30.11.1943
Efri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór) :

Ég skal vera stuttorður. Ég skal upplýsa hv. þm. Barð. um það, að ríkisstj. verðsetti ekki olíuna, sem seld var á Siglufirði, heldur það atvmrh. ríkisverkmiðjurnar að kaupa olíu og selja hana við því verði, sem þeim fyndist vera hæfilegt. Ef ég hefði verðlagt olíuna, þá hefði verðið ekki verið 38 aurar, heldur miklu lægra. Viðkomandi því, hver hafi vit á smíði olíugeyma og hver ekki, þá er grunur minn sá, að það sé mikill munur á skilningi hv. þm. Barð. á því, hvað muni kosta að byggja tanka nú, og þeirra manna, sem ég hef fengið til að segja álit sitt um þá hluti, en það er framkvæmdastjóri Landssmiðjunnar og eftirlitsmaður ríkisins, Þórður Runólfsson verkfr. Ég skal upplýsa hv. þm. og d. um það, að það verðlag, sem þeir Ásgeir Sigurðsson og Þórður Runólfsson byggja á, er kostnaðarverð, án þess að það sé búið að leggja svo og svo mikið á vinnulaunin og án þess að lagt sé á svo og svo mikið af aukagjöldum, þetta er kostnaðarverð, en ekki eitthvert tilbúið verð. Í sambandi við þetta má benda á það, að núverandi stj. lækkaði á s. l. vetri álagningu á verðlag hjá Landssmiðjunni. Svo kom verðlagseftirlitið og lækkaði einnig hjá hinum smiðjunum, því að álagningin var óhæfileg hjá þessum stofnunum.

Ýmislegt annað, sem hér hefur verið sagt af hv. þm. Barð., ætla ég ekki að fara út í. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég hef sagt áður um 1. gr. Ég hef áður ásamt hæstv. viðskmrh. gefið þinginu skýrslu um það, að það stæðu fyrir dyrum breyt. á samningum ríkisstj. við flotastjórnina um afhendingu á olíu. Þetta var upplýst fyrir meira en mánuði, og þetta stendur nú fyrir dyrum. Og því er það, að ég tel nauðsynlegt, að það sé nú gefin heimild fyrir 1. gr. Um skilning hv. þm. Barð. að öðru leyti á þessu máli er það að segja, að ég býst við, að það væri mér ofvaxið að fá hann til þess á þessum fundi að átta sig á hlutunum, að því er olíuviðskiptin snertir. En ég get fullvissað hv. þm. og hv. d. um það, að útgerðarmenn á Norðfirði munu væntanlega næstu daga byrja að selja olíuna með stórlækkuðu verði fyrir milligöngu ríkisstj., og þeir munu skilja, hvers konar viðskipti þeir hafa haft hingað til. Fiskimenn í Vestmannaeyjum og Keflavík munu skilja það þegar í dag, hvað það er að vera fjötraður við olíufélögin, þó að hv. þm. Barð. skilji þetta ekki.

Einn hv. þm. hér í þessari hv. d. sagði eitthvað á þá leið, að það hefði löngum verið svo, að ef einhver þyrfti á vinsældum að halda, að þá væri talið heppilegt að gera aths. við olíufélögin. Það mundi víst ekki mega snúa þessu þannig við, að þeir, sem hafa mesta löngun til að nota orðin „falskar upplýsingar“, þeir fari að meta meira vinsældir olíufélaganna en það að koma á hagkvæmum viðskiptum fyrir fiskimenn landsins?