05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

27. mál, fjárlög 1944

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera fjölorður nú fremur en vant er. En mér hefur fallið í skaut að athuga um 18. gr. og raða þar niður fyrir fjvn. Og það hefur farið þannig, að þegar það var svo borið undir atkv. í fjvn., þá mátti heita svo, að n. væri algerlega sammála um að fylgja till. mínum. Og mér þykir leitt, að hv. þm. Barð. og aðrir hv. þm. hafa á bak við hv. fjvn. komið með einstaka menn og dembt þeim með brtt. inn í þingið, án þess að verulegir verðleikar þessara manna hafi verið færðir fram eða annað því til stuðnings, að þeir ættu að takast upp í 18. gr. Jú, það hefur verið fært fram í þessu skyni um einn þessara manna, að hann hafi einu sinni fengið kross, hann hafi verið sæmdur riddarakrossi, fálkaorðunnar, — og nú eigi af þeim ástæðum að forða honum frá sveit. En þess hefur verið vænzt, að þeir hv. þm., sem brtt. vilja bera fram um að taka menn inn í 18. gr., gefi fjvn. kost á að athuga verðleika þeirra manna. Það hefur t. d. verið venja, þegar í þessu efni hefur verið um pósta og fiskimatsmenn að ræða, þá hefur fjvn. snúið sér til póst- og símamálastj. vegna slíkra manna, sem starfað hafa við þær stofnanir, til þess að fá umsagnir um þá, og í sama skyni viðkomandi fiskimatsmönnum til fiskimatsstjóra. Og þessari reglu vil ég, að enn sé haldið áfram. En nú hefur verið farið á bak við okkur í fjvn. með þessa menn. — Já, einum var talið það til gildis, að hann hefði verið hreppstjóri. En fjvn. vill fá að vita, hvaða verðleika þessir menn hafa. Þess vegna óska ég, að þeir hv. þm., sem hafa komið með brtt. um þessa menn, vilji taka brtt. sínar aftur til 3. umr., svo að fjvn. fái tækifæri til að athuga, hvort þessir menn hafa unnið til þess að vera teknir upp í 18. gr. eða ekki. Fjvn. hefur komið sér saman um það einhuga, sem hún hefur lagt til viðvíkjandi 18. gr., og ég held, að engin vandkvæði hafi komið fram um það. Það er grafin upp víss kvenpersóna á Vestfjörðum og á að knýja fram með frekju, að hún sé látin fá 500 kr. eða meira vegna fiskskoðunar, sem hún kvað hafa einhvern tíma haft með höndum, og nú er hlaupið í það af einstökum þm., þrátt fyrir till. fjvn., að heimta hækkun, án þess að nokkrum nýjum verðleikum sé til að dreifa. Í fyrra var talið nægilegt, að lýður þessi fengi 500 kr., en nú er frekjan orðin svo mikil, að heimtaðar eru 700 kr. fyrir slíkar persónur. Við verðum að fá umhugsunarfrest til að athuga þetta.

Í sambandi við aðrar gr. frv. minni ég á það, að hv. þm. Barð. sagði við mig og hv. form. fjvn., að hann væri ánægður með það, sem hann hefði fengið til vegamála, en ég sé þó ekki betur en hann hafi alls staðar í brtt. sínum farið fram á stórum hærri framlög en fjvn. Þetta eru ekki viðfelldnar aðfarir.

Þá er till. hv. þm. Barð. um framlag til viðhalds og endurbóta á prestssetrinu Brjánslæk. Í sambandi við hana vil ég segja það, að á meðan prestar verða að hverfa unnvörpum frá prestaköllum sínum vegna lélegs aðbúnaðar á ábúð þeirra, verðum við fyrst og fremst að hugsa um að bæta úr því. Á Brjánslæk er nú enginn prestur lengur, en frá ótal prestaköllum hafa komið tilmæli um það, að íbúðarhúsunum sé haldið við, því að annars neyðist prestarnir til að hverfa á brott. Fyrst er að halda við því, sem fyrir er, en síðan að byggja upp það, sem aflaga fer. Þó að ég vilji að vísu halda við hinum góðu guðshúsum, ber þó fyrst og fremst að hugsa um þá staði, þar sem prestssetur eru, því að kirkjurnar geta því aðeins komið að notum, að prestarnir fáist. Ég sé, að hæstv. forseti réttir upp blýantinn, og getur verið, að þetta komi í bág við það, sem hann hefur sagt. En ég tel, að við eigum fyrst og fremst að gera það styrkt, sem fyrir er, og þar næst færa út kvíarnar. Ef við látum prestssetrin fara í auðn, þá er til lítils að reisa kirkjur. Við verðum að sinna þeim prestssetrum, sem eiga erfitt um húsaskipun, og sjá um, að prestarnir haldi sig í sveitinni og þar næst að athuga, hvort ekki sé tiltækilegt að hressa upp á kirkjubyggingarnar sjálfar, því að kirkjur án presta er gagnslaust að hafa í sveitum landsins.

Að því er vegamálin snertir skal ég játa, að um einstök atriði varð ekki fullt samkomulag í fjvn., en hér er vandi á höndum, því að ef einhverju er haggað um þumlung, getur allt breytzt stórkostlega. En ég verð að segja, að fjvn. hefur reynt að jafna þessu milli héraða og manna eftir beztu getu. Ég álít, ef menn eru óánægðir, að þeir eigi þá að koma fram með sínar aðfinnslur til fjvn., og mun hún reyna að gera það bezta, sem hægt er. Ég skal aftur nefna 18. gr. í þessu sambandi. Þar eru hlutir, sem ýmislegt er hægt að segja um. Einstakir menn geta sagt: Þarna er of mikið og of lítið þarna. — Það getur verið, en grundvellinum má ekki raska, því að ef einhverju er um þokað, þá breytast öll hlutföllin. Ég skal benda á það, að störfum fjvn. er ekki lokið enn þá. Enn eru mörg mál eftir, sem þarf að athuga, t. d. á menntamálasviðinu, og vil ég þar minna á þjóðminjasafnið. En það dugir ekki að sækja hlutina með heimtufrekju. Menn koma og heimta fyrir sitt kjördæmi. En ef það er látið fram ganga, munu aðrir koma og heimta sinn hlut líka. Fjvn. hefur hugsað sem svo: Hvað þolir ríkið að leggja fram til þjóðþrifa? — En það stendur ekki til þjóðþrifa að fara fram úr öllu hófi. Fjvn. reynir að leysa málin eins vel og hægt er og er búin að taka á móti öllum brtt. og athuga þær. Hún hefur reynt að fara með þær eftir því, sem hún álítur bezt og réttast, og svo mun enn verða.