30.11.1943
Efri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég ætla nú að svara hv. 6. þm. Reykv. nokkrum orðum. En ég sé, að hann er ekki hér í d. En úr því að ég er staðinn upp, þá ætla ég nú samt að halda áfram með þetta mál mitt.

Hv. 6. þm. Reykv. tók fram, að verðlagseftirlitið hafi að hans dómi í heild reynzt ófullnægjandi, vegna þess að núverandi verðlagseftirlit gerði ekki, þegar er það tók til starfa, gangskör að því að lækka verð olíufélaganna. Ég gat þess við fyrri umr. þessa máls, að verðlagið hefði verið byggt á grundvelli, sem var byggður upp af tveimur fyrri verðlagsn., verðlagsn. þeirri elztu og dómnefnd í verðlagsmálum. Þessar tvær stofnanir byggðu upp þann grundvöll; sem verðlag olíufélaganna var byggt á. Ef þetta þess vegna er sök einhvers, sem hv. 6. þm. Reykv. gat um, þá er það ekki sök þess verðlagseftirlits, sem nú er. Það ætti þá að teljast sök þeirra verðlagsyfirvalda, sem voru áður en þetta verðlagseftirlit tók við. Eins og ég hef áður frá skýrt, þá byggist sá grundvöllur á kostnaðarliðum, sem félögin sjálf hafa gefið upp. Það má kannske segja, að félögunum hafi verið sýnt of mikið traust með því að taka þann grundvöll trúanlegan. En þessi grundvöllur var tekinn trúanlegur af þessum fyrri verðlagsyfirvöldum líka. Og þess vegna má nú segja, að það traust, sem þeim hefur verið sýnt, eigi töluverðan þátt í því, að núverandi verðlagseftirlit tók þetta ekki til athugunar þegar í stað, þegar það tók til starfa. Annars tel ég óþarft að skýra þetta nánar, ég er búinn að því í sambandi við verðlagseftirlitið og tel ekki mikla þörf á því að fara nánar út í það í sambandi við þetta mál.

En ég vildi að síðustu geta þess, að ef dreifingarkostnaður félaganna er réttur, ef félögin þurfa að leggja 100% á vöruna til þess að geta dreift henni út um landið, þá er eitthvað bogið við rekstur félaganna. Reksturinn getur verið heiðarlegur á allan hátt, en þetta er þá ekki rekið á þann hátt, sem á að reka það, til þess að landsmenn geti fengið vöruna við lægsta verði. Ég benti forstjórum félaganna á þetta atriði strax í fyrsta skipti, sem ég talaði við þá, og lagði fyrir þá þá spurningu, hvort þeim fyndist ekki vera eitthvað bogið við þá dreifingu í framkvæmd, þegar þyrfti að leggja yfir 100% á brennsluolíu til útvegsins í landinu. — Það er einmitt þetta atriði, sem hér er verið að ná til. Það er þessi dreifingarkostnaður, sem ég er ekki í nokkrum vafa um, að er allt of mikill. Ef kostnaðarliðirnir eru allir réttir, sem ég að svo komnu skal engan dóm leggja á, þá er þetta ekki rekið á réttan hátt og ekki á þann hátt, sem hægt er að reka það. — Þetta frv. stefnir eingöngu að því að nema í burtu þann mikla dreifingarkostnað, sem félögin hafa nú á þessari vöru. Það miðar eingöngu að því, að landsmenn geti fengið vöruna við sannvirði, við því verði, sem þeir sjálfir geta flutt hana inn og dreift henni fyrir.