21.04.1943
Neðri deild: 4. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

12. mál, bannsvæði herstjórnar

Pétur Ottesen:

Það hefði mátt yfir mörgu kvarta í sambandi við hernaðaraðgerðir við norðanverðan Hvalfjörð, en ég ætla ekki að fara inn á það í sambandi við þetta frv. Þó er eitt atriði, sem gefur mér tilefni til að minnast lítils háttar á þetta mál. Svo hagar til á innanverðri Hvalfjarðarströnd, að tvær jarðir liggja saman, og hefur herstjórnin tekið aðra þeirra til sinna umráða. Á hinni býr bóndi búi sínu. Nú hefur frá fornri tíð verið samgangur búpenings milli jarðanna, einkum sauðfjár. Þarna eru engar girðingar, sem varni því, að féð gangi á milli. Þegar bóndi fór að beita fé sínu, rann það yfir landamerki jarðarinnar, sem herstjórnin hefur á sínu valdi. Þegar hann fór svo að smala fé sínu, var honum fyrirmunað að sækja þangað kindur sínar. Um nokkurt skeið undanfarið hefur hann saknað kinda, sem hann veit, að eru í landi þessarar jarðar, en honum er fyrirmunað að gera leit að þeim. Hin eina linkind, sem honum er sýnd, er sú, að ef féð er við landamerkin, svo að hann getur bent á það, þá má hann sækja það, ef hermaður er í fylgd með honum.

Nú vildi ég láta koma fram, hver vandkvæði þarna hafa skapazt. Þarna eru tvær jarðir, bæði heimalönd þeirra og eins á fjalli uppi. Í sumar mun fleira fé en frá þessum bónda sækja í þetta land, og gera má ráð fyrir, að nýir erfiðleikar skapist, sem ráða þarf bót á. Ef þeir menn, sem eiga fé á þessu svæði, freista að sækja það, þá komast þeir samkv. ísl. l. undir refsiákvæði, sem ná svo langt sem hægt er að komast í þessu landi. Ég hef skrifað til utanríkisstjórnarinnar viðvíkjandi þessu og öðru, sem liggur utan við umr., sem eðlilega eru tengdar við þetta frv. Ég vildi aðeins heyra frá hæstv. ráðh., hvort hann sé ekki viðbúinn eða ríkisstj. að gera ráðstafanir til að reyna að koma í veg fyrir vandræði, sem af þessu kann að leiða. Ég vildi leggja til, að hæstv. ráðh. reyndi að fá herstjórnina til að setja sauðhelda girðingu um það land, sem hún vill ekki, að óviðkomandi menn hafi umgang um.