21.04.1943
Efri deild: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

12. mál, bannsvæði herstjórnar

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Þetta litla frv. er borið fram samkvæmt till. hæstv. dómsmrh.

Það er borið fram í tilefni af því, að því miður hafa nokkur brögð orðið að því, að einstakir íslenzkir óróamenn, einkum meira og minna drukknir, hafa gert sér leik að því að ráðast inn á bannsvæði þau, sem íslenzk stjórnarvöld hafa auglýst sem slík með tilliti til hernaðaraðgerða og hernaðarráðstafana þeirra, sem gerðar hafa verið hér á landi. Í íslenzkum l. er ekki talin vera heimild til refsinga við slíku, en þó er ljóst, að Íslendingar hafa sjálfir mestra hagsmuna að gæta um, að íslenzkum óróamönnum sé ekki þolað að egna til ófriðar og ósamkomulags milli Íslendinga annars vegar og hermanna hernaðaryfirvaldanna, sem hér eru, hins vegar, og vegna þess er það í þágu okkar sjálfra, að refsingar séu lagðar við slíku athæfi, og í tilefni af því er þetta litla frv. fram komið.

Það skal fram tekið, að þar, sem stendur í 1. gr. frv. „enda hafi bannsvæðið verið auglýst“, þá er þar að sjálfsögðu átt við auglýsingu af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, en einhliða auglýsing frá hernaðaryfirvöldunum dugi ekki.

Ég vona, að þetta frv. fái svo greiðan gang gegnum þingið, að það verði afgr. sem l. í dag.