05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

27. mál, fjárlög 1944

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Ég sakna nokkurra liða í tili. hv. fjvn., sem atvmrn. hafði gert ráð fyrir, að þar yrðu, en með því að hv. form. n. hefur skýrt mér frá, að þetta muni verða tekið til greina við 3. umr., ætla ég ekki að ræða það frekar að sinni. Hins vegar tel ég mér skylt sem sérstaklega kunnugum málunum að gera örlitla aths. við till. fjvn. um fjárframlag til viðbyggingar sjúkrahúss á Akureyri. Ég var í mörg ár form. spítalan. þar og veit því, hvað Akureyringar hafa átt við að búa í þessum efnum. Aðalhúsið, sem þarna er, var reist um aldamót, og þó að því hafi verið haldið við, gefur að skilja, að það er ekki á nokkurn hátt viðunandi sjúkrahús nú orðið. Fyrir fimm árum var byrjað að byggja nýjan spítala, en sökum fjárskorts og lítillar áheyrnar hjá Alþ. hefur verkinu miðað mjög lítið áfram. Nú hagar svo til þar, að auk 6000 manna bæjar er um stórt hérað að ræða, og til viðbótar sækir þangað ekki aðeins fólk af öllu Norðurlandi, heldur og víðar að. Spítalinn hefur fengið mjög gott orð á sig fyrir starf hins ágæta læknis, sem þar er. En hins vegar er það alveg óviðunandi fyrir Eyjafjörð, ef ekki tekst alveg á næstunni að bæta úr þeim annmörkum, sem hér er um að ræða. Hv. fjvn. hefur ekki séð sér fært að leggja til, að veitt verði meira en 200 þús. kr. til viðbyggingarinnar á næsta ári, en á þessu ári voru veittar 70 þús. kr. Ég vil eindregið beina því til hv. þm. og sérstaklega til hv. fjvn., að það sé vel athugað, að hér er mjög mikil þörf fyrir hendi, og vil ég beina því til hv. n. sérstaklega, hvort hún muni ekki vilja taka málið til nýrrar athugunar og hækka þá framlagið upp í 500 þús. kr. að minnsta kosti. Það er óþolandi, að líði áratugur eftir áratug þannig, að ekki sé búið betur að þessum málum en nú er gert í þessum stóra bæ.

Í öðru lagi tel ég mér skylt að gera athugasemdir við það, að í fjárl. eru aðeins ætlaðar 200 þús. kr. til símahúsbyggingar á Akureyri, en eins og ég hef skýrt hv. fjvn. frá, er þessi upphæð hvergi nærri fullnægjandi. En eins og hv. þm. er ljóst, er það ein meginregla núverandi ríkisstj. að láta ekki framkvæma meira en fjárveitingar eru fyrir, og það þýðir þá, að ef ekki verður úr bætt um þennan lið í fjárl., þá kemst þetta hús ekki til nota á næsta ári. Ég legg því til, að framlagið verði hækkað í 400 þús. kr., svo að ein hæðin, kjallari, geti orðið fullbúin til póstafgreiðslu á næsta ári. Það er ekki hyggilegt, þegar búið er að leggja 200 þús. kr. í kostnað, að láta bygginguna standa ónotaða í eitt ár enn, ef hægt er að gera hana nothæfa. Ég beini því þess vegna til hv. fjvn. að athuga það til 3. umr., hvort ekki sé hægt að hækka þetta framlag í 400 þús. kr.