beztra kjara um olíuverð. Ég tel þetta algerlega rangt og get aldrei greitt atkv. með því. Þegar verið er að tryggja mönnum lágt verð, þá verður að tryggja, að þeir, sem verst eru settir, verði ekki að borga brúsann og borga meira en þeir gera nú. Mismunurinn á olíuverðinu nú á slíkum stöðum og því, sem það er hér, mun vera um 5 aurar á kg. Ef þetta frv. verður að l., verður að setja inn í l., að þessi hlutföll megi ekki raskast, ef ríkisstj. hefur ekki gert ráðstafanir til að koma þessum útgerðarstöðum inn í kerfið, — en það mun taka nokkuð langan tíma.

Þessir staðir verða fyrst útundan, ef þetta frv. verður samþ. Því meiri ástæða er til að tryggja beint með lagasetningu hag þeirra manna, sem verða fyrir barðinu á olíuverðinu vegna aðgerða ríkisstj.

Ég vil þá aðeins fara nokkrum orðum um 6. gr. frv., sem er ein af þeim gr., sem ég á engan hátt get fallizt á eða greitt atkv. með í n. eða þd. Þetta fer ekki eingöngu fram á heimild til eignarnáms handa bara bæjar- og sveitarfélögum, heldur handa einstökum verzlunarfélögum, og átti að ganga svo langt fyrst, að það, átti að vera hægt að taka það eignarnámi handa samvinnufélögum, sem vildu hafa með höndum olíuverzlun á staðnum, og það takmarkalaust um tíma, verð og upphæðir. Ég tel það óverjandi af Alþ., ef það ætlar að veita heimild til eignarnáms, eignarleigu og jafnvel eignaráns, eins og það gerir, ef þetta frv. verður að l.

Ég vil benda á í sambandi við þetta, að hér var nýlega til umr. hliðstætt mál, — Grafarholtsmálið á s. l. þingi, — en það átti að taka þá jörð undir Rvík. Þá var því haldið fram af Framsfl., að það væri gegn virðingu Alþ. og jafnvel stjórnarskrárbrot að leyfa það, nema það væri takmarkað við einhvern tíma, og einn þm. Alþfl., sem nú fylgir þessu frv., barðist á móti því frv. í Nd. og taldi ekki sæmilegt að taka eignina eignarnámi, nema sett væru takmörk fyrir því, hvenær það yrði gert. Það sama hefur gerzt í Nd. í bíómálinu. Og ég vil benda hæstv. ráðh. á ummæli, sem hans flokksblöð hafa haft í þessu sama máli, til þess að sýna, að hann hefur farið inn á ranga braut. Hér stendur, með leyfi hæstv. forseta.

Alþ. hefur haft þá venju að veita ekki eignarnámsheimild til bæjar- eða sveitarstjórna, nema um nafngreinda eign sé að ræða, mjög eindregin ósk hafi komið fram um eignarnámsheimildina, sýnt væri, að hún yrði tafarlaust notuð og myndi verða til hags fyrir kaupendurna.“

Þarna eru þá þrjú höfuðskilyrði: 1) eignin eða eignirnar eiga að vera nafngreindar, 2) það þarf að hafa komið fram ákveðin ósk um það, og 3) heimildin þarf að vera tafarlaust notuð.

Þessi orð í Tímanum sýna, hver hefur verið venjan, og þótt ekki sé um merkara blað en Tímann að ræða, þá hefur honum einu sinni ratazt satt orð á munn.

Svo segir áfram: „Ef Alþ. hefði átt að veita eignarnámsheimildina til kvikmyndahúskaupa, með venjulegum hætti, hefði hún átt að vera bundin við nafngreinda eign“.

Og aftur: „Í stað þess að leggja málið þannig fyrir, er frv. látið fjalla um eignarnámsheimild á öllum kvikmyndahúsum landsins, án nokkurra almennra óska bæjar- eða sveitarélaga.“

Og enn fremur: „Ef þetta frv. hefði verið samþ., hefði það verið sambærilegt við það, að Alþ. hefði veitt Rvíkurbæ í fyrra eignarnámsheimild á öllum jörðum landsins í stað þess að binda hana við Grafarholtsjörðina.“

Þetta er rétt. Hér er skýrt fram tekið, hvers vegna flokkurinn var á móti skildu máli, sem hér var á dagskrá.

„Öllum mun ljóst“, segir í sömu gr., „hvílíkur háski það hefði verið fyrir bændur landsins.“ En ef því er þannig varið, að það hefði verið

„háski fyrir bændur landsins“, ef eignarnámsheimild Rvíkurbæjar hefði ekki verið bundin við Grafarholt, hve mikil hætta er það þá ekki fyrir aðra atvinnuvegi, ef á að fara inn á þessa braut í þessu máli. Eða ætlast hæstv. ráðh. til, að verzlunarmenn eða útgerðarmenn búi við önnur skilyrði en bændur? Telur hann, að sú þjóð, sem nú er að taka sitt sjálfstæði, eigi að ætla einni stétt að búa við ein lög, en annarri við önnur? Ég vil, að hæstv. ráðh. athugi þetta. Grundvallaratriðið er, að ekki sé skipt misjafnt milli þegnanna.

Ég er ekki viss um, að þessi heimild, sem hér er farið fram á, stríði ekki á móti 62. gr. stjskr., og þá er verr af stað farið en heima setið af hæstv. ríkisstjórn.

En svo haldið sé áfram rökunum, sem fram koma í Tímanum, segir þar: „Heimildin hefði líka getað verið notuð hlutdrægt.“ Ég verð að segja, að það er hér ekki heimild fyrir því, að þessi heimild verði notuð hlutdrægt af hæstv. ríkisstjórn. En víst er, að hún hefði „getað verið notuð hlutdrægt“, ef ekki hefði tekizt að koma kaupfélögunum út úr frv. En það, sem Framsfl. gerði að skilyrði við umr. svipaðs máls í Nd., var, að það yrði ekki notað hlutdrægt.

Svo segir Tíminn að síðustu fyrir flokkinn og þá um leið ráðh., sem telja sig til hans: „Fyrir flokk, sem vill veita eignarnámsheimildir með varfærni, var ekki hægt að fara inn á þessa braut.“

Ég vil vænta þess, að sá maður, sem nú á ef til vill að bera mesta ábyrgð á starfi flokksins, geti ekki gengið inn á það, að jafnvel ráðh. flokksins geti notað heimildina á þennan hátt.

Ég hygg, að það hafi engan veginn verið reynt til fullnustu, hvort ekki sé hægt að koma olíumálunum fyrir með minna bramli og brölti en hér er á ferðinni. Mér dettur ekki í hug að verja það, sem olíufélögin hafa gert til að gera gróða sinn sem mestan. En ég vil benda á, að ríkisstj. hefur vald til að takmarka gróðann og taka hann af þeim — og hefur vafalaust gert það, — og hún hefði getað beitt valdi sínu þannig, að ekki væri um olíuokur að ræða. Ég vil líka benda á, að þessi stj. og allt landið á ekki svo litla skyldu við brautryðjendur. Ég man þá tíð, þegar öll olía var seld á tunnum. Nú er þessu breytt. Hverjir gerðu það? Ekki stjórnin. Það voru einstaklingar, sem í mörg ár spöruðu landsmönnum milljónir króna með því að flytja hingað olíu. Of ef hæstv. ráðh. vill leyta í öllum skjölum, þá mundi hann finna til gleði, að hér voru nógu stórhuga menn til að troða nýjar brautir fyrir útgerðarmenn og þjóðina: Ég held það sé nóg, að slíkir brautryðjendur séu settir undir hið stranga eftirlit um skatta o. fl., án þess að lögð sé á þá hegning fyrir að hafa gerzt brautryðjendur til blessunar fyrir land og þjóð.

Ég vil því beina þeirri aths. til hæstv. atvmrh. að taka þetta mál upp á ný til athugunar. Það er ýmislegt gott við það, t. d. að hjálpa útgerðarmannafélögum að koma upp olíugeymum. Ef hann vill gera það, þá er það gott.

Ég vil þó í sambandi við þetta mál segja, að ég veit ekki, hvaða skrípaleik er verið að leika, þegar einn daginn á að taka allar tekjur frá útgerðinni, svo að hún getur ekki starfað, með alls konar sköttum (hér er t. d. eitt frv., þar sem lagður er á hana afar stór skattur), en hinn daginn á að gefa henni einhvern hluta af því: taka krónuna og gefa til baka einseyringinn. Hann er í hæsta lagi að rétta einseyring að útgerðinni um leið og hann á sama þingi er að hlaða stórkostlegum byrðum á þennan sama útveg. Mér finnst tími kominn til að taka þetta allt til yfirvegunar og samræma það, svo að hægt sé að endurbyggja fyrir framtíðina kerfi, sem eitthvert vit er í.

Ég vil leggja alveg sérstaka áherzlu á, að tryggt sé, að þeir, sem stunda útgerð út um land, en ekki geta fengið olíugeyma, séu ekki látnir líða við þær ráðstafanir, sem gerðar verða. En ég er engan veginn sannfærður um, að það sé rétt að gera þessar ráðstafanir. Ég hugsa, að þær verði miklu fremur til að gera stórkostlega bölvun. Ég vil einnig lýsa því yfir, að þótt ég sé algerlega á móti frv., mun ég ekki hafa þann hátt á í n. að svæfa það. Ég tel það sé réttur, sem formenn n. hér á Alþ. hafa tekið sér; það er á móti öllum reglum, að menn leggist á mál og svæfi þau í n. bara af því menn eru þeim andstæðir. Þess vegna lofa ég því að láta afgreiða það í sjútvn., þótt ég sé á móti því. En þá vona ég, að ekki standi á þeim upplýsingum, sem ég hef beðið um, áður en málið verði afgr. frá nefndinni.