29.11.1943
Efri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

91. mál, stríðsslysatrygging íslenzkra skipshafna

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þetta mál er borið fram af ríkisstj. og var vísað til sjútvn. 11. október. N. tók málið strax til athugunar og komst, eftir að hún hafði athugað það gaumgæfilega, að þeirri niðurstöðu, að ekki væri fært að samþ. það nema með stórkostlegum breytingum.

Stríðstryggingafélag íslenzkra skipshafna var stofnað 1939. Félagið hafði í upphafi fengið 600 þús. króna áhættufé. Tók ríkissjóður ábyrgð á 360 þús. krónum og þrjú slysatryggingafélög á 180 þús. kr. Útgerðarmenn, sem tryggja hjá félaginu, greiða 60 þús., og er ekki annað af áhættufénu innborgað.

Þessi félagsskapur frá 1939 starfaði án reglugerðar fyrst um sinn, en lög um starfrækslu voru sett 12. febr. 1940 og reglugerð 1. marz sama ár.

Í þeim l. segir, að tekjuafgang skuli leggja í varasjóð, unz hann er orðinn 50% af áhættufénu. En hvernig tekjuafgangi skal verja, þegar varasjóður hefur náð þessari tilteknu upphæð, á að ákveða með reglugerð, og sömuleiðis, hvernig skipta skuli eignum félagsins við félagsslit milli áhættufjáreigenda og tryggingartaka. Reglugerðin frá 1940 gengur lengra í að tryggja varasjóðinn en lögin virðast ætlast til. En nauðsynlegt var að tryggja sem bezt fjárhag félagsins, enda þótt hætta væri á, að það gerði hag áhættufjáreigenda betri, þegar eignum félagsins yrði skipt, en tryggingartaka.

Reglugerðin, sem nú gildir, er frá 1941, og gengur hún lengra í þessa átt og raskur nokkuð hlutföllum, sem lögin þó virðast heimila.

Þegar skipt hefur verið varasjóði eftir reglum, sem settar eru fram í 6. gr. l., skal því fé, sem afgangs kann að vera, skipt milli iðngjaldsgreiðenda, sem eiga að fá 75%, og áhættufjáreigenda og fá þeir 25%.

Sjútvn. boðaði á fund sinn stjórn stríðsslysatryggingafélagsins og fleiri aðila og varð samkomulag um, að rétt væri og heppilegt að komast að samkomulagi um, að starfsemi félagsins yrði ekki hætt, þótt hætt yrði við að tryggja fyrir stríðsslysum, heldur snúa sér að öðru starfi að stríðinu loknu.

Út af þessum umræðum var farið að hugsa um, hvað tiltækilegt væri að breyta lögum félagsins miðað við það samkomulag, en það er sett fram á þskj. 470. Aðal brtt. eru þær, að nú hefur félagið tvenns konar hlutverk: að tryggja fyrir stríðsslysum og safna sjóðum, og skal, þegar núverandi aðalhlutverki er lokið, nota sjóði þess sem fjárhagsgrundvöll almennra endurtrygginga í landinu, einkum til hagsbóta fyrir sjávarútveginn. 2. og 3. gr. miða að þessu og jafnframt ákvæði 4. gr. um það, hvernig fé því, sem þegar hefur safnazt, skuli skipt.

Þá er varasjóður, sem myndazt hefur eftir 31. desember 1943. Rómverskir III: almennur endurtryggingasjóður og að síðustu bónussjóður. Skulu engir, sem taka þátt í félagsskapnum ábyrgjast skuldbindingar þess umfram áhættufé og sjóði, sem áður eru nefndir, og tekjuafgang, sem félagið hefur í sínum vörzlum á hverjum tíma.

Um 6. gr. var enginn ágreiningur í n. Rétt þótti, að í stjórn félagsins ættu sæti fimm menn í stað þriggja, sem nú eru í henni, og er svo frá gengið, að ríkisstj. hafi alltaf meiri hluta þeirra, enda er ríkið stærsti áhættufjáreigandinn.

Þá þótti rétt að ákveða með lögum hámarksgreiðslu á bónusfé, svo sem segir í 8. gr. á þskj. 470. Það varð nokkur ágreiningur um 11. gr., eins og hún er nú í lögunum, um það, hvernig skilja beri þann rétt, sem útgerðarmenn og erfingjar hafa til stríðsslysatryggingagjalds, ef skip farast af óþekktum ástæðum.

Þetta er því í samræmi við óskir félaganna, sem vildu hafa örugg fyrirmæli um það í l., að ef einhverjir aðilar gerðu samning, annaðhvort um hærri tryggingar eða öðruvísi tryggingar, væri það tilkynnt, svo að félögin gætu aftur tryggt sig gegn þeirri hækkuðu tryggingu, sem þau yrðu að greiða til viðkomandi tryggingartaka. N. hefur síðan athugað þetta nánar og finnst ekki nægilega vel um þetta búið, en mun eftir að hún hefur rætt um það við viðkomandi aðila, bera fram brtt. við 3. umr. N. hefur lagt sig fram um að ganga svo frá þessu ákvæði, að það þyrfti ekki að vera neinn ágreiningur milli aðila, og mér er óhætt að fullyrða, að hver gr. á þskj. 470 var gaumgæfilega rædd, bæði milli n. sjálfrar og einnig við aðila.

Ég vil benda á það í sambandi við lið nr. 16, að það vakti fyrir n., að unnt væri að tryggja aðstandendum sem hæsta mögulega vexti. Síðan álitið var gefið út og brtt. n., höfum við átt dálitlar umr. um þetta við stjórn félagsins, og hefur hún tjáð oss, að hún sé ekki ánægð með 17. gr. eins og hún er sett fram, og mun n. taka það til athugunar milli 2. og 3. umr. og reyna að komast að fullu samkomulagi, svo að ekki valdi misskilningi. Það kom til mála að breyta þessu þannig, að ef ekki næðust lífrentukaup byggð á minnst 4% rentufæti, skyldi Tryggingastofnun ríkisins kaupa á 4% ársrentu. Ég hef rætt dálítið um þetta við hv. 3. landsk. (HG), sem er forstjóri fyrir Tryggingastofnun ríkisins, og er sammála honum um, að ekki sé eðlilegt að blanda saman í l. óskyldum stofnunum, en hins vegar finnst mér líka dálítið erfitt að skuldbinda þetta félag til þess að kaupa sjálft lífrentuna, vegna þess að það mun ekki í framtíðinni hafa neitt með lífrentukaup að gera, og þess vegna væri æskilegt, ef hægt væri að leysa þetta mál þannig, að allir gætu vel við unað, og vænti ég, að það megi takast, áður en næsta umr. fer fram, og mun n. þá bera fram brtt. þessu viðvíkjandi.

Ég vil taka það fram, að það, sem vakir fyrir n., er að reyna að tryggja sem bezt kjörin fyrir þá, sem eiga að nota lífrentuna, en undanfarið hefur lífrentan verið keypt á mjög lágum vöxtum, líklega 2½–3%, og er erfitt að sætta sig við, að það skuli vera þannig, aðeins vegna þess að lífrentan er keypt á þeim tíma, sem erfitt er að forrenta peninga.

Ég vil leyfa mér að benda á, að ef þetta frv., eins og það liggur fyrir hér, nær fram að ganga, lítur n. svo á, að málinu sé stefnt inn á þá braut að auka þjóðarauðinn með því að halda fénu óskiptu til ákveðinna starfa, í stað þess að skipta því upp á milli ótal atvinnugreina, og að þoka þjóðinni áfram að því takmarki að verða sér sem fyrst nóg um allar endurtryggingar og tryggingastarfsemi í landinu. Að n. sérstaklega óskaði að binda þetta við útveginn, kom af því, að þetta fé mest allt og raunverulega allt er komið frá útveginum og hann á fyrst og fremst að hafa hag af því í framtíðinni, að þessi skoðun er komin upp. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega benda á erfiðleikana á því að halda niðri endurtryggingagjöldum. fyrir íslenzk skip í útlöndum, og það er vegna þess, að hér í landinu er ekki nein stofnun, sem gæti tekið að sér endurtryggingar. Gerði n. sér vonir um, að þegar það er komið fram, sem hér um ræðir, yrðu stórbættar horfur um endurtryggingu skipa í framtíðinni, með því að hægt yrði að láta þetta félag taka a. m. k. töluverðan hluta af þessum störfum.

Ég vil að síðustu þakka þeim aðilum, sem hafa sýnt sjútvn. velvilja í þessu máli, svo sem ríkisstj. og öllum tryggingastofnununum og einnig þeim útgerðarmönnum, sem við leituðum til og sýndu fullan skilning á málinu. Þá vil ég taka það fram, að það var fullt samkomulag um málið, eins og ég gat um í upphafi, að öðru leyti en um þessi tvö smáatriði, sem við lögðum fyrir næstu umr., og vænti ég, að málið fái skjóta afgreiðslu, svo það dagi ekki uppi á þessu þingi.